132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Framsaga iðnaðarráðherra fyrir auðlindafrumvarpinu.

[16:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er komin upp sérkennileg staða og ég skal játa svolítið dapurleg, finnst mér, ekki síst þegar vísað er í samstöðu þingheims. Sú samstaða er ekki ótvíræð.

Í dag gerist það að hæstv. iðnaðarráðherra kveður sér hljóðs og segir að í framsögu um það þingmál sem er hér til umfjöllunar hafi sér orðið á mistök. Hún hafi afvegaleitt þingheim. Hún hafi farið með rangt mál. Nú vita það allir að framsaga ráðherra eða nefndarformanns í þingmáli skoðast sem lögskýringargagn. Á það nú að verða þannig að þegar menn leita eftir lögskýringum í máli hæstv. ráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, að menn þurfi að fara yfir allan bunkann í ræðum hennar til að finna hvað hún sagði síðast? Hvað er það nú sem er rétt og hvað rangt í málinu? Eru það þannig vinnubrögð sem á að viðhafa?

Hæstv. forseti. Ég hef prentað út alla umræðuna sem fram fór, bæði 1. umr. og fyrri hluta 2. umr., um þetta mál fyrir jólin. Ég skal glaður fara yfir hana og mun gera það hér í þingsal til að reyna að átta mig á því sem hér um ræðir. Ég hefði kosið að fá lengri tíma til þess og gera það annars staðar. En ég er alveg tilbúinn til að gera það, til að skoða þetta mál rækilega. Því við látum ekki bjóða okkur svona vinnubrögð. Þetta mál snýst ekki um efnislega afstöðu til þingmálsins heldur um vinnubrögð hér í þinginu. Við gerðum tillögu um það og fórum fram á það að gert yrði hlé á þingfundi, iðnaðarnefndin yrði kölluð saman. Það var gert. En að sjálfsögðu fylgdi það með af okkar hálfu að við vildum kynna okkur niðurstöðurnar og fara efnislega yfir málið. Það er því sem verið er að neita. Og um það voru menn að greiða atkvæði hér við afbrigðið fyrir stundu. Við mótmælum þessum vinnubrögðum harðlega og ítrekum ósk okkar og kröfu um að hlé verði gert á þessum þingfundi og málið ekki tekið upp að nýju fyrr en eftir helgina.