132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[16:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það hefði verið mjög fróðlegt og gagnlegt að fá fram skýr viðhorf hæstv. umhverfisráðherra til þessa máls. Hve mörgum álverum er hægt að bæta við þannig að það rúmist innan Kyoto-samningsins? En sá ágæti ráðherra, hæstv. umhverfisráðherra, flutti mjög metnaðarfulla ræðu hvað það varðar að Ísland ætli að standa við skuldbindingar sínar. En svo heyrir maður mjög undarlega ræðu frá hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hún svarar ekki einu eða neinu hvað varðar misvísandi ummæli sín. Hvort er það eitt, tvö, þrjú eða jafnvel fjögur álver sem hún ætlar að bæta við. Rúmast þau innan þessa samnings? Hvers vegna er ekki hægt að svara því? Ég er hér með bækling sem hæstv. ráðherra hefur látið dreifa í hvert hús á Norðurlandi þar sem verið er að boða fjögur möguleg álver á Norðurlandi. Fjögur. Þetta er náttúrlega með ólíkindum. Og eitt þeirra er á Brimnesi. Það á að vera álver í Skagafirðinum. Á þeim stað sagði Framsóknarflokkurinn fyrir átta árum að vera ætti olíuhreinsunarstöð. Ég spyr: Er einhver meining á bak við þetta? Er þetta eitthvert kosningatrix hjá Framsóknarflokknum?

Ef efla á atvinnuvegi á landsbyggðinni á, að mínu mati, að líta til annarra hluta, frú forseti. Það á t.d. að skoða rafmagnsverðið. Fyrirtæki eru að hrekjast úr landi, til Færeyja, vegna þess að orkuverð er svo hátt hér á Íslandi. Það hefur komið fram úr Mjóafirðinum. Þetta er á valdsviði hæstv. ráðherra. Einnig ætti hún að líta til skipasmíðaiðnaðarins sem hún er að hrekja úr landi. Það er mjög alvarlegt að einblína eingöngu á álver og svo virðist það vera sýndarveruleikinn einn. Ég vil benda á að það hefur þegar verið skrifað undir bindandi samkomulag, m.a. fulltrúi ráðherra, um að fara í stækkun álvers hér fyrir sunnan. Er þetta þá bara blekking hæstv. ráðherra? Á ekkert að gera í atvinnumálum í (Forseti hringir.) Þingeyjarsýslu? Ég vil að hæstv. ráðherra svari því hér.