132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:24]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Stóra spurningin í dag er hvort skattar hafi hækkað eða lækkað og ríkisstjórnin reynir að verjast með því að sveifla í kringum sig krónutölum og prósentum. En það sem brýnast er að gera er að rýna í pólitíkina sem býr að baki þessum krónutölum og prósentum og hvaða áhrif þessi pólitík hefur haft á lífskjörin í landinu. Þá kemur í ljós að sú ríkisstjórn sem nú stýrir landi okkar hefur gripið til sértækra ráðstafana í skattamálum. Þær hafa gengið út á það að létta skattbyrðum af þeim sem hafa hæstu kjörin og eiga mestu eignirnar á meðan hinir sem minnst bera úr býtum fá auknar skattbyrðar á sig. Einstaklingur sem aflar 10 milljóna á ári hagnast á skattapakka ríkisstjórnarinnar sem nemur einni milljón. Öryrki sem fyrir 10, 15 árum greiddi ekki skatta af tekjum sínum borgar núna ígildi örorkubóta í tvo mánuði. Það er þetta sem hefur verið að gerast. Þess vegna er svarið: Skattar hafa bæði hækkað og lækkað.

Fyrir síðustu kosningar var deilt um hvað gera ætti í skattamálum. Að baki þeirri deilu var djúpstæður pólitískur ágreiningur: Á að fjármagna samfélagsþjónustuna með því að láta einstaklingana greiða beint, námsmanninn, hinn sjúka, eða ætlum við sem erum frísk að gera það saman? Eigum við að taka undir með hinum sjúka? Þess vegna var Vinstri hreyfingin – grænt framboð eini flokkurinn sem ekki mælti með skattalækkunum. Við höfum lagt fram tillögur á þinginu um hvernig færa eigi skattbyrðarnar til og gera skattkerfið réttlátara, við höfum komið með tillögur um að létta byrðarnar hjá sveitarfélögum í landinu sem mörg hver berjast í bökkum til að halda úti nauðsynlegri samfélagsþjónustu. Þess vegna eigum við ekki að (Forseti hringir.) einskorða þessa umræðu við skattana eina heldur útgjöld og lífskjör einstaklinganna einnig.