132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Sala Hótel Sögu.

[15:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það var í kringum 1955, fyrir 50 árum, sem bændur landsins tóku ákvörðun um að byggja hótel í Reykjavík. Þeir lögðu fram peninga, umtalsverða peninga, frú forseti, til þeirrar fjárfestingar. Síðan eru liðin 50 ár. Nú er það að gerast, heyrði ég í fréttum, að það á að fara að selja þessa eign bænda. Ég er reyndar ekki viss um að það sé akkúrat sami hópurinn sem er að selja eignina, en ég vil spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann muni ekki standa dyggan vörð um það að eignarrétturinn sé virtur og þeir bændur sem lögðu fram fé í upphafi fái það endurgreitt með vöxtum og þeirri ávöxtun sem náðst hefur. Þeir hafa margir hverjir mjög góða þörf fyrir það af því að Lífeyrissjóður bænda hefur verið mjög lakur og þetta var á sínum tíma mjög umtalsvert fé.

Ef menn ekki telja að þetta sé mögulegt, þ.e. að finna eigendur að því fé sem voru til staðar eða eru til staðar eða erfingjar þeirra, vil ég gauka því að hæstv. landbúnaðarráðherra að hann láti Lífeyrissjóð bænda njóta þess en það yrði miklu lakari kostur að mínu mati vegna þess að þeir bændur bæði fyrr og síðar sem eru í Lífeyrissjóði bænda lögðu ekki fram peningana til Hótel Sögu. Ég vil að margir menn sem lögðu fram eignir sínar á sínum tíma njóti þeirra eigna í samræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.