132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins er taki við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins og yfirtaki eignir þess og skuldir, réttindi og skuldbindingar. Frumvarp þess efnis var lagt fram á 127. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Rafmagnsveitur ríkisins voru stofnaðar með raforkulögum árið 1946, en fyrirtækið hóf rekstur þegar lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1947. Hlutverk fyrirtækisins hefur frá upphafi verið að annast vinnslu á raforku, veita raforkunni um landið og selja hana í heildsölu til notenda á afmörkuðum orkuveitusvæðum á landsbyggðinni. Rafmagnsveiturnar gegndu lykilhlutverki í rafvæðingu landsins og hafa gegnum árin byggt upp umfangsmikið flutnings- og dreifikerfi raforku. Þessu til viðbótar byggði fyrirtækið níu litlar vatnsaflsvirkjanir og rekur um 30 dísilaflstöðvar. Á árunum 1972–1984 byggðu Rafmagnsveiturnar 132 kílóvatta byggðalínur, samtals 1.057 km að lengd, ásamt tólf aðveitustöðvum. Með byggðalínukerfinu voru öll raforkuveitusvæði landsins tengd saman í eitt landskerfi sem varð til þess að auka öryggi raforkunotenda landsbyggðarinnar verulega.

Á undanförnum áratugum hafa orðið miklar breytingar á hlutverki Rafmagnsveitna ríkisins. Segja má að fyrstu breytingarnar hafi átt sér stað með tilkomu Landsvirkjunar árið 1965. Í kjölfar þessa voru síðan raforkulögin frá 1946 endurskoðuð með samþykkt orkulaga árið 1967. Með þeim voru gerðar ýmsar meiri háttar breytingar á stórum þáttum í skipulagi raforkumála, sérstaklega varðandi rannsóknir og virkjanaframkvæmdir. Með samningi ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, um virkjanamál, yfirtöku byggðalínu og fleira, sem gerður var árið 1982, yfirtók Landsvirkjun byggðalínukerfið til eignar og reksturs uns Landsnet hf. tók yfir þennan rekstur í ársbyrjun 2005. Þá yfirtók Landsvirkjun ýmis virkjunaráform sem Rafmagnsveiturnar höfðu undirbúið. Árið 1978 tók Orkubú Vestfjarða við starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum og árið 1985 tók Hitaveita Suðurnesja við rekstri Rafmagnsveitnanna á Reykjanesi. Á undanförnum árum hafa Rafmagnsveiturnar keypt nokkrar orkuveitur sem áður voru í eigu viðkomandi sveitarfélaga. Í dag búa um 49 þús. manns á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins, sem njóta þjónustu fyrirtækisins. Starfsmenn fyrirtækisins eru á þriðja hundrað. Fjárhagsstaða Rafmagnsveitna ríkisins er traust og nam eigið fé fyrirtækisins í árslok 2004 tæpum 10,8 milljörðum kr. Styrking og endurnýjun sveitakerfa hefur hin síðari ár að mestu verið fjármögnuð af sölutekjum fyrirtækisins og hefur það lengst af valdið hallarekstri og hærri gjaldskrá en hjá öðrum rafveitum. Fjármögnun þessa félagslega þáttar í starfsemi Rafmagnsveitnanna hefur nú verið leyfð með lögum nr. 98/2004.

Breytingar á rekstrarformi raforkufyrirtækja hafa verið mjög til umræðu undanfarin ár. Á 122. löggjafarþingi lagði þáverandi iðnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipan raforkumála sem hlaut eina umræðu og var afgreidd úr hv. iðnaðarnefnd en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Í tillögunni var m.a. lagt til að rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið ætti eignarhlut í yrði yfirfarið. Á undanförnum árum hefur Hitaveita Suðurnesja, Orkubú Vestfjarða og Norðurorku verið breytt í hlutafélög. Þá var Orkuveitu Húsavíkur breytt í einkahlutafélag og Orkuveitu Reykjavíkur í sameignarfyrirtæki.

Um allnokkurt skeið hafa verið uppi hugmyndir um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag einkum í tengslum við þær breytingar sem orðið hafa á skipulagi raforkumála en sem kunnugt er stuðla raforkulögin, sem samþykkt voru á Alþingi 2003, mjög að aukinni samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Röksemdirnar fyrir því að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins eru margvíslegar. Meginröksemdin er sú að hlutafélagaformið er mun hentugra rekstrarform þegar kemur að samkeppnisrekstri en það rekstrarform sem nú er notast við jafnvel þó að ríkissjóður yrði einn eigandi að hlutafélaginu. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagaformið er mjög fast mótað og þrautreynt. Í löggjöf sem um það hefur verið sett er verkaskipting milli hluthafa og aðalfunda stjórnar og framkvæmdastjórnar vel skilgreind. Þá eru reglur um endurskoðun og ársreikningagerð, bæði rekstrarreikning og efnahagsreikning, mjög fastmótaðar og skýrar. Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins takmarkast við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst við breytinguna.

Með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagaformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar um nýtingu í rekstri verða auðveldari í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri. Öll önnur orkufyrirtæki hér á landi hafa valið þann kost að breyta rekstrarformi sínu yfir í hlutafélagaform að undanskilinni Orkuveitu Reykjavíkur sem kaus fremur sameignarfélagsformið sem er sama rekstrarform og Landsvirkjun hefur notað. Um alla Evrópu hefur svipuð þróun átt sér stað. Í þessu sambandi vil ég taka skýrt fram að ekki stendur til af hálfu ríkisstjórnarinnar að selja Rafmagnsveitur ríkisins. Markmið frumvarpsins er eingöngu, sem fyrr segir, að breyta rekstrarformi fyrirtækisins svo það standi betur að vígi gagnvart þeirri auknu samkeppni á raforkumarkaði sem fram undan er. Í 3. gr. frumvarpsins er skýrt kveðið á um að öll hlutabréf í fyrirtækinu skuli vera í eigu ríkissjóðs.

Þegar frumvarpið var samið var gert ráð fyrir að það yrði samþykkt fyrir áramót svo breytingarnar gætu öðlast gildi um leið og opnun raforkumarkaðar. Svo varð ekki og því þarf að breyta tímasetningum í tveimur greinum frumvarpsins. Tel ég rétt að hv. iðnaðarnefnd annist þetta og horft verði til frumvarps forsætisráðherra um stofnun matvælarannsókna hvað þetta varðar.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rekja einhverjar greinar frumvarpsins frekar en að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.