132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eftir því sem líður á umræðuna velti ég því fyrir mér hvort breytingartillögurnar sem hér hafa verið lagðar fram og skýringar hv. varaformanns iðnaðarnefndar, séu að einhverju leyti breytingartillögur við það frumvarp sem lagt var fram í haust eða hvort þær séu að einhverju leyti breytingartillögur við núgildandi lög með beinum hætti. Mér sýnist a.m.k. tilvísunin ekki vera á hreinu til hvers verið er að vísa þegar þessar breytingartillögur eru lagðar fram.

Mér þykir mikilvægt í ljósi umræðunnar um þetta mál að við höldum ekki enn á ný áfram í umræðu þar sem hæstv. iðnaðarráðherra og kannski hv. formaður iðnaðarnefndar verði síðan að koma og segja að því miður hafi hér verið misskilningur á ferð. Ég er ekki að segja að svo sé en a.m.k. hefur það vafist fyrir framsögumanni tillagnanna að fylgja eftir og skilja tillögurnar í samhengi við lögin annars vegar og frumvarpið hins vegar. Ég trúi því ekki að forseti vilji taka þá áhættu hér að taka annan dag í að fara yfir misskilning. Við erum búin eyða heilum degi í að fjalla um misskilning iðnaðarráðherra og ég mælist eindregið til þess að við hugum að því núna að þessari umræðu verði frestað þannig að tóm gefist til að taka umræðuna áfram og reyna að eyða þeim misskilningi sem kominn er inn í hana. Hann er orðinn ærinn.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forseta: Hvað rekur svo á eftir þessu máli að ekki megi hafa hér viðunandi og þokkaleg þingleg vinnubrögð? Ég sé ekkert. Á að fara að virkja Skagafjarðarvötnin? Er það það sem rekur á eftir því? Má það ekki bíða fram yfir helgi? Breytir það eitthvað einhverju þó að ég sé því andvígur eða á að fara að virkja Skjálfandafljót fyrir helgi og Aldeyjarfoss? Um það snýst þetta frumvarp. Á að fara að úthluta þessum gæðum núna fyrir helgina?

Frú forseti. Hvað rekur svona á eftir því að við getum ekki tekið okkur þokkalegt andrými til að fjalla um þetta mál í ljósi þeirrar uppákomu sem við urðum vitni að í dag þegar hæstv. iðnaðarráðherra varð að byrja á því að gera þá játningu að allt sem hún hafði áður sagt í málinu sé misskilningur? Það er alls ekki ljóst fyrir mér heldur hvort þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir af hálfu iðnaðarnefndar snúi að frumvarpinu eða að lögunum. Og þær breytingartillögur sem liggja að öðru leyti (Forseti hringir.) fyrir, hvaða stöðu hafa þær, frú forseti?