132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Afbr.

[16:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta mál er hið undarlegasta í alla staði. Á skammri stund skipast veður í lofti hér í þingsölum. Hér er verið að fjalla um breytingartillögu í afar umdeildu máli sem stjórnarandstaðan hefur sameinast um að vera andvíg af ýmsum ástæðum sem búið er að gera grein fyrir hér í ræðum. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hún hafi verið haldin misskilningi um málið þegar það var lagt fram. Þessi breytingartillaga sem við nú eigum að fara að veita afbrigði virðist gefa það til kynna að hæstv. ráðherra sé búinn að kúvenda í málinu. Er undarlegt að þingflokkar á hv. Alþingi óski eftir ráðrúmi til að fara yfir þau mál sem hér eru í gangi? Og það hvernig þessi mál eru nú að skipast? Hér er fullkominn fíflagangur, að því er virðist, á ferðinni og ég krefst þess, hæstv. forseti, að þetta verði tekið til alvarlegrar skoðunar í stóru samhengi. Því svona hlutir mega auðvitað ekki gerast hér. Það er Alþingi Íslendinga ekki samboðið að vinna svona.