132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:23]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég var búinn að vera á mælendaskrá í þessu máli frá því að þingfundur hófst í morgun og var reyndar fyrstur á mælendaskránni klukkan hálfellefu. Nú er klukkan að verða hálfsex og nú hefst mín ræða. Þetta segir svolítið um það sem er verið hefur að gerast hér í dag. Þetta mál var átakamál og við áttum langar umræður um það fyrir áramótin áður en þinghlé var gert og þær umræður spunnust fyrst og fremst vegna skilnings hæstv. iðnaðarráðherra á því hvað 5. gr. laganna, sem þetta frumvarp á að breyta, þýddi í raun og veru og hvað hægt væri að gera á grundvelli hennar.

Hæstv. ráðherra lét það koma skýrt fram í umræðum á hv. Alþingi að það væri skoðun ráðherrans að hægt væri að úthluta vilyrðum fyrir nýtingarleyfum ásamt þeim rannsóknarleyfum sem hér væri verið að leggja til að yrði mögulegt að veita. Hæstv. ráðherra taldi greinilega að þetta væru ein af mikilvægustu skilaboðunum í þessu frumvarpi. Þess vegna má ég til með að rifja upp sögu málsins, þó að það hafi verið gert áður held ég að það verði að setja það í samhengi. En áður en ég geri það, hæstv. forseti, ætla ég að koma því til skila að breytingartillaga sem minni hluti iðnaðarnefndar flutti á þskj. 537, mál nr. 288, er hér með dregin til baka og kemur því ekki til atkvæðagreiðslu við afgreiðslu málsins.

Við sem fluttum þá breytingartillögu, þ.e. sá sem hér stendur og hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Sigurjón Þórðarson og Katrín Júlíusdóttir, eigum öll aðild að þeirri breytingartillögu sem nefndin flytur núna. Það sem skiptir mestu máli í þeirri breytingartillögu er að þar er gerð breyting á 5. gr. laganna og að sú breyting breytir í raun og veru 5. gr. með þeim hætti að ekki er lengur hægt að deila um hvað sú grein þýðir í raun. Fyrst var skilningur manna sá þegar þetta mál kom til umræðu í haust, a.m.k. skilningur hæstv. ráðherra, að ráðherra gæti veitt hin svokölluðu vilyrði á grundvelli 5. gr. til þeirra sem fengju rannsóknarleyfið bæði hvað varðaði vatnsafl og jarðhita til orkuframleiðslu. Það er alveg klárt að hæstv. ráðherra skildi málið svona. Síðan kom fram á milli jóla og nýárs að hæstv. ráðherra væri búin að átta sig á að þessi skilningur væri ekki til staðar hvað varðar virkjanir á vatnsafli en að 5. gr. gilti samt sem áður hvað varðaði jarðhita. Þá þurfa menn að hafa í huga að í 5. gr. er gert ráð fyrir að hægt sé að veita vilyrðið og ef hún er lesin eins og hún er og sú saga skoðuð sem er á bak við leyfin sem hafa verið veitt, var í raun og veru auðvelt að fara fram á það að fá vilyrði fyrir nýtingarleyfi á grundvelli þess að menn ætluðu að hluta til að nota heitt vatn til hitaveituframkvæmda þó að þeir væru fyrst og fremst að virkja til raforkuframleiðslu.

Hvað Samfylkinguna varðar — svo enginn misskilningur sé uppi, vegna þess að mér fannst gæta svolítilla sárinda hjá hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að á skammri stund hyrfi samstaðan í málinu — þá hefur ekki verið neinn vafi á afstöðu okkar í þessu máli frá upphafi. Við fluttum þetta mál ásamt nefndinni síðastliðið vor. Ágreiningur okkar um málið í haust snerist alfarið um 5. gr., fyrst og fremst skilning ráðherrans á 5. gr., en við vildum líka að ekki væri á neinn hátt hægt að halda því fram að sú grein gæti gilt um raforkuframleiðslu á háhitasvæðum. Það var ágreiningur okkar. Í dag, þegar hlé var gert á fundum þingsins og við ræddum þetta í iðnaðarnefnd, kom fram að menn væru tilbúnir til að taka á 5. gr., þrengja ákvæðið og skýra það með þeim hætti að við teljum að kröfu okkar sé fullkomlega mætt hvað það varðar að ekki sé mögulegt fyrir hæstv. ráðherra að nota vilyrðið sem þarna var gert ráð fyrir til að veita aðilum rannsóknarleyfi og einhvers konar ígildi loforðs um virkjunarleyfi í framhaldinu og að það loforð væri þá að öllum líkindum orðið rétthærra en þær reglur sem meiningin er að útbúa og samþykkja á hv. Alþingi strax á næsta vetri til þess að hægt sé að skera úr um með viðunandi hætti hverjir fái að nýta auðlindir og að þar verði jafnræðis gætt þegar fleiri en einn aðili sækist eftir nýtingarleyfum og virkjunarleyfum.

Þá kem ég að því að hæstv. ráðherra virðist frá upphafi hafa verið með eindæmum undarleg í háttum hvað þessi mál varðar. Mér þykir ágætt að hæstv. ráðherra, sem ég hef nefnt fyrr í ræðu minni, er mætt í hliðarsal og heyrir hvað ég segi. Það er ástæða til að rifja upp, sem hefur reyndar komið fram í umræðunni, að til umræðu og umfjöllunar í iðnaðarnefndinni voru mál sem meiningin var að tækju á þessu, þ.e. frumvarp til laga um jarðrænar auðlindir. Nefndin hafði fjallað málið og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að klára umfjöllun um málið vegna þess að það væri vanbúið. Í framhaldi af því varð til sú hugmynd að flytja þetta frumvarp. Menn töldu mikla nauðsyn á að hægt væri að veita þessi rannsóknarleyfi. Nefndin flutti þetta frumvarp síðasta vor. Við tókum þátt í því og bárum ábyrgð á þeim flutningi. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að sett yrði á nefnd sem ætti að gera tillögur um reglur um hvernig ætti að velja á milli aðila sem fengju virkjanaleyfi.

Þetta náði ekki fram að ganga á síðasta vori eins og menn muna. Hæstv. ráðherra lagði síðan málið fram að nýju í haust. En nú bregður svo við að tillöguna um nefndina vantar. Það var svolítið spaugilegt að heyra til hæstv. ráðherra þegar hún talaði um það þegar umræðan hófst aftur. Hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á að koma þessu máli í gegn af því að það lægi á að hefja nefndarstarfið. Það var merkilegt í ljósi þess að hæstv. ráðherra sleppti því að hafa í frumvarpi sínu tillögu um nefndina þegar málið kom fram. Allt er þetta fremur undarlegt.

Ég kemst hins vegar ekki hjá því, og við í Samfylkingunni sem stóðum að flutningi málsins á síðasta vori, að standa við þann flutning. Mér er það ekki sárt. Ég tel að við höfum fengið það fram sem við vildum. Í fyrsta lagi var hlustað á það í iðnaðarnefnd í fyrravetur að frumvarpið sem þá lá fyrir væri vanbúið og að það þyrfti að vinna betur og koma á þessum reglum. Á það var hlustað. Tillaga var flutt um að koma á reglum um hvernig ætti að úthluta þessum gæðum.

Það er jafnframt ástæða til að muna eftir því að nú stendur yfir endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar inn eiga að fara ákvæði um þjóðarauðlindir. Auðvitað þarf að skapa reglur sem hægt er að ná sátt um, um hvernig þjóðarauðlindum okkar skuli komið í hendur þeirra sem eiga að nýta þær í framtíðinni. Það er því satt sem margoft hefur komið fram, að hér er stórt mál á ferðinni. En ágreiningurinn í málinu er ekki voðalega flókinn. Með þessu máli kemst á bráðabirgðaástand. Þetta er ekki niðurstaðan. Það á eftir að setja löggjöfina sem á að gilda um þetta. Hér hyggjast menn bjarga sér fyrir horn þannig að hægt sé að leyfa rannsóknir og til að brúa bilið meðan sú nefnd sem á að setja á laggirnar vinnur sitt verk og menn komast til ráðs með þá lagasetningu sem um þetta á að gilda.

Þannig liggur málið fyrir okkur í Samfylkingunni. Við getum því í sjálfu sér ekki kvartað yfir því að málið fái framgang þó að ég geti vel skilið það að þeir sem hafa verið á móti málinu öllu, og ég virði þau sjónarmið, vilji fá tækifæri til að skoða málið betur. Ég sé ekki hvers vegna ekki hefði verið hægt að koma til móts við þær óskir. Reyndar nefndi ég það á fundi í iðnaðarnefnd, og við samfylkingarmenn í iðnaðarnefnd lögðum til að málið kæmi þannig frá nefndinni að rétt væri að ræða málið eftir helgi. Það var ekki hljómgrunnur fyrir því í iðnaðarnefnd.

Ég skil vel að fólk vilji fá tíma til að fara yfir málið þótt mér finnist að á grundvelli umræðunnar sé það ekki mjög flókið. Við lögðum til að fella þessi ákvæði alfarið út úr 5. gr. Munurinn á okkar tillögu og þeirri tillögu sem nú er til afgreiðslu er eingöngu sá að í stað þess að fella alveg út úr 5. gr. fyrirheit sem ráðherra gæti gefið um forgang þá yrði það fyrirheit alfarið miðað við hitaveitur. Það er munurinn. Til að ná samstöðu, sem við töldum ástæðu til að gera, komumst við að þeirri niðurstöðu að það gæti alveg gengið frá okkar hendi. Ég vek athygli á því, sem ég nefndi reyndar áðan, að við erum að tala um bráðabirgðaástand. Þessi lög eru náttúrlega alls ekki fullunnin. Hér er vatnsorkan, rannsóknir á vatni, sett inn í lög sem samin voru í allt öðrum tilgangi. Hér er því um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða. Við skulum vona að mönnum takist bærilega að ljúka umræðum og undirbúningi fyrir lagasetninguna um þessi málefni og hægt verði að ganga frá þeirri lagasetningu á næsta vetri eins og stefnt er að. Þetta vildi ég að kæmi fram, hæstv. forseti.

Ég vil í lok ræðu minnar segja — ég ætla ekki að hafa hana langa — að þátt fyrir að málið hafi tekið dálítið langan tíma og valdið mönnum svolitlum vandræðum, eins og greinilega hefur komið fram í dag, og hæstv. ráðherra hafi hengt sig í þessu máli býsna lengi, þá verður maður að fagna því að loks hafi fengist niðurstaða sem við getum sætt okkur við. Við höfum haft erindi sem erfiði í iðnaðarnefndinni og í sölum Alþingis hvað þetta mál varðar. Það var ekki upp á það bjóðandi að klára málið eins og stofnað var til með frumvarpinu sem lá fyrir iðnaðarnefnd í fyrravetur. Sá farvegur sem það er í núna er skynsamlegri og ábyrgari. En ég ætla rétt að vona að í gangi sé vinna og að menn ætli sér að ganga þannig frá málinu að hægt verði að setja hugmyndir, sem auðlindanefndin var með um auðlindir í þjóðareign, í tillöguform og þær verði lagðar fyrir Alþingi með þeim öðrum tillögum sem ég treysti að verði lagðar fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskránni.

Þessu vildi ég koma á framfæri og hef ég lokið máli mínu, hæstv. forseti.