132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Í grein sem Stefán Ólafsson prófessor skrifar í Morgunblaðið 18. janúar sl. spyr hann, með leyfi forseta:

„Spyrja má hvaða brýna þörf hafi borið til að refsa eldri borgurum, öðrum lífeyrisþegum og láglaunafólki á vinnumarkaði með þessari auknu skattbyrði?“

Launabil eykst og kjaramunur vex og það er að verða fullkomið gap á milli ríkra, reyndar ofurríkra einstaklinga, og þeirra sem lægstu laun hafa hér í þjóðfélaginu. Aukinn launa- og kjaramunur er knúinn áfram af stefnu þessarar ríkisstjórnar. Fyrirtæki og þjónustustofnanir almennings eru einkavæddar og nýir stjórnendur veita sjálfum sér ofurlaun. Á þetta höfum við bent í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. En það er ekki aðeins tekjubilið sem eykst, skattstefna ríkisstjórnarinnar færir með markvissum hætti skattbyrðina á lægri og lægstu tekjur. Stóreignamönnum og þeim sem fá fjármagnstekjur er hlíft alveg sérstaklega.

Nú bera allar fjármagnstekjur 10% skatt. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram tillögur um að ákveðnar fjármagnstekjur séu alveg skattfrjálsar en síðan verði borgaður hliðstæður skattur af miklum fjármagnstekjum og gert er af launatekjum.

Frú forseti. Landssamtök eldri borgara og Öryrkjabandalagið hafa bent á að í lægstu tekjuhópunum þar sem skattbyrðin jókst mest eru flestir eldri borgarar, öryrkjar og lágtekjufólk. Heildarskattbyrði hjá þessu fólki hefur á síðustu tíu árum aukist um 14–15%. Í efsta tekjuhópnum einum þar sem menn hafa 1,2 milljónir eða meira í mánaðarlaun hefur skattbyrðin á tíu ára tímabili (Forseti hringir.) lækkað um 464 þús. kr. á árinu 2004 samkvæmt tölum Stefáns Ólafssonar.