132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[22:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir aldeilis prýðilega ræðu, mjög fróðlega og upplýsandi. Hann vitnaði í náttúruunnendur, fólk sem býr í grennd við náttúruperlur Íslands, fólk sem kann að meta þær og skynjar þá hættu sem nú steðja að þeim, m.a. vegna þeirrar lagabreytingar sem við ræðum hér um. Mér finnst það táknrænt að sumu leyti, að einvörðungu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli standa þessa vakt. Sannast sagna hafði ég haft þá trú að hér mundum við standa fleiri í umræðunni, þingmenn stjórnarandstöðunnar en ekki aðeins þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hér er formaður Frjálslynda flokksins reyndar einnig. Ég hygg að hann sé enn á mælendaskrá en Samfylkingin er öll horfin. Það er reyndar ekkert nýtt. Þetta er ekki ný staða.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð stóð ein vaktina um Kárahnjúka. Við stóðum ein í stríðinu um Þjórsárverin, þótt nú hafi skipast veður í lofti og ber að fagna því. Það ber að fagna þeim sigri, a.m.k. þeim áfangasigri sem unnist hefur þegar áform um virkjanir þar hafa verið lögð á hilluna. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að þar ber að þakka staðfestu og baráttuþreki fólksins í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, náttúruverndarsamtaka ýmissa og margra einstaklinga sem þar hafa lagt mikið af mörkum. Af fyllsta lítillæti ætla ég einnig að vísa í baráttu okkar á þingi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Hvers vegna leggjum við svona mikla áherslu á þetta frumvarp? Það má eiginlega spyrja annarrar spurningar til að leita eftir svarinu. Hvernig stendur á því að hæstv. iðnaðarráðherra leggur slíkt ofurkapp á að fá þetta frumvarp í gegnum þingið sem raun ber vitni? Frumvarpið sem við ræðum nú er ekki stórt í sniðum. Það er fimm greinar. Það er hins vegar hluti af mun stærra frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi í fyrra, þ.e. frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Um það frumvarp urðu miklar deilur, geysileg gagnrýni barst víða að úr samfélaginu frá aðilum sem láta sig varða umhverfisvernd og framtíð íslenskrar náttúru og einnig þeim sem er umhugað um vandaða lagasmíð. Þá gerist það að ríkisstjórnin tekur nokkrar greinar út úr því frumvarpi og sækist eftir að fá það samþykkt með flýtimeðferð í þinginu. Það var reynt í haust, reyndar einnig á síðasta þingi. Þá var þessi frumvarpsstúfur einnig til umræðu en okkur tókst að koma þá í veg fyrir samþykkt hans. Út á hvað skyldi hann ganga? Hann gengur út á að heimila ráðherranum að veita fyrirtækjum leyfi til rannsókna, nýtingar- og rannsóknarleyfi. Út á það gengur frumvarpið. Síðan þegar maður fer að skoða samhengi hlutanna, fer að líta til fyrirliggjandi umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi, þá er engin smásmíð á ferðinni.

Hér er yfirlit yfir umsóknir um rannsóknarleyfi: Landsvirkjun vill fá rannsóknarleyfi á vatnasviði Skjálfandafljóts, vatnasviði Tungnaár ofan Sigöldu, vatnasviði Þjórsár neðan Búrfells, vatnasviði á efri hluta Skaftár, vatnasviði Vestari- og Austari-Jökulsáa í Skagafirði, leitar- og rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum, leitar og rannsóknarleyfi í Gjástykki og nágrenni. Hitaveita Suðurnesja vill rannsóknir á jarðhita á Reykjanesskaga. Orkuveita Reykjavíkur háhitasvæðin í Reykjadölum í Rangárþingi ytra, háhitasvæðin í Kerlingarfjöllum. Orkuveita Reykjavíkur og Húsavíkur sameiginlega háhitasvæðin í Brennisteinsfjöllum og Rarik vill vatnasvið Hólmsár í Skaftárhreppi. Héraðsvötn hf. vilja rannsaka vatnasvið Vestari- og Austari-Jökulsáa í Skagafirði, Þeistareykir ehf. virkjanir í Skjálfandafljóti.

Og umsagnir eru um nýtingar- og virkjunarleyf: Landsvirkjun vill aukna raforkunýtingu á Kröflusvæðinu. Orkuveita Reykjavíkur stækkun Hellisheiðarvirkjunar, virkjunarleyfi í Farinu, Bláskógabyggð. Hitaveita Suðurnesja vill virkjunarleyfi fyrir 100 megavöttum við Reykjanesvirkjun. Orkubú Vestfjarða, Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði. Þetta er bara yfirlit yfir umsóknir sem liggja fyrir. Eins og ég mun koma að síðar þegar við förum að setja þetta inn í ummæli hæstv. iðnaðarráðherra og áform hennar og ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu á áliðnaði í landinu, þá fer nú heldur betur að fara um mann.

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að fara yfir þetta frumvarp til laga nokkuð skipulega og síðan áforma ég að setja það í sögulegt samhengi. Þetta sögulega samhengi skiptir nefnilega máli því að þessi lög, og reyndar aðrir lagabálkar einnig, eru ákveðinn vegvísir inn í framtíðina. Fyrst ætla ég í ekki svo ýkja löngu máli en nokkru þó, að víkja að frumvarpinu í þröngu samhengi. Eins og ég gat um áðan eru þetta lagabreytingar sem eru slitnar út úr mun stærra frumvarpi sem enn er á teikniborðinu. En ég ætla að víkja núna að einstökum greinum. Frumvarpið sem við erum að ræða er í fimm greinum. Í fyrsta lagi er lagt til að lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu taki einnig til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Verið er að bæta þarna vatnsafli inn í lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í 2. gr. er vísað til 5. gr. laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og þar segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknarleyfi skal veitt einum aðila á hverju svæði. Þó er heimilt að veita fleiri en einum aðila slíkt leyfi sameiginlega hafi þeir staðið saman að rannsóknarleyfisumsókn og gert með sér samning um skiptingu rannsóknarkostnaðar.“

Síðan komu fram breytingartillögur við þá grein í umræðunni í dag eftir að iðnaðarnefnd hafði komið saman þar sem þær heimildir sem hér eru veittar eru þrengdar. Þar sem skírskotað er til nýtingarleyfa er það nánar skilgreint og sagt: Fyrir hitaveitur.

Í 3. gr. þessa frumvarps er vísað í 7. gr. laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nú fær annar en rannsóknarleyfishafi leyfi til að nýta viðkomandi auðlind og getur þá sá sem kostaði rannsóknir krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna rannsókna eða markaðsvirði þeirra, sé það fyrir hendi, gegn afhendingu á niðurstöðum rannsóknanna, enda geti þær nýst nýtingarleyfishafa. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.“

Samkvæmt breytingartillögunum sem kynntar voru í dag er þarna enn um þrengingu að ræða því að í stað þess að vísa í nýtingarleyfishafa skal nú einvörðungu vísað í leyfishafa.

Síðan eru ákvæði um gildistöku laganna og lagatæknilegar breytingar gerðar. Í athugasemdum sem voru með frumvarpinu þegar það var fyrst lagt fram er vísað í hinn sögulega aðdraganda sem ég vék að hér áðan en síðan segir, með leyfi forseta:

„Við gildistöku raforkulaga, nr. 65/2003, var samkeppni í vinnslu raforku innleidd hér á landi. Var ráðherra jafnframt veitt vald til að veita virkjunarleyfi á grundvelli laganna en fyrir gildistöku þeirra var vald ráðherra bundið því skilyrði að Alþingi hefði áður með sérstökum heimildarlögum veitt honum heimild til slíks. Fyrir gildistöku raforkulaga hafði Landsvirkjun jafnframt forgang til virkjunar vatnsafls í samræmi við skyldu sína til að sjá öllum sem þess óskuðu fyrir raforku. Nú þegar þessi forgangur Landsvirkjunar er ekki lengur til staðar hafa fleiri orkufyrirtæki sýnt vatnsaflsvirkjunum áhuga. Samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar, öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“

Með öðrum orðum. Staðan eins og hún er núna er ekki nægilega hvetjandi fyrir orkufyrirtækin að sækja á um fleiri virkjanir. Þess vegna skal með lagafrumvarpi þessu bætt þar úr. Annars vegar er vísað í þá hugsun sem hefur verið svo umdeild að sá sem fær rannsóknarleyfið, það sé eðlilegur hvati, það er gefið í skyn, hafi líka forgang um virkjunarleyfi. Nokkuð sem mönnum fannst vera vafasamt, að gefa slíkt grænt ljós, þ.e. ef ráðherrann fær ráðin í sínar hendur að veita rannsóknarleyfi þá verði sjálfkrafa komin heimild til virkjunarleyfis. Að þessu er ýjað í athugasemdunum, að í rauninni sé nauðsynlegt að koma slíku á.

Það segir, eins og fram kom þegar ég las upp úr textanum, að orkufyrirtækin séu „tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“ En síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Er því talið nauðsynlegt að tryggja að aðeins einn aðili fái rannsóknarleyfi á hverju svæði og jafnframt að hann geti fengið rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan sé nýtingar- eða virkjunarleyfi veitt öðrum aðila. Einnig verður að ætla að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að fleiri en einn aðili kosti sams konar rannsóknir á sömu stöðum þegar ljóst er að aðeins einu virkjunarleyfi verður úthlutað.“

Nú kann þetta að allt að vera satt og rétt og ég ætla í raun ekki að gagnrýna þessa hugsun að öðru leyti en því, að það er eiginlega hugsunin á bak við þennan þankagang sem ég vil gera að umræðuefni, þ.e. hvað ráðherrann og ríkisstjórnin eru áköf í að ýta orkufyrirtækjunum út í frekari virkjunarframkvæmdir. Það er algerlega á skjön og þvert á þá stefnu sem við viljum fylgja í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við viljum að gengið verði áður frá faglegri og vandaðri rammaáætlun um nýtingu vatnsorkunnar áður en ráðist er í frekari framkvæmdir. Síðan er það handleggur út af fyrir sig að ræða þjóðhagslega hagkvæmni þess að reisa hér orkuver til að fóðra stóriðju sem sækist nú eftir að koma til landsins.

Áfram segir í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Lagt er til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Við þessa breytingu munu ákvæði laganna, sbr. einkum ákvæði III. kafla laganna um rannsóknir og leit, taka til slíkra rannsókna eftir því sem við á. Samhliða þessu er í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum séu veitt einum aðila með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Dæmi eru um slíkt varðandi jarðhita og líklegt talið að slíkt geti komið upp varðandi rannsóknir á vatnsorku. Er því talið rétt að taka af tvímæli um að heimilt sé að veita rannsóknarleyfi sameiginlega til fleiri en eins aðila standi þeir saman að umsókn og hafi áður gert samkomulag sín á milli um kostnaðarskiptingu.

Þá er í 3. gr. frumvarpsins mælt fyrir um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiða beri sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu.

Í 7. gr. gildandi laga er einungis kveðið á um að landeigandi geti krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað sem landeigandi eða aðilar á hans vegum hafa haft af rannsóknum á auðlindum á eignarlandi hans. Rétt er að slíkur endurkröfuréttur eigi við um alla þá sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað á grundvelli þess enda geti rannsóknarniðurstöður nýst nýtingarleyfishafa.“

Þetta er spurning sem ég leyfi mér að hafa nokkrar efasemdir um. Fyrirtæki taka ákveðna áhættu sem ekki nýtist þeim af einhverjum ástæðum og þá á samfélagið að standa skil á endurgreiðslu til þeirra. Hitt finnst mér eðlilegt að fyrirtæki geti verslað sín á milli með þessi rannsóknarleyfi. Ég ætla ekki að útiloka að slíkt geti verið heppilegt.

En, hæstv. forseti. Það er þetta samhengi hlutanna engu að síður sem ég er fyrst og fremst að vekja athygli á. Að hér er iðnaðarráðuneytið og ríkisstjórnin að negla inn í lögin hvata fyrir frekari virkjanir. Með öðrum orðum. Þetta er virkjunarvænt frumvarp. Síðan fer fram heilmikil umræða í nefnd eftir að 1. umr. lýkur og frá meiri hluta iðnaðarnefndar kemur álit. Það er vísað í þá sem komu til nefndarinnar og síðan segir, með leyfi forseta:

„Á síðasta þingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Var því frumvarpi ætlað að leysa af hólmi lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auk þess sem því var m.a. ætlað að taka til rannsókna á vatnsaflsvirkjunum. Í meðförum Alþingis ákvað iðnaðarnefnd að fresta afgreiðslu frumvarpsins. Hins vegar lagði nefndin síðan fram nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998 þar sem kveðið var á um rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju með þeirri breytingu að fellt er niður ákvæði til bráðabirgða.

Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Við þessa breytingu munu ákvæði laganna, sbr. einkum ákvæði III. kafla laganna um rannsóknir og leit, taka til slíkra rannsókna eftir því sem við á. Þá er í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum séu veitt einum aðila með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Í 3. gr. frumvarpsins er síðan mælt fyrir um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiða ber sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu.

Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu og lýtur hún að einu ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt er fyrir um skipun nefndar sem skal hafa það hlutverk að gera tillögu um með hvaða hætti verði valið á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi skv. lögunum og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndinni ber að skila tillögum sínum til iðnaðarráðherra í síðasta lagi 15. september 2006.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu.“

Og hér kemur breytingartillagan, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.“

Mikið var rætt við fyrri hluta 2. umr. um frumvarpið hvort ekki væri eðlilegra að sú nefnd, sem á að fjalla um þær reglur sem gilda skulu um úthlutun rannsóknar- og nýtingarleyfa á grundvelli þessara laga, skili áliti sínu áður en lögin eru samþykkt og að menn komi sér saman um reglurnar í kjölfarið. Því hér eru menn í rauninni að samþykkja opinn tékka. Það er vísað í nefnd sem á að skila af sér næsta haust en áður vilja menn fá frumvarpið samþykkt, en í 5. gr. frumvarpsins segir að lög þessi skuli þegar öðlast gildi. En það er ekki fyrr en í september sem nefndin sem setur niður það reglugerðarverk sem úthlutanir eiga að styðjast við, á að skila af sér.

Minni hluti iðnaðarnefndar var ekki alls kostar sáttur við meiri hlutann og skilaði frá sér séráliti sem fulltrúar Samfylkingar og Frjálslynda flokksins skrifuðu undir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á 131. löggjafarþingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Átti það lagafrumvarp að koma í stað laga nr. 57 1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en einnig að taka til rannsókna á vatnsaflsvirkjunum sem þau lög gera ekki nú. Eftir nokkra umfjöllun um málið komst nefndin að þeirri niðurstöðu að frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum væri ekki hæft til lagasetningar að svo komnu. Fjölmargar athugasemdir höfðu þá borist nefndinni þar sem margvísleg gagnrýni kom fram á frumvarpið en líka á frumvarp til vatnalaga sem einnig var til umfjöllunar í nefndinni. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni höfði ítrekað lagt til að hvorugt frumvarpið yrði lögfest vegna fjölmargra galla, en einnig vegna þess að frumvörpunum var ætlað að leysa af hólmi vatnalögin frá 1923 en ekki hafði þá komið fram boðað frumvarp til laga um vatnsvernd sem unnið var að í umhverfisráðuneyti. Það frumvarp hefur ekki enn borist Alþingi.“

Hér er ég að vitna í nefndarálit sem dagsett er 3. desember sl. Áfram segir með leyfi forseta:

„Endurskoðun hins mikla og mikilvæga lagabálks vatnalaganna frá 1923 er að mati minni hlutans verkefni sem Alþingi verður að vanda til. Til þess að svo megi verða verður glögg heildaryfirsýn að fást á alla þá lagabálka sem eiga að taka við hlutverki vatnalaganna. Til að freista þess að skapa Alþingi tíma til að vinna að málum í þessum anda stóð minni hluti nefndarinnar að því að flytja með meiri hlutanum frumvarp sem ekki náðist að ljúka umfjöllun um á síðasta þingi en er að mestu samhljóða því frumvarpi sem iðnaðarráðherra hefur nú lagt fram. Þessu frumvarpi er ætlað að skapa svigrúm til þess að vinna áfram að undirbúningi fyrirhugaðrar lagasetningar um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.“

Þetta var með öðrum orðum tilraun af hálfu Samfylkingar og Frjálslynda flokksins til að gefa svigrúm fyrir vandaðri vinnubrögð við stærri lagabálk. En áfram segir, með leyfi forseta:

„Áður en það mál getur komið til umfjöllunar á Alþingi þurfa að liggja fyrir niðurstöður í afar mikilvægu máli, þ.e. með hvaða hætti velja eigi milli þeirra sem sækjast eftir nýtingarrétti á auðlindum. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á frumvarpinu að skipa skuli þverpólitíska nefnd til að vinna að þeirri stefnumótun. Þessi tillaga var í því frumvarpi sem nefndin flutti á liðnu vori. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hefur ráðherra fellt tillöguna úr því frumvarpi sem nú liggur fyrir en það er þó að öðru leyti samhljóða frumvarpi nefndarinnar eins og áður sagði.“

Hér geri ég hlé á tilvitnunum. Það er hins vegar þetta sem gert er. Meiri hlutinn féllst á þetta eins og fram kom í fyrri tilvitnunum þar sem ég vísaði til breytingartillögunnar sem felld er inn í nefndarálit meiri hlutans um skipun nefndar, en nefndin hefur ekki enn samið reglugerðarverkið sem á að vera grundvöllur leyfisveitinga. Það hlýtur að vera mergurinn málsins. Auðvitað á þessi nefnd fyrst að skila af sér áliti. Þingið á að koma sér saman um grundvöll leyfisveitinganna og síðan eigum við að taka frumvarpið til umfjöllunar því þá höfum við einhverjar vitrænar skírskotanir. Við vitum ekkert hvað það er í rauninni sem við erum að samþykkja. Það má kalla þetta opinn tékka eins og gat um áðan.

Áfram segir hér, með leyfi forseta:

„Þessi tillaga var mikilvægur hluti málsins að mati minni hlutans og því ber að þakka meiri hlutanum fyrir að taka tillöguna upp aftur.“

Akkúrat. Þarna er hún komin aftur.

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Það er afar lýsandi fyrir vinnubrögð stjórnarmeirihlutans við endurskoðun þeirra lagabálka sem eiga að taka við af vatnalögunum frá 1923 að öll nefndin skuli sammála um að í þessu frumvarpi þurfi að vera ákvæði um endurskoðun á mjög mikilvægum grundvallarþætti málsins, þ.e. hvaða reglur eigi að gilda í framtíðinni um það hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir því að fá nýtingarrétt á auðlindum. Það að minni hlutinn tók þátt í að flytja frumvarp samhljóða þessu frumvarpi verður að skoða í því ljósi að það virtist eina færa leiðin til að koma í veg fyrir að ófullburða frumvarp um jarðrænar auðlindir yrði gert að lögum á síðasta vorþingi.“

Ég er ekki alveg viss um að það hafi verið eina færa leiðin. Því ef stjórnarandstaðan hér á Alþingi hefði sameinast í baráttu fyrir betra frumvarpi og því sem haft hefur verið á orði, ekki aðeins af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, heldur einnig ýmsum öðrum hér í þingsal, að við eigum ekki að taka það í mál að samþykkja eitt frumvarp af þremur sem eru í burðarliðnum án þess að vita af hinu. Þá er ég að skírskota sérstaklega til laganna um vatnsvernd. Það frumvarp hefur enn ekki komið fram. Það frumvarp er grundvallandi frumvarp. Það er það frumvarp sem við ættum að vera að ræða fyrst. Það væri í anda þeirrar samþykktar sem hefur komið fram hjá almannasamtökum um að líta beri á vatn og vatnsréttindi sem mannréttindi. Ég er að vísa í yfirlýsingu sem nú hefur verið undirrituð af stærstu verkalýðssamtökum landsins, Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra bankamanna, þjóðkirkjunni, náttúruverndarsamtökum, nánast öllum helstu náttúruverndarsamtökum landsins. Ég get farið yfir þetta síðar því þetta er fróðlegt. Þessi samtök eru í rauninni að hvetja Alþingi til að leggja verndarsjónarmiðin og mannréttindin til grundvallar. Þess vegna er eðlilegt að byrja á þeim endanum þegar við setjum lög sem miða að því að endurskoða hinn mikla lagabálk frá 1923 en birtist núna á þrígreindan hátt í þremur frumvörpum.

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Þessi tillaga var mikilvægur hluti málsins að mati minni hlutans og því ber að þakka meiri hlutanum fyrir að taka tillöguna upp aftur. Það er afar lýsandi fyrir vinnubrögð stjórnarmeirihlutans við endurskoðun þeirra lagabálka sem eiga að taka við af vatnalögunum frá 1923 að öll nefndin skuli sammála um að í þessu frumvarpi þurfi að vera ákvæði um endurskoðun á mjög mikilvægum grundvallarþætti málsins, þ.e. hvaða reglur eigi að gilda í framtíðinni um það hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir því að fá nýtingarrétt á auðlindum.“ — Ég mun hafa vísað í þetta áður.

Enn segir, með leyfi forseta:

„Það að minni hlutinn tók þátt í að flytja frumvarp samhljóða þessu frumvarpi verður að skoða í því ljósi að það virtist eina færa leiðin til að koma í veg fyrir að ófullburða frumvarp um jarðrænar auðlindir yrði gert að lögum á síðasta vorþingi.“ — Ég mun hafa lesið þessa klásúlu áður. Fyrir mistök er ég að endurtaka hana.

Enn segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn harmar að ekki hefur verið fallist á þau sjónarmið hans að allir lagabálkarnir sem koma eiga í stað vatnalaga verði unnir í samhengi svo nauðsynleg yfirsýn fáist. Þetta sést á því að frumvarp til vatnalaga er nú endurflutt nánast óbreytt og því ætluð lögfesting á þessu þingi. Enn er ekki fram komið boðað frumvarp um vatnsvernd.

Sá galli er á því frumvarpi sem hér liggur fyrir að við lögfestingu þess tekur ákvæði 2. gr. frumvarpsins (5. gr. laganna) sem veitir ráðherra heimild til að veita vilyrði fyrir nýtingarleyfum í tengslum við útgáfu rannsóknarleyfa einnig til nýtingarleyfa hvað vatnsafl varðar. Í því samkeppnisumhverfi sem nú er að skapast í raforkuframleiðslu er nú þegar ljóst að kapphlaup er hafið hjá orkuframleiðslufyrirtækjum um auðlindir landsins. Kapphlaupið er að mati minni hlutans háð vegna þess að stjórnendur fyrirtækjanna telja að reglur sem settar verði um val á milli þeirra sem sækjast eftir nýtingarrétti á auðlindum verði íþyngjandi. Þetta kann að vera rétt en ef svo er munu þeir sem hljóta náð fyrir augum iðnaðarráðherra í því millibilsástandi sem mun ríkja þar til fyrirhuguð lög taka gildi hafa forskot í samkeppninni við hina sem á eftir koma.“

Það var þetta sem tekið var á í þeim lagabreytingum sem iðnaðarnefnd ungaði út úr sér í dag og lýtur að því að koma í veg fyrir sjálfvirkni á milli rannsóknarleyfis annars vegar og nýtingarleyfis hins vegar.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld að það eru einmitt nýju aðilarnir, væntanlega aðallega einkafyrirtæki á markaðnum, sem eiga að tryggja þá samkeppni sem stjórnvöld segjast vilja skapa. Minni hlutanum hefur orðið þessi staða enn betur ljós á þeim tíma sem liðinn er frá því að málið var til umfjöllunar á síðasta þingi og nefndin fékk skýra staðfestingu á því sem hér hefur komið fram í viðræðum við forsvarsmenn orkufyrirtækja og embættismenn iðnaðarráðuneytisins við umfjöllun málsins. Af þessum ástæðum lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram þá breytingartillögu á fundi nefndarinnar að heimildarákvæðið sem ráðherra hefur skv. 5. gr. laganna verði numið úr gildi. Með þeirri ákvörðun kæmi ekki til kapphlaups á þeim forsendum sem fyrr er lýst vegna þess að allir sættu þá í framtíðinni sömu reglum eftir að ný lög um jarðrænar auðlindir öðlast gildi. Þessi breyting mundi ekki hamla í neinu veitingu leyfa til rannsókna og ekki heldur veitingu nýtingarleyfa á þeim tíma sem líður þar til endurskoðun laganna verður lokið. Það vakti þess vegna mikla undrun minni hlutans að meiri hlutinn hafnaði tillögunni og því telur hann sig knúinn til að flytja breytingartillögur við frumvarpið sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.“

Þetta segir m.a. í áliti minni hlutans og undir það skrifa hv. þingmenn Jóhann Ársælsson, Helgi Hjörvar, Sigurjón Þórðarson og Katrín Júlíusdóttir.

Eins og ég hef vikið að og komið hefur fram við umræðuna, m.a. í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, hefur meiri hlutinn komið til móts við ýmsar veigamiklar kröfur sem minni hlutinn setti fram áður en 2. umr. hófst og við fengum að heyra að það væri á þeirri forsendu sem Samfylkingin og Frjálslyndir greiddu atkvæði með afbrigði í dag og féllust þar með á að flýta afgreiðslu málsins.

Það sem ég hins vegar furða mig á er að tvennt mjög veigamikið að því er ég hefði haldið er enn í lausu lofti. Í fyrsta lagi að reglugerðarverkið sem ráðherra og þeir aðilar sem úthluta leyfunum eða um þau fjalla eiga að byggja sínar ákvarðanir á er ekki fyrir hendi. Það hefur ekki verið gengið frá því og ekki gert ráð fyrir að það gerist fyrr en 15. september árið 2006. Þá á það að liggja fyrir og eigi síðar. Þetta er annað. Síðan er hitt, sem ég hefði haldið að væri grunntónn í þessu minnihlutaáliti, að það ætti að endurskoða þessi lög með hliðsjón af öðrum lögum einnig. Ég var að vona að það væri að skapast samstaða a.m.k. innan stjórnarandstöðunnar um það. Þess vegna furðaði ég mig á að Samfylkingin og Frjálslyndir, því miður, skyldu hlaupa frá þessu máli og taka sig út af mælendaskrá eins og gerðist í kvöld.

Staðreyndin er sú að það er nefnilega mjög mikið í húfi. Við höfum hlustað á yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra undanfarna daga um stórfelld virkjunaráform og áframhaldandi uppbyggingu stóriðju og það eru í uppsiglingu meiri háttar átök í samfélaginu um þetta. Við heyrum hvað stórir hópar eru að segja, þeir eru að mótmæla, andmæla þessari stefnu og sannast sagna held ég að nú séu að verða vatnaskil í þjóðfélaginu. Við kunnum að vera í minni hluta í þinginu sem viljum standa þessa vakt, náttúruvaktina, en í þjóðfélaginu erum við samstiga mjög stórum hópum ef ekki meiri hluta Íslendinga. Það var hressilegt og uppörvandi að sækja fjöldatónleika í Laugardalshöllinni ekki alls fyrir löngu þar sem fjöldi listamanna kom fram, þar sem brugðið var upp á skjáinn upplýsingum um land vort og þær hættur sem að því steðja af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Að þessu mun ég koma nánar á eftir.

Ég sagði í upphafsorðum mínum að ég vildi setja þetta mál í stærra sögulegt samhengi. Eins og áður hefur komið fram við þessa umræðu fer nú fram þessi árin endurskoðun á lagabálki sem á rót að rekja til loka 19. aldarinnar. Sett voru lög á tíunda áratug 19. aldar um nýtingu vatnsafls. Þá hófst mikil umræða á Alþingi um það efni. Síðan voru sett hér lög árið 1907, fossalögin, með það að markmiði að vernda fossana og vötnin okkar, árnar, fyrir útlendum fjármálamönnum og stórfyrirtækjum. Áfram var þessi lagasmíð þróuð og vatnalögin 1923 voru sett eftir margra ára umræður. Þá var svokölluð fossanefnd að störfum fram undir lok annars áratugar. Sú nefnd klofnaði en Einari Arnórssyni prófessor var falið það verk að reyna að samræma sjónarmiðin og til urðu vatnalögin frá 1923.

Þegar við höfum verið að ræða nýju vatnalögin svo og þau lög sem hér eru til umfjöllunar, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og einnig vatnsverndarlög, sem reyndar hafa ekki litið dagsins ljós, er iðulega skírskotað í inntak og anda laganna frá 1923. Ríkisstjórnin hefur haldið því fram, ekki síst með tilliti til vatnalaganna, að þar væri í raun engu verið að breyta, það væri formbreyting sem þar ætti sér stað en í grundvallaratriðum væri engu verið að breyta. Við höfum hins vegar bent á að í vatnalögunum sé verið að styrkja eignarrétt á vatninu. Sama höfum við sagt um þessi lög, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þau voru sett árið 1998 og þá fór fram mikil og hörð umræða um þennan lagabálk á Alþingi. Þar var einnig rætt um þennan grunn, um eignarréttarhugtakið. Og gagnstætt því sem hæstv. iðnaðarráðherra segir nú um vatnalögin, að þar sé ekki að eiga sér stað nein innihaldsbreyting, þetta sé formbreyting, en um mjög sterk eignarréttarákvæði hafi verið að ræða í vatnalögunum frá 1923, þá sagði forveri hennar á stóli iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, þegar hann talaði fyrir lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum að þau væru sett beinlínis til að styrkja eignarréttarhugtakið. Það er mjög fróðlegt að fara að skoða þær umræður sem þá áttu sér stað því að hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra fjallaði mjög ítarlega um þetta. Hann sagði m.a. í ræðu sem hann flutti 5. febrúar 1988, með leyfi forseta:

,,Rétt er að geta þess að umræða og meðferð þessara mála á fyrri hluta og fram á miðja þessa öld fór fram við allt aðrar kringumstæður en nú, m.a. með tilliti til réttarframkvæmdar, nýtingarmöguleika og tækni til nýtingar.

Með hliðsjón af þessari forsögu verður að telja brýnt að kveða skýrt á um meðferð náttúruauðlinda. Nýting náttúruauðlinda verður sífellt umfangsmeiri. Þjóðhagslegt mikilvægi nýtingar er jafnframt mikið. Sífellt verður brýnna að kveða með samræmdum hætti á um nýtingu og tryggja þannig heildstæða sýn yfir auðlindirnar, nýtingarmöguleika og vinnslu. Aðeins þannig er hægt að tryggja að nýting og vinnsla samræmist heildarhagsmunum og að umhverfissjónarmið séu í heiðri höfð.

Með þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram eru stigin stór skref í þessa átt. Aldrei fyrr hefur ríkisstjórn Íslands tekið af skarið með þessum hætti.

Grundvallarforsenda þess að koma megi á samræmdu skipulagi í nýtingu auðlinda er að kveða skýrt á um eignarrétt á þeim.“

Hann vísar í 3. gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.“

Er við lítum yfir lögin er alls staðar kveðið mjög skýrt á um eignarrétt. Hér er t.d. talað um að netlög merki í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Ég vísa í þetta vegna þess að í umræðunni kom mjög skýrt fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrrverandi hv. þm. Ragnari Arnalds þær breytingar sem orðið hafa á eignarréttarhugtakinu.

Þó fyrrverandi hæstv. ráðherra segi að eignarréttarhugsunin hafi verið að styrkjast á 20. öldinni segir hann reyndar einnig að þeir sem um þessi mál hafi vélað af hálfu íslenskra stjórnmálamanna frá því um miðja 20. öldina og fram á okkar daga hafi allir verið mjög á þeirri skoðun að eignarréttur yfir landi og auðlindum, þar á meðal jarðhitanum, væri mjög sterkur. En þetta er vefengt í umræðunni og það gera margir þingmenn. Þeir vísa m.a. í greinargerðir frá 1945 eftir Bjarna Benediktsson og skýrslu sem unnin var af Ólafi Jóhannessyni, prófessor og síðar ráðherra, árið 1956. Þegar hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, er hrakinn af leið með þessum tilvísunum segir hann að tímarnir séu breyttir og vísar í dóma sem hann getur reyndar ekki tilgreint sem hafi staðfest að þarna hafi verið um eignarréttindi að ræða.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vísar í þessa umræðu og þær skýrslur og síðar lagafrumvörp byggð á skýrslum þeirra Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar. Það er farið mjög ítarlega yfir þetta. Hv. fyrrverandi þm. Sighvatur Björgvinsson bendir á hve mikilvægt málið sé. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Nú er verið að svara spurningunni ,,hver á Ísland?“ í hverju málinu á fætur öðru. Það er ekki bara verið að einkavæða sameign þjóðarinnar í fiskimiðum, nú er líka hafin einkavæðing á sameign þjóðarinnar í auðlindum í og á jörðu.“

Reyndar er ég þeirrar skoðunar að þetta hafi verið eitt stærsta málið á þessum árum. Íslendingar ganga þarna lengra í því að styrkja eignarréttindi einstaklinga yfir auðlindum í jörðu en sennilega nokkur önnur þjóð hefur gert. Hugsanlega fyrirfinnast þær en við göngum t.d. miklu lengra en Bandaríkjamenn sem undanskilja almennt í löggjöf sinni jarðhita í eignarréttarákvæðum. Jarðhiti fylgir ekki sölu á landi. En hæstv. iðnaðarráðherra heldur fast við sitt og segir síðar við umræðuna, með leyfi forseta:

,,Eins og komið hefur fram við umræðuna er hér um að ræða mikilvægt mál sem snýst um eignarhald og eignarréttindi og þarf því ekki að koma á óvart þó pólitískur ágreiningur sé um það mál. Í raun ætti stjórnmálaumræðan að snúast um þessi atriði.“

Hann telur þetta sem sagt vera grundvallaratriði í lagabálknum. Sannast sagna finnst mér fróðlegasta ræðan sem var flutt um lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu vera ræða fyrrverandi hv. þm. Ragnars Arnalds. Hann vitnar í rannsóknir ýmissa fræðimanna um þetta efni og fer aftur í rekabálk Jónsbókar þar sem vísað er í réttinn til rekans. Hann fylgir ekki eignarhaldi á landinu, heldur er um að ræða rétt. Hann vísar í tilskipun frá 19. öld frá árinu 1849 þar sem landeiganda er veittur einkaréttur til veiða. Hann vísar einnig í sömu tilskipun þar sem vísað er í réttindi innan netlaga. Þar er vísað í nytjarétt og afnotarétt en ekki í eignarhald á landinu eða á sjónum. Síðan er rakið hvernig það kemur aftur og ítrekað fram í gegnum aldirnar að Íslendingar hafa ekki litið svo á að vatnið eða jarðhitinn, kalt vatn og heitt, fylgdi eignarhaldi á landi. Þetta er stórmerk ræða þar sem vísað er m.a. í heimildir í Sturlungu um heitar laugar, að þær hafi verið almenningsbaðstaðir og vísað í fjölmargar laugar hvað það snertir. Sælingsdalslaug, Reykjalaug í Miðfirði, Laug í Reykjadal, Skíðastaðalaug o.s.frv. sem allar hafa verið samkomustaðir almennings og ótvírætt í almenningseign. Síðan segir fyrrverandi hv. þm. Ragnar Arnalds, með leyfi forseta:

,,Ef við færum okkur nær nútímanum og komum yfir á 18. öldina, þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um landið, þá lýsa þeir jarðgufuböðum sem heilsulind almennings og það er yfirleitt alltaf tengt því að ferðamenn máttu staldra þar við og laugast. Þannig er t.d. greint frá því í ferðabók þeirra að ferðamenn á leið til Alþingis notuðu Reykjalaug, sem er skammt frá Lundarreykjadal, og ekki þarf að segja mönnum af lauginni í Laugardal, þar sem kristnir menn voru skírðir eftir að kristni var lögtekin á Íslandi. Kristnir menn á Íslandi höfðu það fram yfir trúbræður sína í öllum öðrum löndum að þeim þóknaðist að lauga sig í heitu vatni, en annars staðar var mönnum dýft í kalt vatn.“

Síðan vísar fyrrverandi hv. þm. Ragnar Arnalds enn í ferðabók þeirra félaga, Eggerts og Bjarna, með leyfi forseta:

,,Almenningsmannvirki frá Sturlungaöld þekkjast ekki önnur nú en Snorralaug, sem fyrr er lýst, og Hvítárbrú, sem reist var til forna yfir Hvítá og síðar við haldið af sveitarbúum.“

,,Þessi brú ónýttist og vissulega ónýttust margar laugarnar en engu að síður bera þessar tilvitnanir mínar þess skýran vott að laugar voru hér almenningseign.

Það er líka eftirtektarvert að í hinu mikla verki Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Jarðabókinni, sem var samin 1702–1712, og fjallar um eignarréttindi, fjallar um eignarrétt á landi. Það er verið að gera grein fyrir dýrleika jarða, það er verið að gera grein fyrir því hvaða rétt bændurnir eiga. Þar er hvergi minnst á lauga- eða heitavatnsréttindi, hvergi í allri bókinni er minnst á slík réttindi vegna þess að það var auðvitað ekki litið á það sem réttindi viðkomandi jarða eða bænda. Einkaeignarréttindi yfir þessum gæðum höfðu alls ekki verið stofnuð á þessum tíma. Það er ekki fyrr en með 10. gr. vatnalaganna, nr. 15/1923, sem lögákveðinn er einkaeignarréttur að jarðhitaréttindum en þá gerist stóra breytingin, hin lögformlega breyting, og að því leyti er þetta mál svolítið öðruvísi vaxið en netalagnirnar.“

Síðan er vitnað í Íslandslýsingu Odds Einarssonar sem var rituð 1593. Þar er á athyglisverðan hátt fjallað um almannaréttinn hvað varðar heita vatnið. Ég ætla að skemmta hv. þingmönnum og hæstv. forseta með því að vitna í Íslandslýsingu Odds Einarssonar. Þetta er nefnilega svolítið fróðlegt og meira en það. Þetta er stórfróðlegt, ekki síst hvernig tilvitnunin endar. Hún hefst á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Fjölmargir á þessum slóðum fullyrða það nefnilega sem sannreynt, að þetta svitabað — hér er verið að vísa í heit böð — hafi allt frá fornu fari ekki aðeins læknað kláða og útbrot, heldur líka eytt mörgum öðrum sjúkdómum eða a.m.k. linað þá tíma og tíma. Menn álíta reyndar einnig, að önnur böð og heitar laugar á Íslandi hafi þessa náttúru að leggja fjölmargt til viðhalds heilsunni. Að vísu segja kerlingabækur, að þetta stafi frá einhverjum guðum og vissum mönnum, sem einhvern tíma hafi blessað hina og þessa staði. En vér látum slíkt bull lönd og leið og vitum, að oss bera að játa með tilhlýðilegri þakklátssemi, að hin óeigingjarna náttúra hefur með þessum hætti lagt oss til einstök hlunnindi og mikið djásn.“

Þetta er vel mælt. Síðar í Íslandslýsingu Odds Einarssonar segir, með leyfi forseta:

,,Því fullvel veit ég, að ef afnot slíkra heilsulinda væru á valdi einhverra fjárplógsmanna, væru þeir ekki lengi að auka við inntektir sínar.“

Þarna kemur með öðrum orðum í ljós að árið 1593, í Íslandslýsingu Odds Einarssonar, telur biskupinn það jafnast á við fjárplógsstarfsemi að selja afnot af jarðhita á Íslandi.

Hæstv. forseti. Hvers vegna skildi ég staðnæmast við þessa umræðu? Hvers vegna skiptir hún máli? Getur verið að ég sé bara að reyna að tefja tímann? Nei, því fer fjarri. Þetta skiptir mjög miklu máli því það er alveg hárrétt sem fram kom í máli fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra að við erum að tala um grundvallaratriði þegar vísað er í eignarréttinn. Ég benti reyndar á það við þessa umræðu árið 1998 að við værum að fara inn í nýtt umhverfi. Umhverfi þar sem alþjóðlegt fjármagn væri farið að ásælast auðlindir á borð við heitt vatn, að ekki sé minnst á fallvötnin og að við þyrftum að gæta okkar.

Þess vegna þegar við nú erum að prófa þessa lagasmíð alla áfram, þegar við erum að taka upp lögin frá 1923, þurfum við að setja málin inn í þetta nýja alþjóðlega samhengi, inn í þennan nýja veruleika. Við þurfum að hugsa á nákvæmlega sama hátt og lagasmiðirnir frá 19. öldinni, þeir sem smíðuðu fossalögin 1907, til þess beinlínis að takmarka möguleika erlendra fjármálamanna að eignast auðlindir Íslands. Þess vegna eigum við að fara mjög gætilega þegar við tökum lögin upp og beinum þeim fram á við. Við þurfum að gæta okkur á því að við förum fram á við en ekki aftur á bak.

Nú kann það að vera svo að í sumum tilvikum sé erfitt að snúa aftur. Það er skrúfa á sál margra að ekki megi hrófla við neinu sem heitir eignarréttur. Ég er ekki mjög viðkvæmur fyrir því ef það er til almannaheilla. Að minnsta kosti eigum við að hafa það í huga þegar við þróum lagarammann áfram að reyna að veikja þessi eignarhaldsákvæði, styrkja hins vegar hin ákvæðin sem lúta að almannahag og rétti þjóðarinnar, almennings til að nýta sér landsins gæði. Þetta eigum við að sjálfsögðu að gera í breytingum á þessum lagabálki sem fjallar um sjálfan eignarréttinn, eins og hæstv. fyrrverandi ráðherra, Finnur Ingólfsson, sagði og einnig önnur lög sem liggja núna fyrir þinginu, vatnalögin, og síðan vatnsverndarlögin sem okkur er sagt að séu í burðarliðnum.

Ég vísaði í það hvaða samhengi við erum að ræða þessi lög í og vísaði í öll þau leyfi eða umsóknir um leyfi á rannsóknar- og nýtingarleyfum sem nú liggja fyrir þinginu. Við þekkjum náttúrlega öll ákafann í ráðherranum, hæstv. iðnaðarráðherra, að virkja meira og meira. Þetta er orðið nánast eins og fíkn, að þegar áhrifin af síðasta skoti dvína þá þarf að ráðast í nýja aðgerð, þá þarf að virkja meira. Ég ætla að vísa í nokkrar yfirlýsingar sem við höfum heyrt frá þessum ráðherra á síðustu mánuðum og missirum.

Við munum að sumarið 2004 ferðaðist hæstv. ráðherra víða um landið með fulltrúum Alcoa held ég að það hafi verið, m.a. um Norðurland, en förinni lýsti hæstv. ráðherra á þá lund að hún hafi verið skemmtiferð ásamt öðru, svo ég hafi þetta nú orðrétt eftir. Þau voru sem sagt að skoða virkjunarmöguleika á Norðurlandi. Morgunblaðið vitnar í ráðherrann 25. júlí árið 2004 á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir meiri alvöru að baki fyrirspurnum erlendra álbræðslufyrirtækja um hugsanlega stóriðju á Norðurlandi en verið hefur. „Það er meiri áhugi nú en við höfum nokkurn tíma orðið vör við og það sýnir sig bæði í fyrirspurnum til okkar og til Landsvirkjunar,“ segir hún.“

Í frétt Morgunblaðsins segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Valgerður vill þó ekki greina frá því hvaða fyrirtæki um sé að ræða en segir að fyrirspurnirnar berist jafnt frá fyrirtækjum sem Landsvirkjun hafi áður átt viðskipti og samskipti við sem og fyrirtækjum sem áður hafi ekki lýst yfir áhuga á framkvæmdum á Íslandi. Áhuginn beinist fyrst og fremst að Norðurlandi þó að menn hafi einnig Reykjanesið í huga.“

En bíðum nú við, nú líður og bíður. Í marsmánuði á síðasta ári heyrum við yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra iðnaðarmála í kvöldfréttatíma útvarpsins. Valgerður Sverrisdóttir segir, með leyfi forseta:

„Við Íslendingar stöndum á tímamótum í þróun orkufreks iðnaðar. Eftir áralangan aðdraganda og þrotlausa vinnu við að finna leiðir til að nýta orkulindir landsins til atvinnuuppbyggingar er nú svo komið að færri komast að en vilja. Umfangsmikil markaðsvinna á síðasta áratug við að vekja athygli erlendra fjárfesta á ágæti landsins til þess að reisa hér orkufrekan iðnað hefur skilað sér á undraverðan hátt, þannig að nú er talað um Ísland sem best varðveitta leyndarmálið í Evrópu meðal álframleiðenda og er þá vitnað til þess hve aðstaða hér á landi er góð fyrir þess háttar framleiðslu.

Það hefur tekið heil 50 ár að ná þessum árangri og endurspeglast hann hvað best í því að nú þegar hafa sex heimsþekkt álfyrirtæki sýnt áhuga á að fjárfesta í nýjum álverum á Íslandi á næstu árum.“

Þetta hefur kostað þrotlaust starf í 50 ár. Alræmdur er bæklingurinn sem gefinn var út af iðnaðarráðuneytinu árið 1995 og ber heitið Lowest energy prices in Europe for new contracts. Lægsta orkuverð í Evrópu. Í þeim bæklingi sem mjög er vandað til hvað myndefni og prentun snertir er vikið að vinnuaflinu. Fram kemur í línuritum að á Íslandi sé lægra kaup en víða annars staðar í Evrópu og efstir á blaði eru Þjóðverjar, síðan koma Norðmenn, Danir, Japanir, Svíar, Finnar, Bandaríkjamenn, Frakkar, Ítalir, Bretar og síðan Íslendingar. Menn hrósa sér líka mjög og monta sig af því að tilkostnaður við velferðarkerfið sé minni hér á landi en annars staðar, það sem þeir kalla „social cost“, launin lægri og félagslegir þættir ekki eins dýrir og víða annars staðar. Slíkar upplýsingar er verið að senda um okkur til erlendra stórfyrirtækja, álfyrirtækja. Einnig kemur í ljós að mjög auðvelt og gott er að eiga við umhverfisyfirvöld, hér liggi stóreignamenn almennt í bómull stjórnvalda, afskaplega vel sé farið með þá sem eiga mikla fjármuni, Íslendingar séu góðir við slíkt fólk, íslensk stjórnvöld. Þetta er það sem ríkisstjórnin var að senda út um allan heim og núna loksins segir hæstv. iðnaðarráðherra 20. mars að loksins séum við að hafa árangur af okkar mikla kynningarstarfi. Að nú sé talað um Ísland sem best varðveitta leyndarmálið í Evrópu meðal álframleiðenda. Það er nefnilega það. Þetta er nú samhengi hlutanna sem við erum að ræða þessi mál í.

Það er annað sem snýr að hinum efnahagslega þætti þessa máls. Nú um stundir eru starfandi álver á Íslandi með 270 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Ef hins vegar draumar Framsóknarflokksins verða að veruleika stefnir í að álframleiðslan á Íslandi verði 1.300–1.400 þúsund tonn, fari með öðrum orðum úr 270 þúsund tonnum í 1 milljón og 400 þúsund tonn. Hvað mundi þetta þýða? Þetta mundi þýða að Ísland væri í hópi helstu álframleiðsluríkja heimsins. Við værum með um 5% af heimsframleiðslu á áli á ári. Þá er náttúrlega spurningin sú. Er það gott eða slæmt?

Fram hefur komið við umræðuna og margoft í álitsgerðum óháðra hagfræðinga að ábatinn fyrir þjóðarbúið sé miklum mun minni af þessari framleiðslu en annarri framleiðslu. Það var bara síðast í gær að í Ríkisútvarpinu var ágætt viðtal við meistaranema frá Bifröst, en hann sagði í útvarpsviðtali í gær, með leyfi forseta:

„Á síðasta ári skaffaði hátækniiðnaður sem er fimmtán ára gömul grein, og hefur vaxið um 36% á ári svona sirka, á þessum fimmtán árum, hún skaffaði 4% af verðmætasköpuninni í landsframleiðslunni. Öll stóriðja til samans skapaði 1,2%.“ Síðan vísaði hann í ruðningsáhrifin og sagði að við værum að henda út atvinnustarfsemi sem hefur vaxið hratt og hefur gefið okkur miklum mun meiri ávinning en álframleiðslan hefur gert.

Í greinargerð sem kom frá KB-banka í ágúst sl. segir, með leyfi forseta, en þar er verið að vísa í greiningu á efnahagslegum forsendum um áliðjustefnuna:

„Þjóðhagslegur ábati stóriðjunnar er því einkum fólginn í því yfirverði sem álver greiða til íslenskra framleiðsluþátta, einkum vinnuafls og orku. Þar skiptir arður af sölu raforku mestu máli … Sú stefna virðist hins vegar hafa verið ríkjandi hérlendis að selja raforku mjög nærri kostnaðarverði sem endurspeglast bæði í fremur lágri arðsemi Landsvirkjunar og fremur lágri ávöxtunarkröfu sem fyrirtækið gerir til virkjanaframkvæmda.“

Það sem hér er verið að segja okkur eftir því sem ég fæ best skilið er að Íslendingar eru með ærnum tilkostnaði, og að því er vikið í álitsgerð bankans sem ég vitnaði til, að búa sig undir framtíðina að hætti fátækra þriðja heims ríkja sem selja fjölþjóðarisum aðgang að dýrmætum auðlindum fyrir lítinn þjóðhagslegan ávinning.

Greiningardeild KB-banka talar sem sagt um lága arðsemi og lága arðsemiskröfu. Vissulega skapist störf en það séu dýrkeyptustu störf sem orðið hafa til í landinu og er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því sem fram kemur hjá KB-banka á þessum tíma, að rangt sé að gera mikið úr ávinningi stóriðjustefnunnar með tilliti til svokallaðra afleiddra starfa því þau hefðu orðið til einnig þó atvinnuuppbyggingunni hefði verið beint inn í annan farveg.

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið 23. ágúst, eftir að þessi greining kom frá KB-banka. Greinin hét áskorun til fjölmiðla. Þar hvatti ég fjölmiðla til að taka upp faglega og ganrýna umræðu um áform ríkisstjórnarinnar um frekari uppbyggingu stóriðjustefnu. Tveimur dögum síðar, 25. ágúst, er mjög fróðleg grein birt í Viðskiptablaðinu og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Fjárfestingar í stóriðju kosta gríðarlega fjármuni og er líklegt að þeim geti verið betur varið í þjóðfélaginu á öðrum sviðum.“

Við höfum verið að verða vitni að því að undanförnu hvernig hvert fyrirtækið á fætur öðru í hátækniiðnaði og skyldri starfsemi er að hrökklast úr landi vegna ruðningsáhrifa stóriðjunnar. Við erum einnig að verða vitni að því hvernig önnur atvinnustarfsemi í útflutningsgreinum berst nú í bökkum, sjávarútvegsfyrirtæki mörg, ferðaþjónustan, sem kvartar sáran, og allt vegna ruðningsáhrifanna frá stóriðjustefnunni.

Það er svolítið merkilegt að áður en ráðist er í þessar framkvæmdir er varað við því að nákvæmlega það muni gerast sem síðan hefur hent, nákvæmlega þetta allt saman var fyrirsjáanlegt, allt saman. En það er svolítið sérstakt hve lágróma ýmsar stofnanir, háðar ríkisvaldinu, verða þegar á hólminn kemur og hve ógagnrýnir ýmsir aðilar sem tengjast ríkisvaldinu eru og eru m.a.s. enn við sama heygarðshornið. Ég heyrði hagfræðing hjá Háskóla Íslands ekki alls fyrir löngu segja í fréttum að hugsanlega verði hægt að koma í veg fyrir þensluáhrif af fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum og uppbyggingu stóriðju sem nú eru á teikniborðinu hjá hæstv. ráðherra, Valgerði Sverrisdóttur.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum barist mjög eindregið gegn þessari þróun og höfum m.a. vísað í efnahagslega þætti. Við höfum varað við þensluáhrifunum, við höfum varað við því hvernig þetta kæmi til með að þrengja að öðrum atvinnurekstri nákvæmlega eins og gerst hefur, bæði með hækkun vaxta — og því erum við að verða vitni að núna í dag, vaxtaþróunin upp á við — og einnig á annan hátt með gengisþróun sem er mjög óhagstæð innlendum framleiðslugreinum. Við höfum vísað í þessar efnahagslegu forsendur og reyndar má ekki gleyma því í þeirri spyrðunni að við teljum að efnahagslegur ávinningur af álframleiðslunni fyrir Íslendinga sé harla lítill. Þetta eru nefnilega erlendir aðilar sem eru að flytja allan virðisaukann úr landi að uppistöðu til. Við höfum tekjur af skatti. Hann er lágur vegna þess að við veitum þessum fyrirtækjum afslátt í skatti, sérstök skattakjör. Síðan höfum við náttúrlega tekjur af raforkunni og þar höfum við sem sagt boðið upp á prísa sem ríkisstjórnin kallar lægsta orkuverð í Evrópu, kallar það réttilega og montar sig af því, þ.e. til þessara fyrirtækja. Það er ekki til almennings á Íslandi, þar er verðið miklu hærra. En gagnvart álfyrirtækjunum er þetta mikil paradís, best varðveitta leyndarmál í álbransanum í heiminum, sagði ráðherrann eins og ég vísaði í áðan. Við höfum sem sagt varað við hinum efnahagslegu áhrifum og teljum að þetta sé ekki ábatasöm stefna fyrir okkur Íslendinga.

Hér fyrr á tíð var dæmið sett upp svolítið öðruvísi en núna. Þá sögðu menn sem svo að það væri mikilvægt þegar við værum að byggja upp orkuframleiðsluna í landinu að fá stórfyrirtæki, þar á meðal álfyrirtæki, inn í púkkið. Það auðveldaði okkur að byggja stærri virkjanir sem væru hagkvæmari og þjóðhagslega væri þetta heppilegt, jafnvel þótt við létum þessi fyrirtæki borga lægra verð en almenning, að það kæmi vel út þegar á heildina væri litið þjóðhagslega. Um það voru reyndar alltaf miklar deilur en látum það liggja á milli hluta.

Nú í seinni tíð er litið allt öðruvísi á þessi mál og umræðan um Kárahnjúkavirkjun er af allt öðrum toga vegna þess að þar höfum við ekki lengur þessa blöndu á raforkuframleiðslu fyrir stórfyrirtæki annars vegar og fyrir heimili og lítinn atvinnurekstur hins vegar. Framleiðslan er öll fyrir eitt fyrirtæki. Þar víkjum við þess vegna þessu stóra þjóðhagslega samhengi til hliðar og horfum þá bara á arðsemina af sölunni til þessa fyrirtækis eins. Það hefur reyndar ekki komið í ljós enn hvort þetta kemur til með að skila arði en ég held að það vilji oft gleymast, þegar menn hafa verið að horfa til efnahagsumsvifanna á Austurlandi, sem fylgt hafa virkjunarframkvæmdunum, að hver einasta króna sem varið er í þessar framkvæmdir er tekin að láni á ábyrgð íslenskra skattborgara. Það er fyrst núna þegar verið er að byggja álverið að nýir peningar eru að koma inn í landið. En virkjunarframkvæmdirnar eru að sjálfsögðu allar byggðar fyrir lánsfé sem er á ábyrgð skattborgara, þeirra sem standa að Landsvirkjun, eignaraðila Landsvirkjunar, ríkis, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Það eru sem sagt hinar efnahagslegu forsendur og hin efnahagslegu rök sem við vísum í.

Síðan er ekki síður hitt og aldeilis ekki síður, það eru náttúruverndarsjónarmiðin. Þar er ég að vona, hæstv. forseti, að nú séu að verða vatnaskil í þjóðfélagsumræðunni, ég hef trú á því. Ég held að það sé að verða vakning. Ég held að unga fólkið sé að vakna til vitundar um þau skemmdarverk sem verið er að vinna á íslenskri náttúru og ætli að snúast henni til varnar. Ég held að hin stórglæsilega tónlistarhátíð í Laugardalshöll fyrir skömmu sé til marks um það.

Í ályktunum frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum við vísað í báða þessa þætti, bæði náttúruverndarsjónarmiðin og hinar efnahagslegu forsendur. Hér segir t.d. í ályktun sem þingflokkur VG sendi frá sér í maí sl. Við erum þá að hvetja landsmenn til að staldra við og spyrja grundvallarspurninga.

Í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Eru Íslendingar tilbúnir að færa ótakmarkaðar fórnir fyrir frekari uppbyggingu stóriðju í landinu? Ætla landsmenn að fórna enn fleiri náttúruperlum fyrir orkusölu til mengandi þungaiðnaðar? Hvar ætla landsmenn að fá orku fyrir vaxandi orkuþörf íslenskra heimila og almenns atvinnulífs á komandi árum? Hvað með vetnisvæðingu Íslands þegar búið verður að binda orku í samningum til áratuga við erlend stóriðjufyrirtæki? Er ekki eftirsóknarverðara að byggja íslenskt atvinnulíf upp á fjölbreytni í stað einsleitrar stóriðju með stórfelldum neikvæðum áhrifum á annað atvinnulíf eins og dæmin sanna? Eru Íslendingar tilbúnir að afhenda orkuauðlindir sínar áfram á útsöluverði?“

Ég vitna í þessa ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í grein sem ég birti í Morgunblaðinu 26. maí en þar vík ég einnig að ýmsum efnahagslegum þáttum og m.a. að því að fram hafi komið að árið 1999 hafi Landsvirkjun selt 66% af framleiddri raforku til stóriðju en aðeins 38% af tekjunum komið þaðan. Einnig hafi komið fram að arðsemi eigin fjár Landsvirkjunar árin 1998–2003 hafi verið 2,9%, sem er minna en verðbólga.

Þá er hitt: Hvað er það eiginlega sem stjórnvöld sjá svona gott og hagstætt í þessari þróun? Ég minnist þess að fyrir síðustu kosningar lýsti Framsóknarflokkurinn því yfir að æskilegt væri að stefna að því að álframleiðsla á Íslandi yrði um þriðjungurinn af umfangi efnahagsstarfseminnar, ég held að ég muni þetta rétt.

Það var talað um það að þetta væri í og með gert til þess að við hefðum ekki öll eggin í sömu körfunni eins og kallað var. Það væri ekki heppilegt að við reiddum okkur á sjávarútveginn í þeim mæli sem gert hefði verið og áliðnaður væri heppileg stoð, ein þriggja eða fjögurra stoða í íslensku atvinnulífi.

Nú er það svo að á þessu hafa verið gerðar rannsóknir og menn hafa skoðað áhrifin af sveiflum í sjávarútvegi annars vegar og í álframleiðslunni hins vegar, eða öllu heldur í útflutningsverðmætum fyrir ál, og það kom í ljós að þessar sveiflur fylgdust nokkuð að. Í stað þess að vera jafnandi ýktu þær áhrifin á efnahagslífið þannig að þegar allt kom til alls var þetta ekki til góðs, ekki til þess að dreifa áhættunni eða jafna sveiflurnar. Þvert á móti varð það til þess að ýkja þessar sveiflur.

Ég gat um það við umræðuna fyrr í dag að ég hefði prentað út það sem sagt var við fyrri umræður þessa máls, þar á meðal ræður sem hæstv. iðnaðarráðherra flutti, til að reyna að átta mig á þeim misskilningi sem hún bar á borð fyrir þingið. Við umræðuna í dag sagði hún að hún hefði ekki farið með rétt mál gagnvart þinginu og embættismenn hefðu ekki haldið fram réttum staðreyndum þegar þeir upplýstu iðnaðarnefnd um innihald þessa lagafrumvarps. En ég verð að segja að skilningur ráðherrans er mjög eindregið sá að lögin eigi að vera til þess að hvetja og örva orkufyrirtæki til að ráðast í framkvæmdir og einnig að æskilegt sé að tengja leyfi til rannsókna, nýtingu og heimildum til að virkja. Ég ætla að vitna í orð hæstv. ráðherra frá 22. nóvember sl. en þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins var samkeppni í vinnslu raforku innleidd hér á landi við gildistöku raforkulaga, nr. 65/2003. Var ráðherra jafnframt veitt vald til að veita virkjunarleyfi á grundvelli laganna en fyrir gildistöku þeirra var vald ráðherra bundið því skilyrði að Alþingi hefði áður með sérstökum heimildarlögum veitt honum heimild til slíks. Fyrir gildistöku raforkulaga hafði Landsvirkjun jafnframt forgang til virkjunar vatnsafls í samræmi við skyldu sína til að sjá öllum sem þess óskuðu fyrir raforku. Nú þegar þessi forgangur Landsvirkjunar er ekki lengur til staðar hafa fleiri orkufyrirtæki sýnt vatnsaflsvirkjunum áhuga. Samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar, öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði.“

Það er augljóst að úr þessu þurfi að bæta til að örva orkufyrirtækin til dáða og að þau þurfi að fá tryggingu fyrir því að ef þau ráðast í rannsóknir muni þau fá kostnaðinn endurgreiddan fái þau síðan ekki virkjunarleyfið af einhverjum ástæðum. Það var þetta sem menn gagnrýndu hvað helst þegar frumvarpið kom til 2. umr., að þarna væri sjálfvirkni á milli þegar ráðherrann fengi heimild til að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi þá fengju þau heimild til að virkja í framhaldi af því.

Það má vissulega segja að stigið sé skref fram á við með þeim breytingartillögum sem lagðar eru til á frumvarpinu nú. Þar eru heimildir ráðherrans þrengdar. Það er ekki lengur í valdi ráðherra að veita sjálfkrafa virkjunarleyfi í framhaldi af rannsóknarleyfi en hitt er óásættanlegt að rannsóknarleyfin skuli veitt án þess að fyrir liggi reglur sem eftir á að smíða um það efni. Nú er búið að fallast á að skipuð verði nefnd til að smíða þessar reglur og það er búið að negla inn dagsetningu um hvenær hún eigi að hafa lokið störfum sínum en eðlilegt hefði verið og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum ríka áherslu á, að áður en lögin komi til framkvæmda liggi þetta reglugerðarverk fyrir.

Hæstv. forseti. Áður en ég lík máli mínu sem ég geri fljótlega, þ.e. fyrri ræðu minni við 2. umr. málsins, þá vil ég leggja áherslu á það sjónarmið okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að nú sé að því komið að fara í álbindindi. Í stað þess að reyna að laða álfyrirtækin hingað og auglýsa Ísland sem svæði sem býður upp á lægsta orkuverð í Evrópu og þótt víðar væri leitað, áður en við auglýsum landið frekar sem land sem ríkisstjórnin er tilbúin að fórna fyrir erlenda álhagsmuni, þá stöldrum við við og göngum frá rammaáætlun eins og til stendur að gera og unnið er að. Þetta er rammaáætlun um hvernig við hyggjumst nýta vatnsaflið og jarðhitann í framtíðinni. Við skoðum það með tilliti til náttúrunnar, til umhverfisverndar og með tilliti til efnahagsþátta bæði í nútíð og framtíð. Ef það væri nú svo að Íslendingar væru að veslast upp, við ættum hvorki til hnífs né skeiðar og yrðum bókstaflega að grípa til einhverra ráðstafana til að halda lífi í þjóðinni, þá mætti skilja þetta offors. En við erum ein ríkasta þjóð í heimi og okkur skortir ekki auðlegð. Okkar vandi er hvernig við skiptum verðmætunum milli okkar, það er okkar vandi og það er skipulagsvandi og hann er hægt að leysa. En svo getur farið ef okkur tekst ekki að stöðva ríkisstjórnina og álæði hennar þá muni það að öllum líkindum valda óbætanlegum og óafturkræfum spjöllum á landinu. Það vakti athygli mína á hljómleikunum sem við höfum vísað til að erlendu tónlistarmennirnir höfðu allir á orði að þeim væri óskiljanlegt hvað íslensk stjórnvöld væru að gera okkar fallega landi. Ísland væri náttúruperla sem væri einstök í veröldinni og það væri óskiljanlegt að menn vildu ekki fara betur með hana en raun ber vitni. Maður hefði haldið að nóg væri komið eftir Kárahnjúkavirkjun sem er einhver umdeildasta framkvæmd sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Það er framkvæmd sem veldur óafturkræfum spjöllum á náttúrunni og efnahagslegri eyðileggingu sem við erum þegar að verða vitni að, óafturkræfri eyðileggingu. Er ekki kominn tími til, hæstv. forseti, að við segjum stopp?

Þetta frumvarp sem hér er til umræðu veitir hins vegar álóðri ríkisstjórninni með hæstv. iðnaðarráðherra í fararbroddi heimild til að halda áfram að úthluta leyfum til rannsókna. Í kjölfarið munu síðan fylgja heimildir til frekari virkjana. Og fyrir þá sem hafa notið þeirra náttúruperlna sem hugmyndir standa til að virkja eins og jökulvötnin í Skagafirði, Skjálfandafljót og önnur fljót, þá er ástæða til að reyna allt sem við mögulega getum til að stöðva þetta og koma í veg fyrir að frumvörp og lagabreytingar sem auðvelda ráðherranum og ríkisstjórninni að framkvæma þessa stefnu verði afgreidd héðan frá þinginu. Það er skýringin á því að við viljum standa þessa vakt. Við lítum svo á að það sé ófrávíkjanleg krafa af okkar hálfu að samhliða þessu frumvarpi um auðlindir í jörðu verði færð inn á umræðuborðið lög um vatnavernd og síðan vatnalögin. Þau eru komin fram í algerlega óásættanlegu formi. Ef við ætlum að taka á þessu á einhvern vitrænan og skynsamlegan hátt þá reynir ríkisstjórnin að ná þverpólitískri sátt um þessi mál og reynir að komast í talsamband við þjóðina. Hún er nefnilega að biðja um allt annað en frekari stóriðju, frekari virkjanir, frekari eyðileggingu á íslenskri náttúru. Ég held að almennt sé fólk búið að fá nóg og vilji álstopp.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögu um að nú verði tekið frí frá frekari stórvirkjunum. Það eru ýmsar virkjanir sem eru þegar fyrir hendi í landinu sem hægt er að nýta betur og það eru heimildir til breytinga og stækkana á ýmsum verum til að svara þeirri þörf sem þarf að svara en öll viðbót sem liggur í áformum ríkisstjórnarinnar lýtur fyrst og fremst að því að svara þörfum og óskum og kröfum erlendra stóriðjufyrirtækja. Og ekki nóg með það, ríkisstjórnin gerir allt sem í hennar valdi stendur til þess að laða slík fyrirtæki til landsins. Það er gert í óþökk íslensku þjóðarinnar. Ég er alveg sannfærður um það. Og það getur vel verið að við sem viljum standa þessa náttúruvakt fyrir hönd þeirra sem vilja andæfa stefnu ríkisstjórnarinnar og koma í veg fyrir eyðileggingu á landinu séum í miklum minni hluta hér á Alþingi en við erum ekki í minni hluta þegar út í þjóðfélagið er komið. Ég er alveg sannfærður um það.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið fyrri ræðu minni við 2. umr. málsins. Ég mun biðja um orðið að nýju að lokinni ræðu minni. Ég vil ekki vera lengur í ræðustóli einfaldlega vegna þess að fleiri vilja komast að. Ég mun tala síðar í nótt ef það er ásetningur stjórnar þingsins að halda því til streitu að umræðan fari inn í morguninn sem eru aldeilis furðuleg vinnubrögð og þvert á það sem til stóð að gera. Rætt var um að hér yrði kvöldfundur en aldrei fallist á það af okkar hálfu að efnt yrði til næturfundar. En það skulu menn vita að þessari óbilgirni af hálfu stjórnar þingsins eða öllu heldur af hálfu ríkisstjórnarinnar, því það er ekki stjórn þingsins sem stendur fyrir þessu fyrst og fremst heldur knýr ríkisstjórnin á um þessi vinnubrögð. Stjórn þingsins lítur eflaust svo á að hún eigi ekki annarra kosta völ en að fara að þessum vilja. Þá segi ég og ítreka: Við munum halda því til haga hver óbilgirni birtist í þessu. Ég er sannfærður um að ef ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefði sýnt meiri tillitssemi og sveigjanleika hefði mátt ná markvissari umræðu um málið. Þó verð ég segja að ég hefði ekki viljað missa af mjög langri en mjög vandaðri og góðri ræðu sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti áðan um ýmislegt sem snertir frumvarpið. Um náttúruverndarsjónarmiðin. Hann vitnaði í hugleiðingar, óskir, kröfur og framtíðarsýn fólks sem býr í Skagafirði og víðar á landinu sem gæti orðið fórnarlömb stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Hann fór yfir efnahagslega þætti málsins í mjög greinargóðri ræðu. Ég hefði ekki viljað missa af henni. Hún var löng. Ég varð þess var að hæstv. iðnaðarráðherra var frammi í sal og fylgdist með bíómynd. Ég held að það hafi verið grínmynd í sjónvarpinu. Það getur vel verið að ríkisstjórnin líti á þetta sem hvert annað grín, tilraunir okkar til að koma í veg fyrir skemmdarverk á Íslandi. En við skulum sjá þegar upp verður staðið hvort við verðum ekki heldur liðfleiri þótt við séum nokkuð liðfá í þessum sal nú um stundir. Því má breyta.