132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er að koma til atkvæðagreiðslu við 2. umr. frumvarp til laga um — frú forseti, hv. þingmaður Framsóknarflokksins hefur einhverjar áhyggjur af þingsæti sínu og getur ekki stoppað, hann truflar ræðumann.

(Forseti (SP): Forseti vill leggja áherslu á að hv. þingmaður fái hljóð á meðan hann talar.)

(HBl: Hann lætur nú ekki trufla sig, þingmaðurinn.) Frú forseti. Hér er að koma til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Frumvarpið felur í sér að fela hæstv. iðnaðarráðherra auknar lagaheimildir til að úthluta rannsóknarleyfum í vatnsföllum og háhitasvæðum til aukinna virkjanaframkvæmda hér á landi. Í þessu sambandi vil ég benda á eftirfarandi:

Fyrir þinginu liggur heildstætt frumvarp um alla þessa þætti, um rannsókn og nýtingu á auðlindum í jörðu sem þetta hefur verið tekið út úr. Eðlilegt er að það mál verði tekið fyrir í heild sinni.

Í öðru lagi liggja fyrir þinginu svokölluð vatnalög, ný lög um skipan vatnamála sem líka er hluti af þessari heild og hefði verið eðlilegt að það væri tekið fyrir.

Þá vil ég benda á, forseti, að eðlilegt væri að fyrst væru flutt lög um vatnsvernd, vatnsverndarlög sem ættu að vera á sviði hæstv. iðnaðarráðherra. Þau hafa ekki séð dagsins ljós. Þau ættu að koma hér fyrst.

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því yfir við miðja 2. umr. að henni hefðu orðið á mikil mistök. Allt sem hefði verið sagt við 1. umr., bæði við framsögu málsins og í umræðunni frekar hefði verið margt á misskilningi byggt af hennar hálfu. Það sýnir hversu þetta mál er illa reifað. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fyrir að þetta færi aftur í 1. umr. og hæstv. ráðherra fengi að mæla fyrir málinu og eðlilega á réttan hátt þá án eigin misskilnings.

Frumvarpið felur í sér m.a. að rýmka heimildir til að veita rannsókna- og í framhaldi virkjunarleyfi t.d. í Skagafjarðarvötnum, í Skjálfandafljóti o.s.frv.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum sitja hjá við þær breytingartillögur sem hér eru fluttar en leggjast gegn þessu frumvarpi því að við teljum í fyrsta lagi að þetta sé ótímabært, þetta sé vanreifað og málefnum sem að því lýtur, þ.e. að stuðla að auknum virkjunarframkvæmdum eins og nú stendur, megi vel fresta. Því leggjum við til að þetta mál í heild sinni verði fellt.