132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Afbr.

[16:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að greiða atkvæði um afbrigði. Fyrir þinginu liggja nú nýjar breytingartillögur við stjórnarfrumvarp um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ég vek athygli þingheims á því að við erum að sjálfsögðu ekki að greiða atkvæði um þessar breytingartillögur enda hefur þingheimi ekki gefist ráðrúm til að kynna sér þær.

Okkar þingflokki hefur ekki gefist ráðrúm til að kynna sér þær tillögur sem nú liggja fyrir að undanskildum einum fulltrúa sem sat í iðnaðarnefnd þingsins. Við erum með öðrum orðum að greiða atkvæði um vinnubrögð á Alþingi. Við höfum lagt til að þingfundi verði frestað fram á mánudag og þessi umræða hafin að nýju. Við mótmælum þeim vinnubrögðum að þröngva í gegnum þingið með afbrigðum umræðu um mál sem mönnum hefur ekki gefist tóm til að kynna sér. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð. Það er á þeirri forsendu, og þeirri forsendu fyrst og fremst, sem við greiðum atkvæði gegn þessum afbrigðum.