132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:35]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um stóriðjuvæðingu landsins síðustu daga eru einkennilegar og misvísandi. Í Morgunblaðinu segir hún á þriðjudegi að aðeins eitt álverkefni komi til greina. Í Fréttablaðinu tveimur dögum síðar eru verkefnin orðin tvö, ef ekki þrjú. Í Morgunblaðinu segir hún að loftmengun setji uppbyggingunni takmörk, í Fréttablaðinu er það ekki lengur, heldur er það aðeins orkan sem takmarkar uppbyggingarmöguleika okkar. Þó veit ráðherrann að áform sem þessi munu leiða til tveggja milljóna tonna útblásturs árið 2012 sem er langt umfram þær viðmiðanir sem við höfum í mengunarmálum.

Við í Samfylkingunni teljum að hér sé allt of geyst farið í stóriðjuáformum, það sé skýlaust og afdráttarlaust og vafalaust að við verðum að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og standa að virkjunum í sátt við náttúru landsins og fólkið í landinu. Við hljótum þess vegna að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvort er það stefna ríkisstjórnarinnar að reisa eitt, tvö eða þrjú ný álver á Íslandi á næstu sex árum umfram það sem þegar hefur verið ákveðið? Eitt, tvö eða þrjú?

Í þessu sambandi er ekki nægilegt að horfa til koltvísýringsmengunarinnar einnar þótt hún sé vissulega alvarleg, það verður líka að skoða þær heimildir sem við höfum í losun flúorkolefnis og ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra hvort þær heimildir okkar séu fullnýttar og hvort þær geti hamlað þeim áformum sem hæstv. ráðherrann hefur sinnt.

En við getum ekki aðeins horft til umhverfismála. Við hljótum líka að spyrja um stöðu efnahags- og atvinnumála þegar svo stórar yfirlýsingar eru gefnar út af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra. Flestar ákvarðanir okkar um uppbyggingu stóriðju hafa verið teknar til að styrkja atvinnuástand á svæðum sem þurftu eflingar við. Nú eru allt aðrar aðstæður uppi í íslensku samfélagi. Hér er bullandi þensla, mikill innflutningur á vinnuafli, spenna á launamarkaðnum, kröfur um hærri laun og verðbólga hærri en í samkeppnislöndunum. Stýrivextir hækka frá einum mánuði til annars og eru hér orðnir hærri en í samkeppnislöndunum, öllum hygg ég. Þá hljótum við að spyrja hvort það sé innlegg ríkisstjórnarinnar í efnahagsstjórnunina við þær aðstæður að boða hér tvö eða jafnvel þrjú ný stórverkefni í stóriðju á næstu sex árum. Telja ekki a.m.k. samstarfsmenn iðnaðarráðherra í ríkisstjórninni, þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, að eitt álver sé meira en nóg inn í það þensluástand í efnahagslífinu sem nú er og verður næstu sex árin? Eða hefur ráðherrann stuðning í það að ætla að boða og byggja tvö ný álver á næstu sex árum? Eru það skilaboð ríkisstjórnarinnar til markaðarins, inn í peningastjórnunina og inn í þær kröfur sem nú eru uppi á vinnumarkaði? Eru það skilaboðin um aðhald og stöðugleika sem þurfa á þessum tímum að koma frá stjórnvöldum?

Ruðningsáhrifin af stóriðjuframkvæmdunum undanfarið, eða þenslunni sem af þeim leiddi öllu heldur, hafa ekki farið fram hjá neinum. Við höfum fylgst með fyrirtækjum flytja störf og starfsemi til annarra landa. Hluti af því er eðlileg þróun. Sumt af því er ekki annað en jákvætt þar sem við fáum betri störf fyrir verri. En það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni þegar við heyrum frá fyrirtækjum eins og Marel eða tölvuleikjafyrirtækinu CCP, framúrskarandi tæknifyrirtækjum með hálaunastörf sem unga fólkið í landinu hefur áhuga á og erlend ríki ásælast og bjóða í, ef það eru skilaboð hæstv. ríkisstjórnar að hér eigi þungamiðjan í allri atvinnuuppbyggingu að vera í stóriðjunni næsta áratuginn.

Loks hljótum við að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega satt (Forseti hringir.) sem hún hefur lýst yfir að ekki hafi verið haft samráð við hana um þær einkaviðræður sem nú eru hafnar við Alcan í Straumsvík.