132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður iðnaðarnefndar, starfandi formaður, gat ekki svarað einfaldri spurningu frá mér. Er núna að leita aðstoðar til að fá svarið. Mér finnst það ekki skrýtið. Ég hef fullan skilning á því, frú forseti. En það sem kemur í ljós núna er hversu illa reifað málið er og hversu vanbúið það er að fara inn í þá umræðu sem við nú erum í. Þess vegna tel ég hæstv. forseta hafa verið að gera hræðilegan feil að heimila ekki að þingflokkar á Alþingi fengju ráðrúm til að skoða málið og átta sig á hvað breytingartillagan þýðir. Þó ég sé nú reyndar að misnota aðstöðu mína og setja inn í andsvar athugasemd um fundarstjórn forseta er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson búinn að leiða það í ljós hversu vanbúinn hann, iðnaðarnefndin öll og við öll erum í að klára þessa umræðu. En nú vil ég fá að leggja til, hæstv. forseti, eða ég vil bera það undir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Er það réttur skilningur minn á málinu að það sé hugsað svo að 2. mgr. 5. gr. í lögunum eigi að hljóða svona eins og ég nú les:

„Ráðherra er heimilt í rannsóknarleyfi að veita fyrirheit um forgang leyfishafa að nýtingarleyfi fyrir hitaveitur í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis er lokið og að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á þeim tíma“?

Er þetta réttur skilningur hjá mér, hæstv. forseti? Við því þarf ég að fá svar áður en lengra er haldið.