132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú ekki svo, því miður, að þessar hækkanir séu eingöngu í hugarheimi mínum. Alls ekki. Ég er í raun steinhissa á því að þær hafi farið fram hjá hæstv. ráðherra. Við vorum stödd saman á fundi norður í Skagafirði þar sem upp stóð bóndi úr Víðidalnum og kvartaði yfir þessum hækkunum. Hann sá einmitt fyrir sér að rafmagnsreikningurinn yrði allt að því tvöfalt hærri. Þetta er ekki bara í mínum hugarheimi. Í kjördæmi hæstv. ráðherra er fólk sem hitar hús sín með rafmagni. Á Raufarhöfn er talað um 50% hækkun. Það er ekki eingöngu í mínum hugarheimi, heldur hefði hæstv. ráðherra, ef hún hefði fylgst með, getað séð á forsíðu Fréttablaðsins að iðnfyrirtæki í landinu kvarta yfir 50% hærri rafmagnsreikningi. Ég hefði talið að það væri verkefni fyrir hæstv. ráðherra að komast til botns í því hvers vegna þessar hækkanir eru svona gríðarlega miklar. Því þær eru allt aðrar en þau loforð sem ráðherra gaf hér á Alþingi. Þá talaði ráðherra kannski um einhverjar hundrað krónu hækkanir. Þær hafa nú aldeilis orðið meira en það. Þúsund krónu hækkanir og jafnvel tugþúsunda króna hækkanir. Það má vera að þetta skipti engu máli fyrir hæstv. ráðherra. En þetta skiptir máli fyrir fólkið sem fær þessa reikninga. Það er komið á daginn að forstjóri Landsvirkjunar reyndi að útskýra þetta fyrir fólki — að þetta væru öfug samlegðaráhrif af breyttri skipan. Ég hefði talið að hæstv. ráðherra hefði átt að komast til botns í þessum hækkunum áður en hún færi að breyta einhverju fleiru.