132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[16:39]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð þeirra þingmanna sem hafa lagt til að þessu máli verði frestað fram yfir helgi. Ég hef hér eina umsögn frá Orkuveitu Reykjavíkur í þessu máli og þær umsagnir sem hafa komið inn til iðnaðarnefndar varðandi þetta mál hafa byggt á frumvarpinu eins og það var upphaflega lagt fram. Nú eru með þessari breytingartillögu sem hér var samþykkt að taka inn á dagskrána gerðar grundvallarbreytingar á frumvarpinu og mér finnst alveg ótækt að áfram sé haldið umræðu um málið án þess að kalla á ný viðhorf og umsagnir þeirra sem málið varðar. Það eru breytingar hér sem gjörbreyta upphaflegu frumvarpi og það er brýnt að öllum sé ljóst hvaða meiningar hæstv. iðnaðarráðherra hefur í þessu máli, a.m.k. þingmönnum og öðrum málinu viðkomandi. Það er búið að fara svo marga snúninga að ég er ekki viss um að allir átti sig á því hvernig málið liggur í raun. Ég tel a.m.k. að hv. iðnaðarnefnd eigi að fá möguleika til þess að fara yfir málið og gefa viðeigandi aðilum möguleika á að koma með athugasemdir og umsagnir um frumvarpið eins og það lítur út núna. Það tel ég mjög mikilvægt.

Við erum ekki að brenna inni með eitt eða neitt og til lengri tíma litið erum við að gera hérna mikilvægar breytingar sem munu hafa áhrif á þennan raforkumarkað og inn í þessa stóru mynd sem er orkunýtingin í dag og stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Því finnst mér mikilvægt að við gefum okkur þann tíma að það sé a.m.k. afgreitt hérna með fullri vitund um hvað við sjálf erum að gera.