132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:53]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að menn hafi mismunandi trú á lagasetningu. Ég held þó að í sölum Alþingis verði hv. þingmenn að trúa því að niðurstaða lagasetningar eigi að gilda og farið sé eftir henni. Ég efast ekkert um að þeir sem telja á sér brotið muni þá sækja eftir því að þeir sem það gera verði sóttir til saka fyrir það. Ég er þess vegna á þeirri skoðun að ekki þurfi að hafa svona miklar áhyggjur af hv. iðnaðarráðherra að það sé bara sama hvað standi í lögum, að hæstv. iðnaðarráðherra geti gert það sem hann vill. Svoleiðis er þetta nú ekki og ég hef ekki áhyggjur af því.

Ég held hins vegar að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eigi að slaka aðeins á í málinu og vera svolítið með okkur í að taka þátt í því að við höfum þó náð áfanga hérna, (Forseti hringir.) við höfum komið í veg fyrir vandamál sem var greinilega uppi.