132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:49]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú einmitt það. Þetta umhverfi, þ.e. samkeppnisumhverfið í raforkuframleiðslunni sem komst á um næstsíðustu áramót var einmitt það sem olli því að stöðva þurfti þessi mál eins og þau voru. Við tókum þátt í þeim tillöguflutningi núna í haust ekki síst til þess að reyna að koma í veg fyrir að hægt væri að halda áfram að úthluta réttindum til að virkja fríhendis frá hæstv. ráðherra á sama tíma og aðrir þyrftu að borga fullt gjald til þeirra sem ættu þær orkulindir sem þeir keyptu þær af. Það væri gjörsamlega óþolandi. Nú er niðurstaða komin í það mál. Nú liggur fyrir að hæstv. ráðherra getur ekki veitt nein slík vilyrði. Ég segi fyrir mig að það er þá til einhvers barist.

Þegar við komum að 32. gr. verður hv. þingmaður að gera sér grein fyrir því að úr því að þetta er orðin niðurstaðan muni menn ekki selja rannsóknarleyfin á einhverju verði öðruvísi en með tilliti til þess að virkjanaleyfin verða þá undir samkeppnisaðstæðum þegar kemur að því að úthluta þeim. Þessi vandi sem er í 32. gr., ef við getum kallað það vanda að ráðherra getur veitt — það er bannað að framselja þessi leyfi — leyfi fyrir því, en þegar og ef ráðherra gerir það, þá er það þó þannig núna, ef við samþykkjum málið eins og það liggur fyrir, að samkeppnin um virkjanaréttinn sjálfan er þá eftir og þú getur ekki borgað fyrir virkjanaleyfin meira en endurkröfurétturinn (Forseti hringir.) verður sem verður til vegna tilkostnaðarins.