132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:31]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Allar tilraunir fjármálaráðherra hér áðan til að slá ryki í augu fólks, m.a. um skattaumhverfi almennings áður en þessi ríkisstjórn tók við árið 1995, og halda áfram blekkingaleiknum duga bara ekki. Það eru tómar blekkingar þegar hér er verið að reyna að drekkja fólki í talnaflóði ráðherrans. Það staðfestir t.d. þetta línurit um persónuafslátt frá ráðuneytinu sjálfu, frá ráðuneyti ráðherrans. Þetta línurit sýnir að persónuafslátturinn hélst í hendur við launa- og neysluvísitölu frá árinu 1988–1995 þar til þessi ríkisstjórn tók við. Síðan þá hefur persónuafslátturinn jafnt og þétt dregist aftur úr, bæði launavísitölu og neysluvísitölu. Svo er nú komið að persónuafslátturinn hefði átt að vera um 100 þús. kr. hærri á ári ef hann hefði fylgt neysluvísitölu frá 1995 og rúmlega 220 þús. kr. hærri á ári hefði persónuafslátturinn fylgt launavísitölu. Þetta eru nú staðreyndir málsins. Það segir allt sem segja þarf. Það skiptir máli hverjir stjórna fyrir að minnsta kosti 90% þjóðarinnar sem hafa þurft að sæta aukinni skattbyrði og skattpíningu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er auðvitað fjarstæða að halda því fram, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir í veikri málsvörn sinni hér áðan, sem var eins og áður full af blekkingum, að almenningur greiddi meiri skatta ef skattareglurnar frá 1994 hefðu verið í gildi í dag.

Árið 1988 var ekki greidd ein króna af tekjum sem samsvara 100 þús. kr. í dag en nú er greitt 9 til 10% af þeim 100 þús. kr. Það er auðvitað sorglegt fyrir fólkið í landinu að sitja uppi með fjármálaráðherra sem matreiðir slíkar blekkingar fyrir það. Fjármálaráðherra getur ekki hrakið að stjórnarflokkarnir hafa búið skattaparadís fyrir efnafólkið á meðan almenningur sætir skattpíningu. Það er staðreynd málsins.