132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:54]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hv. þm. Jóhann Ársælsson um að gefa mér og okkur svolítið skýrari mynd af afstöðu Samfylkingarinnar í málinu. Ég tel að sá fyrirvari sem settur var í frumvarp hv. iðnaðarnefndar í vor, þ.e. að setja skyldi á laggirnar nefnd til að setja reglur um það hvernig með skyldi fara úthlutun á rannsóknarleyfum áður en farið yrði að úthluta þeim. Ég tel að mjög brýnt og nauðsynlegt hafi verið að gera það og ég tel að það sé jafnbrýnt núna eins og það var þá. Hvort heldur úthlutun leyfanna verði á frjálsum markaði eða í hendi ráðherra tel ég að leggja verði niður fyrir sér og móta reglur um slíka úthlutun því að úthlutunin í sjálfu sér er verðmæti. Þó svo að lagt sé til í þeim breytingartillögum sem komu fram í dag að ráðherra verði ekki heimilt að gefa viðkomandi vilyrði fyrir áframhaldandi vinnu og virkjun á því svæði sem hann er að rannsaka, nema þá sem snýr að hitaveitum, er þetta eftir sem áður ávísun á fjármagn.

Ég tel að auk þeirra reglna sem verða að liggja fyrir hvernig á að úthluta þessum leyfum eigum við að anda rólega núna og klára rammasamninginn um nýtingu vatnsafls og jarðvarma því að ástæðan fyrir því að verið er að flýta þessu máli er áhugi (Forseti hringir.) aðila til að komast áfram í stóriðjuframkvæmdir.