132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Sala Hótel Sögu.

[15:04]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það mun vera rétt að haldið er aukabúnaðarþing til að fjalla um tilboð sem hefur borist í hóteleignir bænda sem eru glæsilegar í höfuðborginni, bæði Hótel Sögu og Hótel Ísland.

Ég minnist þess að þegar ég var að byrja þingmennsku kom eitt sinn fram fjárlagafrumvarp í upphafi þings þar sem beðið var um heimild þingsins til að selja Hótel Sögu. Það fór fram mikil könnun á því hver ætti Hótel Sögu, það var hins vegar engin spurning. Það var þá lögfræðilegt mat að það væri Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda. Þess vegna er formlegur og löglegur eigandi að þessum hótelum í dag Bændasamtök Íslands og það mun þýða að bændur samtíðarinnar eiga þessi hótel. Kannski minnir þessi deila dálítið á deilu sparisjóðanna, hverjir eigi þá, stofnfjáreigendur o.s.frv. Hv. þm. Pétur Blöndal kann þá deilu.

Ég hygg að þessi sameign íslenskra bænda verði ekki nýtt öðruvísi en í þágu landbúnaðarins og til styrktar íslenskum landbúnaði og það séu bændur samtíðarinnar sem fari og eigi þessa eign. Því er landbúnaðarráðherra rangur maður á röngum stað að svara spurningu sem ekki er hægt að setja hér fram því formlegur og löglegur eigandi þessa fyrirtækis eru Bændasamtök Íslands, íslenskir bændur og þeir auðvitað taka sjálfir ákvörðun um þennan rétt. Ég er þannig gerður, eins og ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal veit, að ég vil ekki skipta mér af eignum sem ég ekki á.