132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er svolítið undarleg umræða. Það er verið að vísa máli áfram milli 2. og 3. umr., máli sem varð algjört samkomulag um í iðnaðarnefnd, máli sem varð samkomulag um í iðnaðarnefndinni líka í vor sem leið — og við stóðum að því. Mér þykir undarlegt að fá slíka snoppunga frá hv. þingmönnum Vinstri grænna að við eigum ekki og megum ekki styðja mál sem við vorum flutningsmenn að út úr nefnd í vor sem leið. Þó að þessi misskilningur sem hæstv. iðnaðarráðherra ber ábyrgð á hafi komið upp tókst samt að finna leið til að gera málið algerlega skýrt, svo skýrt að ekki væri hægt að misskilja um hvað þetta snerist, þ.e. rannsóknarleyfi og að ekki væri hægt að veita nýtingarleyfi með þeim. Ég frábið mér bara að við megum ekki styðja mál, að eitthvað sé bogið eða brogað við það að við styðjum mál sem við höfum flutt sjálf.