132. löggjafarþing — 53. fundur,  27. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[00:50]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Farið hefur verið nokkuð vel yfir frumvarpið og þær breytingartillögur sem fram hafa komið, en nokkuð undarlegar uppákomur hafa verið hér í dag því það er alveg ljóst að málið hefur frá upphafi verið vanbúið, frá því í fyrravetur að hér kom fram nýtt þingmál sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram og hét Rannsóknir og nýting á jarðlægum auðlindum. Það frumvarp átti að taka við af núgildandi frumvarpi um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu en var svo meingallað að hæstv. iðnaðarráðherra náði því ekki fram á þingi vegna mikilla og margra athugasemda við það. Til að halda málinu vakandi kom hv. iðnaðarnefnd fram með breytingar á núgildandi lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það frumvarp tók hæstv. ráðherra upp svo til óbreytt að undanskildu ákvæðinu um að áður en til úthlutunar kæmi til rannsókna og nýtingar auðlinda í jörðu skyldi stofna til nefndar til að setja niður reglur um hvernig hæstv. ráðherra skyldi úthluta leyfunum.

Við vinnslu í hv. iðnaðarnefnd var ákvæðið um nefndina sem setja ætti reglur fyrir fram tekið upp aftur. Komið höfðu ábendingar um að að ákvæðinu slepptu gæti komið upp nokkurs konar stríðsástand eða mikil samkeppni á milli orkufyrirtækja að komast í rannsóknirnar og rétt væri að setja niður nefnd til að fullbúa rammann. Í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar er sú breyting lögð til að nefndin verði sett á laggirnar. Hún á ekki að skila af sér fyrr en um miðjan september á þessu ári. Ef frumvarpið verður að lögum er rúmlega hálft ár og trúlega lengri tími sem mun líða þar til reglurnar verða settar. Á þeim tíma hefur hæstv. iðnaðarráðherra fullt leyfi til að úthluta leyfum til þeirra sem knýja á um að komast til rannsókna, eins og ég skil málið í dag. Nokkuð margir hafa sýnt mikinn áhuga á að komast hér í rannsóknir, bæði á vatns- og gufuaflssvæðum, en aðilar í vatnsaflsrannsóknum hafa haldið að sér höndum eins og fram kemur í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra þar sem þeir hafa ekki haft fulla vissu fyrir því að þeir fengju virkjunarleyfi við framhald á rannsóknunum. Í frumvarpi ráðherra er kvörtunartónn um að það hafi verið frekar lítill áhugi orkufyrirtækja að fara í vatnsaflsrannsóknir m.a. vegna þessa.

Í fyrradag lýsti hæstv. iðnaðarráðherra því yfir að þrjú álver væru í farvatninu og mikilvægt væri að halda áfram undibúningi þess að koma þeim til reksturs þegar Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði yrði komið í gagnið til þess að ekki yrði mikill skellur í efnahagslífinu. Til að ná fram nýjum álverum í fullan rekstur á þeim tíma veitti ekki af að drífa sig í rannsóknir og síðan framkvæmdir og virkjanir. Ég tel því mjög ólíklegt að hæstv. ráðherra muni bara bíða róleg þar til settar verða reglur um hvernig hún eigi að úthluta leyfunum enda er þegar búið að sækja um leyfi til ákveðinna staða og ekkert annað eftir en að gefa grænt ljós á það. Þetta er undirliggjandi ástæða til lagabreytinganna.

Ég held, hæstv. forseti, að landsmönnum öllum ætti að vera ljóst að Vinstri hreyfingin — grænt framboð hefur barist af alefli gegn því að haldið verði áfram óbreyttri stóriðjustefnu. Við teljum að það sé að mjög mörgu leyti varasamt fyrir þjóðina. Í fyrsta lagi út frá umhverfissjónarmiðum þar sem umhverfisáhrif virkjana fyrir stóriðju eru mikil. Það þarf stór uppistöðulón, miðlunarlón, og þar af leiðandi eru áhrif virkjunarframkvæmda fyrir stóriðjuna í eðli sínu meiri en fyrir minni iðnað. Í öðru lagi efnahagslega þar sem allt er hér á suðupunkti. Við teljum ef við komumst í gegnum það tímabil sem stórframkvæmdirnar fyrir austan taka megum við þakka fyrir að framleiðslu- og útflutningsgreinarnar hafi þetta af þannig að þær verði í stakk búnar til að halda áfram. Þá veitir ekki af að gefa þeim andrými til að byggja sig upp aftur og ná eðlilegum rekstrargrunni.

Ef horfa á til þess að mikil skil verða þegar stórframkvæmdunum fyrir austan lýkur má benda á að hæstv. ríkisstjórn ætlar að nota hluta af söluandvirði Símans til að fara í miklar framkvæmdir í vegagerð og jarðgangagerð og ég veit ekki hvað hún ætlar ekki að gera fyrir þá fjármuni. Samkvæmt upptalningum mætti ætla að hún ætli að margnýta söluandvirðið. Allavega eru þar fjármunir til að fara í framkvæmdir til að taka af þann skell sem kemur eftir Kárahnjúkavirkjun. Ef það dugar ekki til bíða mjög margar nauðsynlegar framkvæmdir og þar fyrir utan líður ýmis opinber starfsemi á Íslandi og mun líða fyrir að þrengja þarf svo að í opinberum rekstri meðan á framkvæmdunum fyrir austan stendur og þetta ástand varir að mál er að linni. Ég tel að þá sé lag að gefa aftur heilbrigðisþjónustunni, háskólanum og öðrum stofnunum möguleika á að starfa við eðlilegar aðstæður og láta af kröfunum um mikinn sparnað og aðhald í rekstri. Að þessu tímabili loknu munu margir bíða eftir að starfsemi komist í eðlilegt horf. Ég held því að við þurfum ekki að halda áfram þessari stóriðjustefnu eða hafa það sem ástæðu til að taka af eitthvert högg í efnahagslífinu.

Þetta frumvarp tengist þeim frumvörpum sem ég nefndi áðan, hæstv. forseti, t.d. frumvarpi sem var lagt var fram í fyrra, um rannsóknir og nýtingu á jarðlægum auðlindum, sem er nýtingarfrumvarp. Það er eins og hugtökin umhverfisvernd, náttúruvernd, þ.e. að umhverfið njóti vafans, sé varla til og hafi ekki komist inn í hugsunarhátt þeirra sem semja þetta frumvarp. Hið sama má segja um frumvarp um vatnsvernd sem liggur fyrir þinginu. Það er eins. Og frumvarp til vatnalaga er sama marki brennt. Þar ráða nýtingarsjónarmið frekar en vatnsverndin. Þetta er sá grunnur sem ríkisstjórnin byggir á og því er manni ekki alveg rótt þegar maður veit hvað er undirliggjandi við breytingar á núgildandi lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Nýtingarsjónarmiðin eru allsráðandi.

Út af fyrir sig er eðlilegt að styðja innihald frumvarpsins. Það er mjög eðlilegt að hafa í framtíðinni þá umgjörð og reglur að þeir sem fara út í rannsóknir á þessu sviði fái greiddan útlagðan kostnað eða kostnað samkvæmt rannsóknaráætlun. Ef það verður svo ekkert meira, ef hætt er við frekari framkvæmdir, ef ekkert verður af framkvæmdum eða einhver annar fær virkjunarleyfi þá er það eðlilegt. En áður en það verður eðlilegt er rétt að minna á að ákveðinn grunn vantar. Við þurfum að fara í gegnum og endurskoða vatnalögin, þar sem vatnsvernd og slík réttindi eru tekin fyrir. Við verðum að taka fyrir grunnvatnið út frá sjónarmiðum almannaheilla með það meginmarkmið að drykkjarvatn og almenn notkun sé í fyrirrúmi og eignarréttarákvæði skýr. Það er út frá almannaheill sem vatnalögin þurfa að komast í nýjan búning.

Jafnframt þarf að ljúka rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar er búið að vinna fyrsta áfanga og setja í grófum dráttum upp þá virkjunarkosti sem fyrir liggja. Farið hefur verið yfir hugsanlega virkjunarkosti, bæði vatnsafls og jarðvarma og þau svæði sett upp í töflu þar sem bæði er tekið tillit til verndunarsjónarmiða, verðgildis verndunar á móti nýtingarsjónarmiðum og til orkugjafa.

Þessi fyrsti áfangi benti til að þeir virkjunarkostir sem nú eru efstir á blaði, sem hugsanlegir fyrstu virkjunarkostir, voru samkvæmt uppsetningunni síst til þess fallnir að fara í vegna m.a. verndunarsjónarmiða og umhverfisgildis þessara svæða. Þar má nefna Kárahnjúkavirkjun, sem var efst á blaði, og Þjórsárver. Kárahnjúkavirkjun er komin vel af stað og Þjórsárverin sett á ís. Það er því skiljanlegt, út frá nýtingarsjónarmiðum, að enginn áhugi sé á því að klára þetta verk, að setja upp slíkan ramma. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég vonaðist að við bærum gæfu til að klára þessa vinnu, vitandi hvaða átök væru fram undan og ná sáttum um þau svæði. Þá er ég aðallega að tala um háhitasvæði og vatnsverndarsvæði sem við sem þjóð gætum sameinast um að vernda til framtíðar.

Meðan menn sjá ekki að unnið sé með rammaáætlunina, það hefur hvergi komið fram og hún hefur ekki fengið lögformlegt gildi, meðan ekki er unnið áfram með hana hér á þinginu, vantar okkur alveg grunninn til að byggja á. Þá verður öll vinna að þeim málum, eins og hún hefur verið, handahófskennd. Í raun verður eingöngu farið í rannsóknir sem orkufyrirtækin sjálf hafa valið sér.

Það er ljóst að Landsvirkjun, sem hefur verið ráðandi fram að þessu, hefur samkvæmt eldri lögum verið nokkuð einráð um inn á hvaða svæði hún fer. Segja má að hafi einu sinni verið farið í rannsóknir þá hafi það svæði verið eyrnamerkt áfram sem virkjunarkostur. Það hefur kostað blóð, svita og tár samanber Eyjabakkana og nú Þjórsárver, að komast frá rannsóknarferlinu með því að segja að þrátt fyrir að þar sé hagkvæmur virkjunarkostur sé af öðrum ástæðum, t.d. umhverfissjónarmiðum og verndargildi, ekki einu sinni bara fyrir okkur sem þjóð heldur fyrir heiminn allan líkt og gildir um Þjórsárverin, ástæða til að láta viðkomandi svæði í friði. Landsvirkjun hefur ekki enn gefið þá yfirlýsingu að stofnunin sé hætt við Þjórsárverin eða Norðlingaölduveitu, sú virkjun er eingöngu sett á ís. Þar er þó svæði sem hefur verndargildi, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur fyrir heiminn allan.

Rammaáætlun er sá grunnur sem þarf fyrir núverandi raforkusöluumhverfi, markaðsvæðinguna á orkunni og, það sem stefnir í, markaðsvæðingu á rannsóknunum. Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur er það harðlega gagnrýnt að ráðherra skuli geta höndlað með úthlutun raforkuleyfa þar sem raforkusalan sé komin á markað og því sé eðlilegt að rannsóknirnar séu líka á markaði. Það er stutt í það og ljóst að erlend fyrirtæki munu þar með koma að slíkum rannsóknum einnig.

Ég nefndi áðan að ákveðið lagaumhverfi vantar. Að þeim lagaramma settum tel ég að við eigum að hafa skýrar reglugerðir um hvernig hæstv. iðnaðarráðherra eigi að úthluta rannsóknarleyfum. Mér finnst það umhugsunarvert, varðandi rannsóknarleyfin, þrátt fyrir það sem ég nefndi um rammaáætlunina, hvort ekki eigi að fara fram mat á umhverfisáhrifum áður en farið er inn á ósnortin svæði, t.d. Hágöngusvæðið, og inn á miðhálendið þar sem núna er ósnortin náttúra. Mér finnst eðlilegt að skoða hvort ekki eigi ekki að fara fram mat á umhverfisáhrifum við slíkar rannsóknarboranir. Þetta er sjónræn mengun og við getum ekki hvort tveggja, hæstv. forseti, markaðssett Ísland sem land með ódýra orku fyrir stóriðju og markaðssett Ísland sem hreint land, öðruvísi land og ósnortið land. Því síður getum við markaðssett landið sem fyrirmynd í sjálfbærri þróun, sem hreint land með litla loftmengun. Við gerum ekki bæði sleppt og haldið. Við getum ekki markaðssett landið sem hreint land eða, líkt og við gerum núna, markaðssett landið sem vetnisframleiðsluland ef við ætlum á sama tíma að halda áfram með stóriðjustefnu fyrir álframleiðslu. Það fer ekki saman, vatnsaflið er takmarkað.

Hæstv. forseti. Rannsóknarleyfi þurfa ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki fyrr en tilraunaboranir eða rannsóknir leiða í ljós að hagkvæmt sé að fara í virkjunarframkvæmdir að fyrirhuguð virkjun þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum. En þar er heldur ekki hægt að treysta löggjöfinni, eins og maður hefði viljað. Kárahnjúkavirkjun fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og það mat kolfelldi þá framkvæmd. Hins vegar varð pólitískur umsnúningur á niðurstöðunni. Framkvæmdin var réttlætt með aðgerðum sem áttu að draga úr áhrifum virkjunarinnar. Af því sést að hægt er að snúa öllu á hvolf ef vilji er fyrir hendi. Það er gert ef mat á umhverfisáhrifum sem slíkt stenst ekki pólitískan þrýsting ef svo má að orði komast.

Þegar búið er að rannsaka og leggja út í mikinn kostnað þá hefur það út af fyrir sig, kostnaður við rannsóknina, verið notað sem rök til að halda áfram með framkvæmdina og fara í viðkomandi virkjun, samanber Norðlingaölduveitu. Það eru sett fram sem rök í málinu að búið sé að kosta svo miklu fé til rannsókna á þessu svæði að Landsvirkjun sé að kasta miklum fjármunum á glæ ef ekki verður haldið áfram og þeir fjármunir nýttir. Þetta heyrir maður sem rök við þessar aðstæður. En það er sem sé pólitísk stefna núverandi ríkisstjórnar að halda áfram á þessari stóriðjubraut sem knýr þetta allt saman áfram. Það er kannski þess vegna sem manni er órótt vegna þessara lagabreytinga á meðan ekki er látið af þeirri stefnu.

Hæstv. forseti. Þegar verið var að leggja upp með þessa miklu virkjun og álframkvæmdir fyrir austan höfðum við, a.m.k. við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, uppi aðvörunarorð um að þetta væri allt of stórt inngrip í íslenskt efnahagskerfi. Við töldum að það yrði mjög erfitt fyrir aðrar útflutningsgreinar og undirstöðugreinar í þjóðfélaginu að komast í gegnum þetta tímabil. Ég læt það nú vera þó hæstv. ríkisstjórn hafi ekki hlustað á okkur og kallað okkur svartsýnisseggi og fortíðarhyggjuflokk og ég veit ekki hvað og hvað, það er allt í lagi. En nú stöndum við nákvæmlega frammi fyrir þessum afleiðingum. Fiskvinnslan berst í bökkum, það er verið að segja upp fólki. Það væri mjög fróðlegt að taka það saman hve margir hafa misst vinnuna í þessari undirstöðugrein, fiskvinnslunni, frá því að ruðningsáhrif þessara miklu framkvæmda fóru að segja til sín og gengi krónunnar varð svona sterkt. Mig grunar að þau störf sem hafa tapast séu fleiri en þau störf sem eiga að skapast í álverinu fyrir austan, og er ég þá að tala um þau störf sem þar skapast til framtíðar. Sú atvinna sem nú er í boði er tímabundin og þau miklu umsvif sem nú eru á miðsvæði Austurlands einnig. Það sem skiptir máli er það sem verður eftir. Nýjasta dæmið um störf sem tapast, þar sem gengi krónunnar er eingöngu kennt um, er frétt sem barst í síðustu viku þess efnis að laxeldi muni leggjast af í Mjóafirði. Ég er hrædd um að þegar þetta er allt lagt saman þá komum við ekki einu sinni út á sléttu heldur í mínus.

Vonandi verður það þannig hringinn í kringum landið, þar sem fólk í sjávarplássum hefur misst atvinnuna við vinnslu sjávarafurða, að það skapist ný störf. En það er ekki sjálfgefið því að þetta ástand verður líka til þess að byggðirnar veikjast og fólk flytur í burtu.

Hvað varðar þessi rannsóknarleyfi og framkvæmdaleyfi þá er það þannig, hæstv. forseti, að hagkvæmustu virkjunarkostirnir eru teknir fyrst og við getum sagt að það sé eðlilegt út frá nýtingarsjónarmiðum. Þegar við fórum út í stóriðju hér á landi — og það eru ekki mörg ár síðan, það er ekki einu sinni mannsaldur síðan fyrsta stóriðjan reis hérna — var farið í Þjórsársvæðið og það er nú næstum fullnýtt. Það er hægt að teygja það og toga enn frekar, það svæði, eins og m.a. með Norðlingaölduveitu, en það er svo til fullnýtt. Nú þegar Norðlingaölduveita hefur verið sett á ís eru það næstu skref að færa sig neðar í ána. Nú er verið að undirbúa það að fullnýta þetta svæði með því að setja upp fleiri virkjanir neðar í ána og þá niðri í byggð.

Hæstv. forseti. Þær framkvæmdir munu ekki ganga alveg hljóðalaust fyrir sig. Eitt var að virkja uppi á hálendinu með þeim uppistöðulónum sem þar eru. — Menn töldu svo sem í byrjun að þangað ætti enginn leið, ekki nokkur maður, og það væri bara gott að sökkva öllum þessum sandi undir vatn. En málið horfir öðruvísi við núna. Viðhorf fólks breytist og við erum smám saman að læra það að svörtu auðnirnar eru hugsanlega með því verðmætasta sem við eigum. Þó okkur finnist svartur sandur e.t.v. ekki merkilegur þá er hann sjaldgæfur og það að sökkva svörtum sandi undir uppistöðulón er ekki jafnsjálfsagt í dag og var áður. — En það verður ekki einfaldur kostur að fá áframhaldandi virkjanir í Þjórsá niður í byggð

Langisjór er ekki langt undan og það er mjög hagkvæmur virkjunarkostur líka út frá nýtingarsjónarmiði. Það er mjög auðvelt að nota Langasjó sem uppistöðulón en hann er ekki lengur úr alfaraleið. Hann er orðinn hluti af þeirri ímynd sem við erum stolt af og birtum af landinu í kynningarbæklingum. Djúpblái liturinn á Langasjó hrífur og snertir alla sem ná að upplifa vatnið. Það að nota Langasjó sem uppistöðulón, miðlunarlón, gerbreytir ásýndinni, bláminn hverfur og þar verður þá jökullitað vatn.

Við höfum fram að þessu ekki sett verðmiða á náttúruna. Það er okkur til vansa. Við megum ekki fara út í frekari virkjanir öðruvísi en að verðleggja það sem við missum og þá verðleggja þá röskun á náttúru sem viðkomandi virkjun veldur. Náttúran er verðmæti, hún felur í sér peningaleg verðmæti en líka tilfinningaleg verðmæti og tilfinningaleg verðmæti ber líka að virða. Það er ekki gott að segja hvernig á að verðleggja tilfinningaleg verðmæti en það á ekki að gera lítið úr tilfinningum fólks og því sem við erum að selja í dag, eins og litnum og umhverfi Langasjós. Við getum notað þetta umhverfi sem kynningu á Íslandi, sem tákn fyrir hreinleika. Þar er um að ræða ímynd, þar er um að ræða tilfinningar og það eru verðmæti.

Það eru líka verðmæti að horfa á fagurlitað Lagarfljótið, Löginn eins og hann er í dag, silfurlitað. Ég segi fyrir mig, og ég veit að ég tala fyrir munn margra á Héraði, að það er í mér kvíði að mega búast við litabreytingum á Lagarfljóti þegar Jökla dembist í fljótið. Allt snýst þetta um tilfinningar og tilfinningar hafa líka gildi.

Við erum komin með, hæstv. forseti, stóran hluta af útflutningsverðmætum hér á landi yfir í álframleiðslu. Eins og hér hefur komið fram eru nú framleidd á ári um 280 þúsund tonn af áli. Fleiri beiðnir liggja fyrir, m.a. beiðni sem búið er að samþykkja um frekari framkvæmdir í Straumsvík þar sem áætlað er að framleiða um 280 þúsund tonn til viðbótar. Einnig má nefna Helguvík og síðan er búið að lofa álveri á Norðurlandi. Ekki er búið að finna því álveri stað, þar eru sveitarfélögin látin keppast við að bjóða sem best til að fá álver til sín. Það eru að sönnu mismunandi virkjunarkostir á þessu svæði en loforðið liggur fyrir. Það stefnir í að um 1.300–1.400 þúsund tonn af áli verði framleidd á ári hér á landi. Það er orðið ansi hátt, ansi mikil framleiðsla og hátt hlutfall af útflutningsverðmætum þjóðarinnar.

Einnig má benda á, sem hér hefur oft verið gert, að álframleiðslan gengur í bylgjum og er ekki stöðug þó hún hafi verið það nú allra síðustu árin. Það eru miklar sveiflur í fyrirsjáanlegri framtíð. Kínverjar eru að verða heimsveldi, enn sterkara en þeir hafa verið. Þeir eru farnir að styrkjast á mörgum sviðum og gera sig gildandi, m.a. í álframleiðslu, og fyrirtæki hafa verið að færa sig til Kína. Fyrirtæki í þessari iðngrein hafa ekki alltaf mikinn fyrirvara á þegar þeim dettur í hug að færa sig um set ef þau telja framleiðsluna á einhvern hátt ekki nægilega hagkvæma, sama hvort það er vegna þess að byggingar eru orðnar gamlar, framleiðsla úrelt, rafmagnsverð ekki nægilega hagstætt eða vinnuafl ekki nægilega ódýrt. Hver svo sem ástæðan er þá er um þvílíka risa að ræða að þeir hafa ekki alltaf mikinn fyrirvara á þegar þeir loka framleiðslufyrirtækjum sínum og flytja sig um set ef það passar þeim. Þetta er iðngrein sem er kannski ekki jafntraust og óskandi væri miðað við það hve hún er orðin hátt hlutfall af útflutningsframleiðslu sem við treystum á. Vissulega vonar maður það besta fyrir hönd íslensku þjóðarinnar hvað varðar þá fjárfesta sem þegar eru komnir og munu hugsanlega koma.

Hæstv. forseti. Ég er með upptalningu á fyrirliggjandi umsóknum um rannsóknir, nýtingu og beiðni um virkjanaleyfi. Þetta er plagg sem var lagt fram í hv. iðnaðarnefnd og ég held að það hafi verið vitnað í þessa upptalningu í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. En Landsvirkjun, Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja sameiginlega, Rarik, Héraðsvötn og Þeistareykir ehf. hafa lagt inn rannsóknaleyfi. Fyrir liggja virkjanaleyfi hjá Landsvirkjun, Orkuveitunni, Hitaveitu Suðurnesja og Orkubúi Vestfjarða og óskað hefur verið eftir raforkunýtingu á Kröflusvæði, stækkun Hellisheiðarvirkjunar, virkjanaleyfi fyrir Reykjanesvirkjun og Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði. Hvað varðar rannsóknarbeiðnirnar, þá er óskað eftir því að fara inn á vatnasvið efri hluta Skaftár, vatnasvið Vestri- og Eystri-Jökulsár í Skagafirði, veitur og rannsóknaleyfi í Brennisteinsfjöllum, Gjástykki og nágrenni, Reykjanesskaginn eins og hann leggur sig, háhitasvæðið í Reykjadölum í Rangárþingi ytra, háhitasvæðið í Kerlingafjöllum, háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum, vatnasvið Hólmsár í Skaftárhreppi, vatnasvið austari og vestari Jökulsár í Skagafirði en virkjunum í Skjálfandafljóti hefur verið hafnað að sinni.

Í dag er talið að það sé minna umhverfisrask og spjöll af háhitavirkjunum en af vatnsaflsvirkjunum. Það er rétt að því leytinu til að það er hægt að taka niður þær virkjanir. En það sem hefur líka verið bent á er að við vitum ekki alveg út í hvað við erum að fara ef við lítum á málið heildstætt því okkur vanti svo mikið af grunnrannsóknum til að geta metið áhrifin af háhitavirkjununum. Það finnst mér mjög umhugsunarvert ef við heimilum núna á stórum svæðum. Við höfum lagt Hellisheiðina og Hengilssvæðið alveg undir sem háhitasvæði og ef til vill Reykjanesskagann. Við vitum kannski ekki alveg hvaða áhrif þetta hefur til lengri tíma litið eða hvort við erum að fórna einhverjum verðmætum úr lífríkinu sem við höfum ekki gefið okkur tíma til að rannsaka.

Það er með þetta eins og svo margt annað sem við Íslendingar tökum okkur fyrir hendur að við einhendum okkur í verkin. Mér finnst mjög mikilvægt að samhliða rannsóknunum á því hvort hægt sé að nýta svæðið til virkjunarframkvæmda séu jafnvel settir verulegir fjármunir í að rannsaka svæðin með tilliti til náttúruauðlinda og hvaða áhrif þetta getur hugsanlega haft á vatnasvæði og það háhitakerfi sem þarna er til staðar. Ef það er hægt. Okkur vantar allavega mikið af grunnrannsóknum inn í þessa mynd.

Ég nefndi áðan að komið hefðu mjög margar umsóknir og það neikvæðar varðandi efni frumvarpsins sem lagt var fram í fyrrahaust um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Ég ætla að vitna í umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem segir um það frumvarp, með leyfi forseta:

„Frumvarpið fjallar um jarðrænar auðlindir eða ,,hvers konar jarðefni, frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd, vatn og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu“ (3. gr.) án þess að fléttað sé inn í það ákvæðum um umhverfis- og náttúruvernd eða almannarétt. Verði frumvarpið að lögum óbreytt er hætt við að hagnaðarsjónarmið efna- og orkuvinnslufyrirtækja verði ráðandi við nýtingu náttúruauðlinda landsins á kostnað umhverfisverndar og félagslegs réttlætis sem eru hinar tvær meginstoðir sjálfbærrar þróunar.“

Þetta er undirtónnin í þeim umsögnum sem komu frá þeim stofnunum eða einstaklingum sem horfa á frumvarpið út frá öðrum sjónarmiðum en eingöngu nýtingarsjónarmiðum. Benda má á það enn og aftur að það er mjög nauðsynlegt að leggjast í rannsóknir. Það hefur verið nefnt við okkur hér, kallað fram í til okkar Vinstri grænna: Þið viljið ekkert rannsaka. Við viljum fara í rannsóknir en við viljum fara í grunnrannsóknir sem eru ekki bundnar þeim aðilum sem ætla að nýta orkuna. Við erum að tala um sjálfstæðar, óháðar rannsóknir sem lúta að grunnrannsóknum í náttúrufari, gróðurfari, jarðfræði og öðru slíku en ekki bundið þeim orkufyrirtækjum sem hafa í dag náð í okkar mannshæð að taka til sín í raun flesta þá aðila sem gætu komið að þessum rannsóknum. Þær rannsóknir sem gerðar eru eru því á forsendum framkvæmdaraðilanna en ekki þeirra óháðu. Það stórvantar fjármagn frá ríkisins hálfu til að styrkja óháðar rannsóknir á móti hinum.

Hæstv. forseti. Við höfum gott af því að líta til annarra landa og sjá það sem þar er að gerast og hefur verið að gerast og læra af reynslu þeirra og hlusta á raddir að utan hvernig okkar orðrómur er erlendis. Þegar ég segi að læra af reynslu annarra tel ég að við eigum að líta til Norðmanna sem settu sér fyrir meira en 25 árum rammann sem ég hef verið að kalla eftir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þeir gengu meira að segja svo langt að taka niður virkjanir sem þeir sáu að farið hafði verið í á sínum tíma áður en sú meðvitund hafði vaknað sem við vitum í dag, að náttúran skiptir okkur máli og eins að hlusta á raddir erlendis frá.

Hér er grein í Morgunblaðinu frá því í nóvember sl. þar sem er fréttaskýring frá skýrslu World Wide Fund for Nature sem gagnrýnir uppistöðulón almennt. Talsmaður Landsvirkjunar segir margt í skýrslunni byggt á ókunnugleika.

Við höfum tekið þessar stóru jökulár okkar eins og Þjórsá og við erum að undirbúa að taka Jökulsá í Fljótsdal og Jökla verður tekin úr farvegi sínum. Við erum langt komin með að stífla upp við Kárahnjúka og tölum um sjálfbæra orkustefnu því þetta sé sjálfbær orka sem kemur úr vatnsföllunum. Ég held að það sé ekki hægt að tala um sjálfbæra orku þegar jökulvötn eru annars vegar, þegar miðlunarlónin eru fyrir jökulár og lón sem fyllast á ákveðnum árafjölda eins og Hálslónið mun gera. Það er ekki hægt að tala um að eitthvað sé sjálfbært þegar það stendur ekki nema í ákveðinn tíma og veldur jafnmiklum umhverfisspjöllum og Hálslónið gerir. Það eyðir gróðri og veldur mikilli loftmengun m.a. frá rotnandi gróðurleifum. Sjálfbær orkunýting er því það sem við skreytum okkur með en getum langt frá því staðið undir ef við ætlum að horfa á þær framkvæmdir sem standa að baki með jökulvötnin. Það er ekki sjálfbært að leggjast í vatnaflutninga eins og þá að flytja Jöklu úr árfarvegi sínum og breyta í raun náttúrufari í heilu héraði og eins út með ströndinni sem við vitum ekki enn þá hver verða. Miklar breytingar munu verða á lífríkinu í Héraðsflóa með því að mynda setlón upp við Hálslón þar sem næringarefnin munu ekki fara í sjó fram eins og verið hefur. Sjálfbær orkunýting er það ekki en við getum talað um minni mengun en af brennslu kola, það er alveg rétt.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi farið yfir það sem mér fannst skipta máli í þessu samhengi. Frumvarpið sem hér liggur frammi er bara lítill angi af miklu stærra máli. Með því að samþykkja þessa breytingu miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag þegar við höfum ekki þá undirstöðu, ramma eða aðhald fyrir stjórnvöld munum við gefa orkufyrirtækjunum fullt tilefni til að ætla að það sé alveg óhætt að fara í þær rannsóknir sem þau fá leyfi til eða sækjast eftir. Það er búið að kortleggja það. Þau munu ekki fara frá þeim framkvæmdum eða þeim kostnaði sem við rannsóknir verða án þess að fá útlagðan kostnað bættan og hugsanlega gott betur þannig að þeim verði alveg óhætt. Það eina sem heldur aftur af þeim í dag er að þeir vita ekki hvort þeir fá virkjanaleyfi. En um leið og þeir vita að þetta er samt sem áður óhætt, það verður borgað, það verður greitt, er engu að tapa. Þá er hægt að dengja sér í þetta. Mér finnst eins og við séum að fara í villta vestrið á næstu mánuðum og lýk ég þar með orðum mínum.