132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég stóð í þeirri trú að fyrirtækin væru að hrökklast úr landi hvert á fætur öðru, hátæknifyrirtæki og önnur sem eiga hér rætur í útflutningsgreinum.

Ég hlustaði á hæstv. umhverfisráðherra í útvarpsviðtali í morgun. Hæstv. ráðherra, Sigríður A. Þórðardóttir, vék þar að álumræðunni sem hún nefndi svo og sagði að þar væru menn komnir langt fram úr veruleikanum. (Umhvrh.: Ég sagði að umræðan væri komin langt fram úr veruleikanum.) Að umræðan væri komin langt fram úr veruleikanum. Ég var ekki alveg viss um við hvern hæstv. ráðherra ætti, hver það væri sem væri kominn langt fram úr veruleikanum, hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir. Niðurstaða mín varð sú að það væri einmitt sá ráðherra sem hér situr, hæstv. iðnaðarráðherra, sem að mati umhverfisráðherrans væri komin langt fram úr veruleikanum.

Það er ljóst að ef draumar hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur verða að veruleika fer álframleiðsla, sem nú stendur í tæpum 300 þús. tonnum, í 1,5 milljónir tonna. Ef það gerist verðum við búin að sprengja allar þær skuldbindingar sem við höfum gefið um losun gróðurhúsaefna.

Í morgun sagði hæstv. umhverfisráðherra að menn skyldu bíða eftir því hver framvindan yrði varðandi Straumsvík. Hæstv. iðnaðarráðherrann er ekki á þeim buxum að bíða, heldur fer um landið með áróður og hvatningu um að virkja og að reisa álver. Hér er síðasta dæmið, hér með fallegu og virðulegu skjaldarmerki Íslands, álver á Norðurlandi. Nú er búið að setja allar kraftmaskínur þar í gang til að fá menn til að berjast fyrir álverum í (Forseti hringir.) þeim hluta landsins. Á þeim slóðum eru menn ekkert á því að bíða (Forseti hringir.) og það er hæstv. iðnaðarráðherra ekki. Hún er aldeilis ekki á þeim buxum að það eigi að bíða.