132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:47]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Þetta er mál sem sannarlega er vert að ræða en það verður að segjast eins og er að það er ansi sérstakt hvernig stjórnarandstaðan heldur á málinu og sérstakar þær fullyrðingar sem hér eru uppi. Ég hef fylgst með þessu, m.a. í kvöldfréttum í gær þar sem Dick Marty, sem mjög mikið er vitnað í, þingmaður á vegum Evrópuráðsins, kynnti skýrslu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór ágætlega í gegnum í hvaða ferli væri. Hann tók mjög skýrt fram að engin formleg sönnunargögn væru til staðar. Viðkomandi þingmaður taldi samt sem áður að nægar vísbendingar væru til að halda rannsókn áfram.

Það liggur hreint og klárt fyrir að Íslendingar hafa farið að eins og önnur Evrópuríki. Það liggur alveg fyrir. Einnig liggur fyrir að við erum að taka þátt eins og önnur Evrópuríki í þessari rannsókn Evrópuráðsins. Enn fremur liggur fyrir að komið hafa yfirlýsingar frá Bandaríkjamönnum þar sem þeir vísa því á bug að þeir stundi pyndingar og á sama hátt hafa þeir samþykkt ný lög 15. desember sl. um það efni. Það er ekkert sem kallar á að vera með þessar stóru yfirlýsingar sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið með, ekkert. Eðli málsins samkvæmt hljótum við að fara að eins og aðrar þjóðir Evrópu í þessum málum og okkur er ekki sama þegar pyndingar eru annars vegar. En það er ekkert sem bendir til þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert sitt til að upplýsa málið og hafi ekki farið eins að í þessu máli og aðrar þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. (ÖJ: Guantanamo er í góðu lagi.)