132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fæ ekki betur séð en að ýmis álitamál séu í gangi varðandi framsetningu þeirrar breytingartillögu sem við ræðum. Ég held að hæstv. forseti þurfi að skoða það nánar hvort hún sé þingleg og hvort hún sé hreinlega rétt fram sett. Mér sýnist að í óðagotinu sem verið hefur í gangi við afgreiðslu þessa máls hafi orðið ákveðin lagatæknileg mistök við framreiðslu skjalsins. Það er í hæsta máta óskýrt hvernig þessi breytingartillaga er fram sett og á hvern hátt viðbótinni við 2. gr. frumvarpsins, 5. gr. laganna, er komið fyrir. Mér sýnist að búa hefði þurft til nýjan a-lið og síðan nýjan b-lið í 2. gr. frumvarpsins til að þetta væri skýrt, til að hægt væri að lesa úr þessu það sem mér virðist á svörum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar vera meiningin.

Ég held að hæstv. forseti ætti því að hugsa sig aðeins um og skoða þingskjal 697 sem mér sýnist vera lagatæknilega gallað. Ég tel að það þurfi að fara betur yfir það og prenta það upp. Þetta er til marks um óðagotið í málinu og þetta er enn ein röksemdin fyrir því að fresta ætti þessum fundi og heimila okkur helgina til að fara yfir málið og lesa þetta allt saman. Við skulum líka vera minnug þess að þetta mál er auðvitað angi af miklu, miklu stærra máli því að upphaflega var lagt fram hér stórt frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, frumvarp sem leysa átti af hólmi lögin nr. 57/1998 sem við erum nú að breyta. Það frumvarp reyndist svo meingallað þegar til átti að taka að iðnaðarnefnd sá sína sæng upp reidda og gerði bragarbót á málinu og flutti hér frumvarp sem er bara einn angi af stóra frumvarpinu. Núna hefur þeim anga verið breytt í grundvallaratriðum með þessari nýju breytingartillögu þannig að hæstv. forseti verður bara að viðurkenna að þetta er mjög flókið mál sem hér er um að ræða. Ég held að það skipti Alþingi Íslendinga máli að tæknileg atriði í því verði skýrð og það verður ekki gert meðan við höldum þessum fundi áfram á þeim nótum sem hæstv. forseti virðist hafa ákveðið að eigi að gera.