132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég sat hjá við breytingartillöguna vegna þess að hún er þó skömminni til skárri en greinin eins og hún var í frumvarpi hæstv. ráðherra. Hins vegar get ég ekki greitt 5. gr. sjálfri atkvæði, þ.e. 5. gr. laganna svona breyttri, vegna þess að í henni er fólginn þessi tappi sem er tekinn úr að mati okkar sem viljum fara hægt í sakirnar í þessum málum. Grundvöllur frumvarpsins byggir á því að heimila orkufyrirtækjunum kapphlaup í rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana. Þetta kapphlaup sem nú stendur er vegna brjálaðrar stóriðjustefnu þessarar ríkisstjórnar. Þessi breyting er fullkomlega ótímabær og gerir það að verkum að orkufyrirtækin fara nú að etja kappi sem aldrei fyrr um viðkvæma kosti okkar í vatnsafli og það er mál að linni en ekki að kynt sé undir kapphlaupi því sem hæstv. iðnaðarráðherra er með þessari breytingu að setja af stað. Ég segi nei.