132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:02]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var nauðsynlegt að kalla eftir viðbrögðum hæstv. iðnaðarráðherra við forsíðu Fréttablaðsins í dag með yfirlýsingum um að ekki ætti eingöngu að ráðast í eitt heldur tvö stórverkefni á þessu sviði. Yfirlýsingar iðnaðarráðherra eru náttúrlega teknar alvarlega í samfélaginu og þær hafa áhrif á markaði. Ef það er stefna ríkisstjórnarinnar að á næstu 4–5 árum eigi að fara í tvö risaverkefni í álverum þarf að ræða það í þinginu svo fljótt sem verða má. Það er auðvitað mikil breyting á þeirri efnahags- og atvinnustefnu sem við höfum fylgt hér — það er ekki hægt að taka það bara upp í iðnaðarráðuneytinu. Við hljótum að kalla eftir því hvort samstaða sé á milli stjórnarflokkanna um að ráðast í þessi tvö stórverkefni í einu og hvort það sé ríkisstjórnarákvörðun sem hæstv. iðnaðarráðherra kynnir í Fréttablaðinu í dag og þá þær stórfelldu virkjunarframkvæmdir sem því munu fylgja á örfáum árum.