132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Það hefur reyndar komið til umræðu í þinginu áður að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Náði ekki fram að ganga þá en hæstv. ráðherra kom inn með þetta frumvarp og því var dreift á Alþingi, ef ég man rétt, 2. desember sl. Í frumvarpinu stendur einvers staðar að það eigi að stofna hlutafélagið fyrir 15. desember 2005 og að hlutafélagið eigi að hefja starfsemi um áramótin 2005 til 2006. Þannig að hæstv. ráðherra hefur ætlað sér að láta þetta mál ganga býsna hratt í gegnum Alþingi og nefndastarfið hér. Það væri nú ekki úr vegi að hæstv. ráðherra segði okkur frá því hér í síðari ræðum sínum hvers vegna svo mikið lá á og líka hvers vegna ekki varð af þessari flýtimeðferð hér á hv. Alþingi með þetta mál.

Þá ætla ég að snúa mér að málinu sjálfu og afstöðu minni og Samfylkingarinnar til þess. Það að setja stjórn þessa fyrirtækis undir hlutafélagaform er eitthvað sem Samfylkingin telur alveg koma til greina og þetta form getur ágætlega átt við þann rekstur sem þarna er undir. Við munum ekki setja okkur gegn því að málið nái þess vegna fram að ganga. En það er auðvitað ýmsum skilyrðum háð frá okkar hendi og sérstaklega teljum við upp á það vanta að hlutafélög í eigu ríkisins séu með þeim hætti sem þau þyrftu að vera. Það sem kannski mest vantar þar upp á er upplýsingagjöf og að þeir sem bera pólitíska ábyrgð á hlutafélögum í raun og veru, sem eru þá t.d. alþingismenn og sveitarstjórnarmenn þar sem það á við, hafi fullkomlega aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa að hafa aðgang að til að geta borið í rauninni ábyrgð á slíkum rekstri.

Þess vegna vantar sárlega löggjöf um hlutafélög í opinberri eigu. Komið hafa fram tvö frumvörp um það efni eða eru þegar boðuð. Því má búast við að um þetta komi skýr lagafyrirmæli. Ég ætla satt að segja að vona að samkomulag náist um að gera reglur það skýrar og glöggar að ekkert vanti upp á að þeir sem bera í raun ábyrgð á rekstri slíkra fyrirtækja, sem eru þá til þess kosnir einstaklingar til sveitarstjórna eða Alþingis, hafi þennan aðgang að upplýsingum. Þetta vildi ég nú segja fyrst, hæstv. forseti.

Síðan er æðimargt sem hæstv. ráðherra þyrfti kannski að upplýsa hv. Alþingi um í tengslum við þá umræðu sem hér fer fram. Ekki er langt síðan hæstv. ráðherra lýsti því yfir að að sameina ætti þetta fyrirtæki, þ.e. Rafmagnsveitur ríkisins við Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun og gera það með hraði. Það átti líka að gerast fyrir síðustu áramót. En babb kom í bátinn hvað þetta varðar og nú væri ekki úr vegi að hæstv. ráðherra upplýsti hv. alþingismenn í sölum Alþingis um hvernig þau mál standa núna og hvort einhver breyting hefur orðið á stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu.

Þannig var að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin beitti sér fyrir viðræðum við eignaraðila Landsvirkjunar sem óhjákvæmilega er og var hluti af þeirri hugmynd að þessi fyrirtæki yrðu öll sameinuð. Hins vegar verður að setja svolítinn fyrirvara við það, og ég hef gert það áður, hvort það geti verið afskaplega sniðug hugmynd að sameina öll þessi orkufyrirtæki í eigu ríkisins í eitt en ætla jafnframt að tryggja samkeppni á raforkumarkaðnum. Það verður að segjast eins og er að mikið ójafnvægi verður á þeim markaði ef öll þau fyrirtæki verða komin í eina körfu og orðin að einu fyrirtæki. Ég held að full ástæða sé til að menn taki þá umræðu, hvort það sé skynsamlegt. En líka er vert að frétta af því hvort hæstv. ríkisstjórn hefur breytt um stefnu hvað þetta varðar, hvort að þessu sé stefnt.

Ég vil hins vegar segja að ég harma það mjög að menn skyldu ekki ná samkomulagi um að ríkið keypti hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun. Ég held að þeir sem bera ábyrgð á ríkisstjórn landsins eigi eftir að sjá eftir því að hafa ekki lagt sig betur fram um það einfaldlega vegna þess að sá eignarhlutur getur kannski farið að vaxa meira í verði en mönnum finnist þægilegt að standa frammi fyrir þegar verði af þeim kaupum.

Ég hef áður sagt það við umræður um Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun að fleiri eigi hagsmuna að gæta en eigendur 50% hlutar í Landsvirkjun, sem eru sveitarfélögin tvö sem ég nefndi áðan, því að önnur sveitarfélög eða fólkið í þeim hefur byggt upp þær eignir sem standa á bak við það fyrirtæki sem hér er verið að tala um að einkavæða. Viðskiptin við það fólk og þau fyrirtæki sem eru á svæði Rariks hafa byggt upp það afl sem þar er til. Það hefur hins vegar verið með svolítið öðrum hætti hvað varðar Landsvirkjun og eignarhlutinn þar. Þar hafa sveitarfélögin sem þar áttu hlut að máli eignast gríðarlega verðmætan eignarhlut í Landsvirkjun. Ég ætla ekki að fara yfir það með hvaða hætti það hefur gerst en augljóst er af þeim tölum sem þar hafa fram komið að sá eignarhlutur hefur vaxið gríðarlega mikið fram yfir það sem menn gætu látið sér detta í hug að gæti orðið úr þeim eigin framlögum sem þar hafa orðið til.

Ég hef því sagt þá skoðun og ég vil endurtaka hana að ég tel að skoða eigi hvort ríkið eigi ekki að afhenda sveitarfélögunum sem eiga hlut eða fólkinu í þeim, sem hafa í rauninni byggt upp Rarik á undanförnum árum, eignarhlut í því fyrirtæki sem hér er verið að tala um að gera að hlutafélagi, til að rétta af þá vitleysu sem var gerð frá hendi hins opinbera með því að mynda þetta félag um Landsvirkjun þar sem einungis tvö sveitarfélög af öllum sveitarfélögum landsins áttu hlut að og hafa eignast með því gríðarleg auðæfi en önnur sveitarfélög í landinu hafa ekki á sama hátt eignast hlut í raforkufyrirtækjunum í landinu.

Hægt er að velta þessu máli upp á ýmsa vegu en full ástæða er til að vekja athygli á þessu. Mér finnst dálítið undarlegt að forustumenn sveitarfélaga í landinu skuli ekki hafa gefið þessu máli meiri gaum en gert hefur verið. Þarna eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi og það væri mjög eðlilegt að mínu viti að menn tækju á þessu máli núna, ekki með því að ganga með neinum hætti á eignarrétt Akureyringa eða Reykvíkinga í Landsvirkjun, heldur með því að afhenda fólki í öðrum byggðarlögum í landinu, sem hefur byggt upp þær eignir sem við erum núna að fjalla um, hlut í þeim eignum. Það eru a.m.k. jafngóð rök fyrir því eins og stórum hlut af því eignarhaldi sem er í Landsvirkjun núna á vegum Reykjavíkur og Akureyrar.

Þegar menn skoða t.d. hvernig þær eignir hafa orðið til sjá menn að eigin framlög hafa ekki verið það mikil að hægt sé að segja að þau séu fullkomlega ástæðan fyrir þessari eignamyndun. Séraðgangur að orkulindum landsmanna, bestu orkulindunum, einkaaðgangur Landsvirkjunar að bestu orkulindum landsins eru hluti af þessu öllu saman og mjög óeðlilegt að einungis tvö sveitarfélög í landinu hafi fengið að njóta þess með þeim hætti sem hér er um að ræða.

Hæstv. forseti. Í 3. gr. segir, svo ég komi aftur að frumvarpinu sjálfu, að öll hlutabréf í hlutafélaginu skuli vera í eign ríkissjóðs. Ég ætla ekki að fara í umræðu um sölu á fyrirtækinu. Hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að selja fyrirtækið og ekki heldur neinn hluta úr því. Þess vegna er engin ástæða til að taka upp umræðu um einkavæðingu og sölu. En það er seinni hluti greinarinnar sem ég vildi gera að umræðuefni. Þar stendur:

„Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.“

Það hefur verið þannig fram að þessu að hæstv. iðnaðarráðherra hefur farið með hann, en það verður líka að segjast eins og er að ekki er eðlilegt að hæstv. iðnaðarráðherra geri það. Til að sanna að fleiri en ég séu á þeirri skoðun ætla ég að vitna í umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, frá Orkuveitu Reykjavíkur, til að benda á umsögn sem ég held að fleiri hafi reyndar tekið undir í umfjöllun um það mál í iðnaðarnefnd sem um það fjallaði.

Hér stendur á einum stað í umsögninni frá Orkuveitunni, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpinu er þess getið að við gildistöku raforkulaga, nr. 65/2003, hafi samkeppni í vinnslu raforku verið innleidd á Íslandi. Rétt er að vekja athygli á að samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu veitir iðnaðarráðherra rannsóknarleyfi og leyfi til nýtingar. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir breytingum á þessu fyrirkomulagi. Iðnaðarráðherra er einnig yfirmaður Rafmagnsveitna ríkisins samkvæmt lögum nr. 58/1967 og fer með hlut ríkisins í Landsvirkjun og skipar þar formann stjórnar samkvæmt lögum nr. 42/1983.

Orkuveita Reykjavíkur er þeirrar skoðunar að það samræmist engan veginn samkeppnissjónarmiðum raforkulaga eða almennum sjónarmiðum um jafnræði og gagnsæi að yfirmaður tveggja raforkufyrirtækja á samkeppnismarkaði veiti einnig leyfi til rannsóknar og nýtingar.“ — Þetta með nýtingar er nú óhætt að klippa aftan af nema bara hvað varðar hitaveitur en það á við áfram um rannsóknirnar. — „Gera þarf breytingar á lögum og færa leyfisveitingar til annars aðila sem er óháður iðnaðarráðherra, ráðuneyti hans og undirstofnunum.“

Nú vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann sem slíkur sé ekki sammála því að þetta sé óþægileg aðstaða fyrir hæstv. ráðherra að vera að gera upp á milli aðila sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur yfir að ráða og hvort ekki sé líka óþægilegt af þeim ástæðum að hæstv. ráðherra er einnig viðskiptaráðherra og þar með yfirmaður samkeppnismála að því leyti til, að gagnrýni af þessu tagi sé uppi.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji í rauninni einhverja sérstaka þörf á og hver rökin séu þá fyrir því að eignarhaldið þurfi að vera hjá hæstv. iðnaðarráðherra yfir þessu fyrirtæki. Það væri ágætt fyrir umræðuna að menn fengju að heyra rökin fyrir því.

Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu fleiri að þessu sinni um þetta mál. Ég fæ náttúrlega að fjalla um málið áfram og tel fulla ástæðu til þess að menn vandi sig við það. Mér finnst það mjög við hæfi og væri virkilega ástæða til að hæstv. ráðherra upplýsti hv. þingmenn á Alþingi um stöðu þessara mála því að engin smámál eru á ferðinni, heldur er um að ræða gríðarlega öflug fyrirtæki sem hið opinbera á og rekur og framtíð þeirra sem nú er til umræðu. Það er einhvers konar þoka, a.m.k. sýnist mér hún vera yfir þeim framtíðaráformum sem hæstv. ráðherra hefur talað fyrir eins og er. Þess vegna væri ástæða til að hæstv. ráðherra héldi ræðu sem yrði til þess að eitthvað létti til í málinu.