132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:52]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Það er erfitt að átta sig á því á hvaða leið ríkisstjórnin í heild er í þessu stóra máli nema að því leyti að alþjóðlegar skuldbindingar okkar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru ekki teknar alvarlega að því er virðist ef við þær á að standa en það virðist ekki henta hæstv. ríkisstjórn.

Ef marka má „skuespil“ síðustu daga virðist sem starfsbræður iðnaðarráðherra hafi svikið hana um álverið sitt fyrir norðan, og í þeirri trú að sókn sé besta vörnin lofar Valgerður Sverrisdóttur nú álverum hraðar en hún man sjálf. Hið umdeilda íslenska sérákvæði við Kyoto-bókunina er að verða til þess að menn eru að missa stjórn á stóriðjuframkvæmdum næsta áratuginn. Að auki haga stjórnvöld sér eins og þau hafi frítt spil, engar aðgerðir þurfi yfirleitt til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, hvorki frá skipa- og bifreiðaflota landsins né frá stóriðjunni.

Forseti. Hvernig væri að standa að nákvæmu og yfirveguðu mati á þeim kostum sem til greina koma í stöðunni, á staðarvali, á orkuöflun, á tímasetningu? Hvernig væri að huga að áhrifum á aðrar atvinnugreinar, svo sem hátækniiðnað og ferðaþjónustu? Hvernig væri að huga að atvinnuástandi, að byggðum landsins og að þenslunni, hvernig hún hefur ólík áhrif víða um landið? Hvernig væri að hanna áætlun, frú forseti? Hún gæti heitið „rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma“. Hvernig væri að vinna eftir henni, frú forseti?

Það er ekki gert af því að það er engin stefna, enginn ramminn, (Iðnrh.: Hvernig …?) en ríkisstjórnin er á harðahlaupum við að uppfylla óskir orkukaupenda. Það er eitthvað mjög öfugsnúið hér, frú forseti.