132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Framsaga iðnaðarráðherra fyrir auðlindafrumvarpinu.

[16:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að halda því hér til haga að ég tel að fundarstjórn forseta og aðkoma forseta að þessu máli hafi verið ágæt. Forseti hefur á margan hátt reynt, eða það hefur að minnsta kosti birst hér í þingsal, að leiða þetta mál á farsælli leið. Þegar hæstv. ráðherra kom hér upp í dag og lýsti því yfir að allt sem hún hefði sagt fyrr í þessu máli væri vitlaust, eða eitthvað í þá veruna, hlustaði forseti á það og taldi eðlilegt að boðað yrði til fundar forseta og þingflokksformanna til að ræða framhaldið.

Var nú svo komið að málið fór með velvilja stjórnarandstöðuþingmanna, sem vildu með forseta greiða úr flækjum iðnaðarráðherra, til hv. iðnaðarnefndar. Reynt var að skilja hvað ráðherra hefði misskilið varðandi málið. Þá finnst mér jafneðlilegt að forseti leyfi þingmönnum að reyna að átta sig á því hvað hefur gerst. Það eru fluttar hér tillögur með skömmum fyrirvara um að leita afbrigða í þessu stórmáli og ætlast til að þingmenn geti ráðið í það á örskotsstundu — það tók hæstv. ráðherra fleiri vikur að átta sig á um hvað hún væri að tala. Eigum við svo á örskömmum tíma að átta okkur á því, frú forseti?

Ég get rifjað upp ýmis ummæli hæstv. iðnaðarráðherra í fjölmiðlum fyrir jólin þar sem hún var að reyna að útskýra sinn eigin misskilning. Ég geri það í seinni ræðu minni við fundarstjórn forseta ef forseti fellst ekki á þau sjónarmið að þessum fundi verði frestað og þingmönnum gefist tækifæri til að fara ofan í og skoða þær breytingar sem hafa komið hér fram, yfirlýsingar ráðherra í morgun og breytingartillögur sem færðar hafa verið fram í þessu stóra máli. Ég beini því til hæstv. virðulegs forseta þingsins að umræðum verði frestað og málið tekið fyrir eftir helgi þegar ráðrúm hefur gefist til að átta sig á þeim þáttum sem um ræðir. Þetta er stórmál en það er ekkert sem kallar á svo brýna og hraða afgreiðslu málsins að það geti ekki fengið eðlilega þingumfjöllun.