132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:20]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Almenningur greiðir meira í skatt en hann gerði áður. Fjölmargir sérfræðingar hafa staðfest að lækkun á skattprósentunni segir ekki alla söguna og að hún birti jafnvel villandi mynd. Fjármálaráðherra sá sem hér situr staðfesti í skriflegu svari að skattbyrði allra tekjuhópa hafi þyngst frá árinu 2002 að einum hópi undanskildum. Hjá hverjum? Hjá þeim 10% einstaklinga sem hafa hæstu tekjurnar, með meira en 1,2 milljónir á mánuði. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sömuleiðis staðfest skriflega að 95% hjóna greiddi hærra hlutfall tekna sinna í tekjuskatt árið 2002 en árið 1995, árið sem þessi ríkisstjórn tók við.

Ríkisstjórnin kemst ekki fram hjá sínum eigin tölum. Skattbyrðin hefur einfaldlega þyngst og ríkisstjórnin hefur sjálf staðfest það. Tekjuskattsgreiðslur einstaklinga til ríkisins hafa aukist um 65% á valdatíma þessarar ríkisstjórnar. Hvað segir það okkur annað en að skattbyrðin hafi þyngst? Þeir stjórnarliðar sem viðurkenna staðreyndir telja hins vegar að það sé eðlilegt að skattbyrði almennings þyngist því tekjur hafi hækkað. Þetta er rangt. Það er vel hægt að létta skattbyrðina þótt tekjur hækki. Hækkun skattleysismarka er ein leið að því takmarki. Skattleysismörkin hafa hins vegar setið eftir í tíð þessarar ríkisstjórnar og það breyttist 1996. Þau væru núna 30% hærri ef þau hefðu fylgt verðlagi.

Hræsni stjórnarþingmanna í dag er algjör. Ég get fullyrt að ef þeir væru í stjórnarandstöðu væru þeir hoppandi vitlausir yfir þessari auknu skattbyrði. Sá málflutningur hentar hins vegar ekki núna. Staðreyndir í þessari umræðu ríma illa við blekkingar ríkisstjórnarinnar eða við þann málflutning brellumeistara ríkisins sem við sáum hér í dag. Kjarni málsins er sá að ríkisstjórnin hefur þyngt skattbyrði á landsmenn nema hjá allra tekjuhæstu hópunum. Þetta staðfesta allir nema ríkisstjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) og skattabrellur þeirra geta ekki falið staðreyndir málsins.