132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:56]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt málið, þetta snýst um vinnubrögð. Þegar hv. þingmaður kallar eftir viðbrögðum um afstöðu til málsins eru þau nefnilega ekki aðalatriðið hér vegna þess að við eigum eftir að ræða um þetta mál miklu betur. Þetta snýst um vinnubrögð í þinginu, hvernig tekið er á málum, hvaða tíma menn gefa sér í að ræða þau. Þegar síðan koma fram breytingar á síðustu stundu og jafnvel í miðri umræðu, er þá ekki sanngirniskrafa að menn fái ráðrúm til að athuga hvað hafi breyst, fá álit annarra sem hafa komið fyrir nefndina til að fá botn í málið? Það getur vel verið að það breytist eitthvað fleira.

Eigum við þá að hafa vinnubrögðin þannig að á meðan 2. umr. stendur yfir, kannski jafnvel allt eins 3. umr., sé endalaust verið að breyta textanum og umræðunni ekki einu sinni frestað til þess að þingflokkar fái tækifæri til að koma saman og ræða málin? Um þetta snýst málið fyrst og fremst.