132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[16:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þær óskir sem hér eru fram komnar til hæstv. forseta um þennan fund, að honum verði nú frestað þar til þingflokkum hefur gefist nægilegt ráðrúm til að setja sig inn í þá atburðarás sem hér á sér stað. Hún er, eins og menn hafa lýst, afar óvenjuleg. Hún er líka óvenjuleg fyrir þeirra hluta sakir, frú forseti, að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, er ekki einu sinni á staðnum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður nefndarinnar, þarf að fara í þennan snúning með hæstv. ráðherra í þessu máli þótt hv. formaður iðnaðarnefndar hafi verið talsmaður nefndarinnar í því hingað til. Ef ekki er hægt að hafa biðlund og sýna því skilning að þeir sem hafa sinnt þessu máli og haft á því fullt forræði þurfi að vera hér til staðar og svara fyrirspurnum og ávirðingum þeirra þingmanna sem vilja af heilum hug taka þátt í þessari umræðu og sjá til þess að hún verði djúp og efnismikil þykja mér illa rekin nautin. Það er í sjálfu sér forseta að sjá til þess að sú umræða geti orðið efnisrík og á þeim nótum sem eðlilegt getur talist.

Auðvitað má líka ítreka það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan, ræður þær sem menn hafa flutt í þessu máli eru lögskýringargögn þannig að þrjár ræður sem hæstv. ráðherra er a.m.k. búin að halda í málinu eru allar byggðar á misskilningi. Þær er ekki hægt að nota sem lögskýringargögn héðan í frá, eftir að kúvendingin varð í málinu. Mér fyndist líka huggulegt af hæstv. forseta að sjá til þess að hæstv. iðnaðarráðherra fengi þá tækifæri til þess að flytja mál sitt á nýjan leik. Ég held að þeim sem eiga síðan eftir að starfa eftir þessum lögum, og ekki bara þessum lögum heldur öllum lögum sem varða raforkuframleiðslu á Íslandi — allt tengist þetta nú inn í sama kanalinn — verði gerður greiði með því að fá að heyra endurnýjaðan málflutning hæstv. ráðherra í þessu máli. Við sem löggjafarsamkunda eigum auðvitað að krefjast þess að hér verði málflutningur sem vandaðastur og lögskýringargögnin sem réttust.

Ég vil benda hæstv. forseta á að það er auðvitað í verkahring hans, forsetans sjálfs, að gæta reglu á fundum Alþingis en það er líka í verkahring hæstv. forseta að sjá til þess að þingmenn hafi ákjósanlegar aðstæður til að vinna störf sín. Í dag hafa þingmenn ekki haft ákjósanlegar aðstæður til að vinna störf sín því að það er kannski liðinn klukkutími síðan ég varð þess áskynja að breytingartillagan lá á borði mínu. Ég verð að segja að þó að ég þekki þessi mál nokkuð vel þarf ég samt sem áður að fá að bera tillöguna saman við þau lög sem hér er verið að breyta. Ég þarf að fá að bera efni hennar saman við þær ræður sem búið er að halda og ég verð að fá meiri undirbúning til að geta flutt mál mitt. Hæstv. forseti á að sjá til þess að ég fái (Forseti hringir.) þær aðstæður sem ég þarf.