132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

64. mál
[15:47]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt þetta mikilvæga mál á undanförnum þingum með þverpólitískri samstöðu. Ég vil greina frá því hvernig málið stendur núna á vettvangi heilbrigðisráðuneytisins. Ég skipaði, eins og fram kom í máli þingmannsins, 5. október 2005 nefnd til að fjalla um nýtingu stofnfrumna til rannsókna og lækninga og semja frumvarp til laga um stofnfrumurannsóknir. Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að nefndin eigi að ljúka störfum eigi síðar en 31. mars 2006. Hún er skipuð eftirfarandi mönnum: Sveini Magnússyni skrifstofustjóra, sem er formaður, Sigurði Guðmundssyni landlækni, Magnúsi Karli Magnússyni lækni, Birni Guðbjartssyni, formanni vísindasiðanefndar, Þórarni Guðjónssyni frumulíffræðingi, Ingileifu Jónsdóttur ónæmisfræðingi, Vilhjálmi Árnasyni, formanni stjórnar Siðfræðistofnunar, Sólveigu Önnu Bóasdóttur guðfræðingi og Jóhanni Hjartarsyni lögfræðingi.

Nefndin hefur þegar haldið sex fundi og farið yfir helstu álitaefni sem uppi eru á þessu sviði. Hún hefur skoðað efni löggjafar í nágrannalöndunum sem snúa að þessu og hefur fengið á fundi fulltrúa frá Art Medica til að fara yfir málið. Þau meginatriði sem segja má að liggi fyrir nefndinni að taka afstöðu til við frumvarpssmíðina er eftirfarandi en nefndin hefur ekki tekið afstöðu til einstaka álitaefna en er með eftirfarandi uppi á sínu borði:

Í fyrsta lagi hvort setja eigi sérstök lög um stofnfrumurannsóknir eða hvort heppilegra sé að fella slík lagafyrirmæli inn í núgildandi lög um tæknifrjóvganir.

Í öðru lagi hvort heimila skuli rannsóknir á fósturvísum án tengsla við tæknifrjóvgunarmeðferð í því skyni að búa til stofnfrumulínur. Sé svarið við þessari spurningu jákvætt liggur fyrir að taka afstöðu til hvort leyfa eigi fósturvísa eingöngu í þeim tilgangi að gera á þeim rannsóknir eða hvort binda eigi rannsóknarheimildina við það að notaðir séu umframfósturvísar, þ.e. fósturvísar sem verða til við glasafrjóvgunarmeðferð í æxlunarskyni en nýtast ekki sem slíkir.

Í þriðja lagi hvort heimila eigi einræktun fósturvísa og þá í hvaða tilgangi.

Það er rétt að geta þess að full samstaða er um það í nefndinni að einræktun í æxlunarlegum tilgangi skuli vera bönnuð. Þá þarf að taka afstöðu til þess hvernig eftirliti skuli vera háttað og hvort og þá með hvaða hætti eigi að binda heimildir til að stunda rannsóknir á fósturvísum sérstökum leyfum. Fleiri atriði hafa komið til skoðunar, refsingar og fleira. Eins og fram hefur komið er nefndin að velta þessu máli fyrir sér í breiðu samhengi og hvort setja eigi sérstök lög um stofnfrumurannsóknir. Ég tek undir það hjá hv. flutningsmanni að víðtæk umræða um þetta mál, t.d. á vettvangi þingsins, ætti að vera af hinu góða. Ég hef ekki á móti því að þessi tillaga fari til heilbrigðis- og trygginganefndar og að tekin sé umræða um hana á þeim vettvangi. Ég tel auðvitað að efni greinargerðar hennar og sú afgreiðsla sem heilbrigðis- og trygginganefnd mundi væntanlega verða með á þessari tillögu eigi erindi til nefndarinnar. Þetta eru viðamikil mál sem hún hefur með höndum og ég tel að öll umræða í samfélaginu sé til mikils gagns í þessu efni og þar á meðal umræða þingsins. Ég hef ekki á móti því að þessi tillaga fari til heilbrigðis- og trygginganefndar eins og hún gerir og verði meðhöndluð þar og niðurstaða nefndarinnar fari síðan inn í þingið aftur til umræðu, hvernig sem hún verður.

Ég vil ljúka þessu innleggi mínu á því að þakka hv. þingmanni eins og ég hef reyndar gert áður fyrir þá vinnu og þann áhuga sem hv. þingmaður hefur haft á þessu máli sem er hið merkasta mál en flókið eins og mörg mál af þessu tagi.