132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hvenær skyldi koma að því að hæstv. forsætisráðherra Íslands hætti að tala eins og fulltrúi og talsmaður Pentagon og Bandaríkjastjórnar og fara að tala í nafni íslensku þjóðarinnar?

Það er á allra vitorði að Bandaríkjamenn stunda pyndingar á föngum bæði beint og með því að beita verktökum til að kvelja fólkið. Þeir flytja fórnarlömb sín frá Bandaríkjunum til verktakanna víðs vegar um heiminn. Þannig eru grimmdarverkin ekki framin innan bandarískrar lögsögu.

Nú er vitað að flugvélar sem notaðar eru í fangaflutningum hafa millilent hér á landi með föngum innan borðs eða án fanga. Hið síðara kann vel að vera rétt. Hitt er augljóst að á afdráttarlausan hátt ber ríkisstjórn Íslands að krefjast formlegrar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um staðreyndir þessa máls, jafnframt því sem lýsa ber yfir mjög hörðum mótmælum gegn mannréttindabrotunum, jafnframt því að allur vafi verði tekinn af um að flugvélar sem flytja fanga Bandaríkjamanna í erlend pyndingarfangelsi megi ekki undir nokkrum kringumstæðum koma í íslenska lofthelgi, hvað þá millilenda hér á landi.

Árið 2004 reis mikil mótmælaalda vegna mannréttindabrota í Guantanamo herfangelsinu á Kúbu þar sem Bandaríkjamenn eru sakaðir um að beita fanga sem sitja án dóms og laga pyndingum. Amnesty International, ASÍ, BSRB, ungliðasamtök og vefsíður tóku þátt í þessu. Mótmælin voru afhent utanríkisráðuneytinu 1. júní þetta ár. Þá komu þau viðbrögð frá utanríkisráðuneytinu að þegar hefði verið mótmælt og í svari til lögfræðingahóps Amnesty International segir í upphafsorðum, með leyfi forseta:

„Eins og fram kom í ræðu utanríkisráðherra fyrir Alþingi 6. apríl sl. eru hryðjuverk ein mesta vá samtímans og ógna frelsi og lýðræði í heiminum. Mikilvægt er að samstaða lýðræðisríkja bresti ekki og baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi verði hert um allan helming með öllum löglegum aðferðum.“

Síðan er vísað í mannréttindasáttmálann og mikilvægi þess að virða mannréttindi.

Hæstv. forseti. Ef þessi viðbrögð eiga að kallast mótmæli þá eru það í besta falli mótmæli í kyrrþey ef ekki þegjandi samþykki.