132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:15]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breytingar á skattbyrði og hefur hæstv. fjármálaráðherra rakið nokkur góð dæmi á undan. Mér þykir þessi umræða nokkuð sérkennileg svo ekki sé meira sagt. Það er ekki boðlegt að segja að skattalækkanir undanfarin ár hafi í reynd leitt til skattahækkana og aukið skattbyrði fólks. Er það skattahækkun að hafa lækkað tekjuskatt einstaklinga um 9,6% frá árinu 1995? Er það skattahækkun að hafa lagt niður eignarskatt einstaklinga? Er það skattahækkun að hafa lagt niður sérstakan tekjuskatt sem var 5% árið 1995? Er það skattahækkun að hafa gert persónuafslátt hjóna að fullu millifæranlegan í stað þess að vera 80% millifæranlegur árið 1995? Það gefur augaleið að allir þessir þættir hafa að sjálfsögðu leitt til verulegrar lækkunar á skattbyrði og sem betur fer hafa tekjur einstaklinga aukist mikið og því tekjur ríkissjóðs einnig.

Mér finnst mjög sérstakt að hlýða á málflutning hv. stjórnarandstöðu hér og þá helst Samfylkingarinnar. Í síðustu kosningabaráttu lofuðu flestir flokkar skattalækkunum. Stjórnarflokkarnir stóðu við það loforð líkt og alltaf stóð til. Þegar við hins vegar ákváðum að lækka skatta reis Samfylkingin upp, var búin að gleyma kosningaloforðum sínum, og mótmælti skattalækkunum. Gott og vel. Það er ekkert nýtt við það að stefnan breytist úti í miðri á. En nú verð ég að viðurkenna að vera næstum því alveg mát því að síðustu daga er Samfylkingin skyndilega alveg bit á öllum þessum svokölluðu skattahækkunum sem hún virðist greina á mjög undarlegan hátt og vill lækka skatta. Er það nema von, virðulegi forseti, þó að fólk sé orðið undrandi á þessum hringlandahætti?