132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:38]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda gagnvart bandarískum stjórnvöldum í þessu máli hafa verið með sama hætti og hjá öðrum Evrópuríkjum. Fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna höfðu átt níu sinnum samtöl um málið frá 13. október til 5. desember þegar ég tók þetta mál upp við aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á fundi með honum í tengslum við ráðherrafund ÖSE. Síðar þann dag gaf utanríkisráðherra Bandaríkjanna út afdráttarlausa yfirlýsingu um málið til að svara þeim ásökunum sem fram höfðu komið.

Íslensk stjórnvöld hafa enga ástæðu fremur en önnur ríki til að rengja yfirlýsingu utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem hún síðan ítrekaði á fundi með mér og öðrum utanríkisráðherrum NATO-ríkjanna. Sú skýrsla sem hér er vitnað til er ekki skýrsla Evrópuráðsins sjálfs heldur er hún unnin á vegum laga- og mannréttindanefndar þingráðsins. Engar sannanir er þar að finna fyrir ólöglegum fangelsum í Evrópuríkjum eða fangaflutningum og hefur skýrsluhöfundurinn tekið það fram að slíkar sannanir liggi ekki fyrir. Í vestrænum lýðræðisríkjum er ekki hægt að hefja rannsókn án ástæðu. Íslensk stjórnvöld hafa enga ástæðu til að hefja rannsókn hérlendis á grundvelli óstaðfestra sögusagna. (ÖJ: En fangaflugið?) Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ólöglegt fangaflug hafi átt sér stað um íslenskt yfirráðasvæði.

Í bréfi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins 21. nóvember sl. er ekki farið fram á rannsókn af hálfu stjórnvalda aðildarríkjanna á meintum fangaflutningum eða leynifangelsun. Í bréfinu er spurt hvort löggjöf aðildarríkjanna sé ekki fullnægjandi til að tryggja að ólöglegt athæfi af því tagi sem um er rætt eigi sér ekki stað.

Einnig er spurt í bréfinu hvort einhver opinber embættismaður í aðildarríkjum hafi vitandi eða óafvitandi átt samvinnu við erlend stjórnvöld sem tengist þessu meinta ólöglega athæfi. Frestur til að svara þessu bréfi er til 21. febrúar nk. og verið er að undirbúa svör við því. En ég ítreka að í þeirri skýrslu sem umræddur þingmaður á Evrópuþinginu hefur kynnt er ekkert nýtt sem kallar á viðbrögð af okkar hálfu.