132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ástæða sé til að fella þetta ákvæði út. Eins og fram kom í máli mínu áðan tel ég það mikilvægt vegna hitaveituframkvæmda og það gildir eingöngu um þær framkvæmdir. Það gildir ekki um raforkuframleiðslu vegna jarðvarma.

Við vitum að það er stefna stjórnvalda, og hefur verið lengi, að auka hitaveituvæðingu í landinu og víða fara fram rannsóknir til að svo geti orðið. Það veit ég að hv. þingmaður veit vegna þess að þetta er m.a. í hans kjördæmi. Ég sé því ekki ástæðu til að taka þetta ákvæði út en auðvitað er hægt að fara nánar yfir það milli 2. og 3. umr. í hv. iðnaðarnefnd.