132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:42]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að menn geti hafið rannsóknir á virkjanakostum. Ástandið er þannig núna að ekki er hægt að veita leyfi til þess. Við féllumst á að flytja frumvarp í vor sem leið til að leysa úr þeim vanda. Það er rangt að við höfum skipt um kúrs í þessu máli. Niðurstaðan í málinu eins og það liggur fyrir er nákvæmlega sú sem við vildum ná fram í vor sem leið. Það er því út í hött að segja að við höfum skipt um kúrs með því að halda okkar striki, eða að við höfum gengið í lið með stjórnarliðum vegna þess að þeir hafa í raun fallist á sjónarmið okkar í málinu.

Það er skrýtið, þegar menn vinna sigur í máli, að þá er eins og menn átti sig ekki á því. Hér fjöllum við í raun um mál sem við fluttum og niðurstöðu í vafamáli sem kom upp varðandi einn þátt málsins. Því ættum við ekki að vera ánægð með það? Hvers vegna dettur nokkrum manni í hug að tala um að við höfum skipt um skoðun þegar niðurstaðan er eins og við vildum hafa hana? Ég átta mig ekki alveg á því. Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með að málið skuli loksins afgreitt þannig.

Á hinn bóginn vil ég segja, og endurtek það, að þetta er auðvitað ekki nógu góður lagafrágangur. Við erum með þessi mál í vandræðum og það þarf svigrúm til að vinna að því að klára lagafrumvörpin þannig að Alþingi geti gengið frá þeim með fullnægjandi hætti. Meðal annars þurfum við niðurstöðu nefndarinnar sem lagt er til að sett verði á laggirnar í frumvarpinu sem hér um ræðir.