132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sínu til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Ég kom inn á það í andsvari mínu við hæstv. ráðherra í upphafi umræðunnar að þessi einkavæðingarárátta núverandi ríkisstjórnar væri með eindæmum og sérstaklega hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra Framsóknarflokksins, og að sá ráðherra skuli vera sá sem beitt er fyrir einkavæðingarvagninn í sambandi við rafmagnsmálin.

Skilningur minn og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs á rafmagnsmálum almennt er sá að það að veita rafmagn sé hluti af hinni almennu grunnþjónustu sem veitt er til einstaklinga til heimilishalds og atvinnureksturs og fyrirtækja í atvinnurekstri. Þetta eru grunnþættir í lífi og starfsemi einstaklinga og fyrirtækja. Á grunni þessarar þjónustu, þessara þátta, byggir síðan atvinnulífið rekstur sinn á. Við leggjum áherslu á að rafmagnið sé einmitt veitt, standi til boða um land allt á hliðstæðum kjörum, bæði hvað varðar gæði, afhendingaröryggi og vernd. Við lítum svo á að orkan sem slík sé ekki tilefni til atvinnureksturs sem eigi í sjálfu sér að skila arði til eigandans. Arðurinn, hagnaðurinn af orkunni á að koma í hagkvæmu heimilishaldi og í hagkvæmum og arðsömum atvinnurekstri sem hefur aðgang að orkunni á jafnréttisgrunni. Við höfum flutt um það tillögur í tengslum við markaðs- og einkavæðingaráráttu og -feril þessarar ríkisstjórnar hvað varðar rafmagnið og lagt áherslu á hið gagnstæða, að rafmagnið sé almannaþjónusta, raforkuauðlindirnar séu almenningseign sem ríkið færi með eftir þar til gerðum reglum og forgangsröðun um hvernig þær séu nýttar.

Hér skilur á milli í einkavæðingar- og markaðsvæðingaráráttu ríkisstjórnarinnar og nú Framsóknarflokksins sem vill hlutafélagavæða allt, hlutafélagavæða alla almannaþjónustu og einkavæða og geta síðan selt. Og nú eru það Rafmagnsveitur ríkisins. Við höfum áður verið með Ríkisútvarpið. Hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins var á dagskrá hér í síðustu viku, undirbúningur undir sölu þess, enda skortir ekki yfirlýsingarnar hjá samstarfsflokknum, Sjálfstæðisflokknum, um að það sé markmiðið. Þetta sé aðeins upphafið. En þegar búið er að ná hlutafélagaforminu í gegn ráða stjórnvöld lítið við framhaldið því það er komið í þennan hlutafélagavæðingar-, einkavæðingar- og sölugír. Okkur kemur það ekkert á óvart þó að Sjálfstæðisflokkurinn reki þessa stefnu, reyndar samræmist það ekki að öllu leyti þeim fornu gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn var upphaflega byggður á, þ.e. stétt með stétt. Nú er það miklu frekar hvernig stétt getur haft af stétt. En okkur kemur þetta á óvart eða við urðum kannski sérstaklega fyrir vonbrigðum með Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokkurinn var byggður upp sem félagshyggjuflokkur og lagði áherslu á að grunnþjónusta eins og rafmagn, fjarskipti, menntun og heilbrigðisþjónusta væri hluti hinna almennu grunnþátta samfélagsins sem ekki ætti að reka á arðsemisgrunni þannig að hún ætti að skila fjármagni til eigenda sinna, íslensku þjóðarinnar. Þetta tel ég hafa verið gildi félagshyggjuflokksins Framsóknarflokksins fyrir nokkrum áratugum, gildi sem núna er reyndar búið að kasta fyrir róða og kemur svo greinilega fram í málflutningi hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins þar sem hún gengur fram í þessari einkavæðingu almannaþjónustunnar.

Við skulum bara velta fyrir okkur reynslunni. Hæstv. iðnaðarráðherra kom í ræðustól áðan og sagði það ekki vera stefnu ríkisstjórnarinnar að selja Rarik þó að búið væri að hlutafélagavæða það. Já, já, það var einn ágætur maður sem sagði: „ég meinti þetta þegar ég sagði það“ þegar hann var spurður af hverju eitthvað hafi ekki staðið lengur. Ég hef engan rétt til að rengja hæstv. ráðherra um að hún meini þetta ekki akkúrat þegar hún stendur hér og segir það, þó að ég fyllist ekkert ofboðslegri trú eða trausti á það að hæstv. ráðherra meini það því að ég þekki fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðherra í þessum málum. Ég þekki yfirlýsingar hennar þegar hún taldi nauðsynlegt að flýta því að komast yfir Landsvirkjun og sameina fyrirtækin til að hægt væri koma þeim á markað og selja þau, og þegar þau féllust í faðma í yfirlýsingum, hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. iðnaðarráðherra, um þessi markmið í fjölmiðlum. Við höfum hinar og þessar útgáfur af stefnuyfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum og einmitt sem lúta að raforkumálunum.

Lítum aðeins á hvað sagt var þegar Síminn, Póstur og sími, var hlutafélagavæddur. Þá var viðtal við þáverandi samgönguráðherra sem fór með þessi mál, Halldór Blöndal, í BSRB-tíðindum, 4. tbl. 8. árg. frá 1995, en Póstur og sími var hlutafélagavæddur 1996. Og af því að þetta er svo táknrænt fyrir einfeldni, ja, ég verð bara að segja það, frú forseti, a.m.k. fyrir mikla trúgirni ráðherra að halda að þeir séu teknir trúanlegir þegar þeir koma hér í ræðustól og segja: Nei, nei, það stendur ekkert til að selja. Sama sagði hæstv. þáverandi samgönguráðherra þegar verið var að hlutafélagavæða Símann. Þá sagði hann, með leyfi forseta:

„Póstur og sími er vel rekin stofnun. Þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu.“ — Er það ekki líka gert í rafmagninu? — „Það er t.d. afar ánægjulegt að Ísland skuli vera fyrsta landið sem notar eingöngu stafrænt símkerfi og ég legg áherslu á að Póstur og sími er hluthafi í sæstrengnum milli Evrópu og Kanada sem hefur opnað og mun í framtíðinni opna ótalda möguleika á fjarskiptasviðinu þannig að við getum fylgst með þeirri þróun sem er í heiminum í dag.“

Og takið eftir hvað stendur 1995:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum sínum á markaðssetningu að vera opinber stofnun sem rekin er eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum, þótt í smáu sé, nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir á Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.“ — Ég vek athygli á því, frú forseti, að þáverandi hæstv. samgönguráðherra segir svo orðrétt: „Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði alfarið í eigu ríkisins.“

Þetta sagði hæstv. samgönguráðherra þegar var verið að hlutafélagavæða Póst og síma. Síðan þekkjum við söguna, að allar þessar yfirlýsingar hafa verið þverbrotnar. Kannski mundi þessi ráðherra segja að hann hafi meint þetta þegar hann sagði það, en ég leyfi mér reyndar að efast um það því að þá þegar voru stigin þau skref sem fara átti í einkavæðinguna. Hver er síðan reynslan með Símann? Jú, gengið var frá sölu hans í haust. Hver voru fyrstu skrefin sem tekin voru hjá því einkavædda, nýselda fyrirtæki? Jú, það var lokun starfsstöðva úti um land. Þær voru svo óhagkvæmar. Það að þrír menn á Blönduósi og jafnvel tveir á Siglufirði sinntu byggðarlaginu þar hvað varðaði tækniþjónustu í fjarskiptum og uppsetningu símkerfa var ægilegur baggi á Símanum og það að nokkrar konur á Ísafirði hefðu það verkefni að svara í síma. Mig minnir reyndar að samgönguráðherra eða einhver slíkur hafi gortað sig af því á sínum tíma að þessi störf væru komin til Ísafjarðar. Þessum konum var sagt upp fyrirvaralaust. Og áfram. Ég er hér með í höndum bréf frá Símanum þar sem hann áformar að loka þjónustustöð sinni á Sauðárkróki og segja þar upp fólki. Þeir gerðu það fyrirvaralaust. Og Sauðkrækingar og Skagfirðingar þurfa að sækja þjónustu sína annað, a.m.k. að hluta út úr héraði, og störfin tapast. Samkennd fyrirtækisins, þó að almannaþjónustufyrirtæki sé en ég lít svo á að Síminn eigi að vera það þótt hann sé seldur, með samfélaginu hverfur. Arðsemiskrafan ein ræður ferð og samkeppni byggðarlagsins, íbúanna og fyrirtækjanna skerðist, vegna þess að viðkomandi fyrirtæki telur sig ekki hafa neinar skuldbindingar og geti bara farið eftir arðsemiskröfunni einni og ráðstafað sinni þjónustu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók þetta einmitt fyrir á fundi sínum í gærkvöldi í Skagafirði og ég vil leyfa mér að vitna til þeirrar samþykktar og munu æ fleiri slíkar samþykktir koma í kjölfar hlutafélagavæðingar og einkavæðingar Rariks. Þetta er sami farvegurinn og Framsóknarflokkurinn er að hleypa almannaþjónustunni í hér á landi.

Í ályktun Vinstri grænna í Skagafirði segir, með leyfi forseta:

„Á aðalfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði síðastliðið sunnudagskvöld [29. jan. 2006] var skorað á Símann að endurskoða ákvörðun sína um lokun starfsstöðvar á Sauðárkróki, fækkun starfa og skerðingu á þjónustustigi í Skagafirði.

Enn fremur hvatti fundurinn sveitarstjórn Skagafjarðar til að taka upp viðræður við Símann um hvernig tryggja megi núverandi störf hjá Símanum í Skagafirði og efla þjónustu við almenning og fyrirtæki í héraðinu.“

Vinstri hreyfingin – grænt framboð bregst við í Skagafirði en einkavæðingarvagninn sem settur hefur verið í gang gengur sína götu. Hæstv. iðnaðarráðherra kom norður í Skagafjörð fyrir skömmu og tilkynnti að nú skyldi gera vaxtarsamning um eflingu starfa og verkefna á Norðurlandi vestra, í Skagafirði og Húnavatnssýslum. Góður ásetningur. En það sem gerist er hins vegar að það fyrirtæki sem var almannaþjónustufyrirtæki og er undirstaða fyrir samkeppnishæft atvinnulíf og búsetu á svæðinu var selt og síðan er starfsstöðvunum lokað, starfsfólkinu þar sagt upp og þjónustan flutt úr héraði og skerðir þar af leiðandi stórlega líka samkeppnisstöðu og þjónustustigið.

Frú forseti. Þetta er það sem gerist. Þetta er nákvæmlega sami vegur og nú er verið að fara með Rarik, með Rafmagnsveitur ríkisins. Við getum sagt nákvæmlega sama um Rafmagnsveitur ríkisins og þáverandi samgönguráðherra sagði um Símann, að hann væri tæknilega vel búinn, þeir hefðu fylgst vel með nýjungum, byggt upp öfluga þjónustu og stæðu vel að málum. Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða hafa gert það líka, a.m.k. alveg fram til þessa, því að bæði fyrirtækið og starfsmennirnir, ef má orða það svo, gera sér grein fyrir að þetta var almannaþjónustustofnun sem hafði það hlutverk að skaffa og veita rafmagn á sem bestum kjörum, öruggri afhendingu og á sem jöfnustum grunni þó að þar hafi verulega skort á. Allar þær breytingar sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert á síðustu missirum varðandi rafmagnsmál, markaðsvæðingu rafmagnsins, hefur leitt til hækkunar í langflestum tilvikum, a.m.k. úti um land, í sjávarplássunum, á bæjunum, bóndabýlunum, hjá íbúum á þeim svæðum þar sem ekki er heitt vatn, á þeim svæðum sem virkilega er þörf á að rafmagnið sé veitt á þeim kjörum að sú byggð og sú búseta og það atvinnulíf fái samkeppnishæfar aðstæður, einmitt þar hefur það hækkað. Þar þótti sérstök ástæða til að láta aðgerðir ríkisstjórnarinnar í rafmagnsmálum koma hart niður.

Ég er með skýrslu sem heitir Mat á þörf fyrir uppbyggingu þriggja fasa raforkukerfis og kostnaður við hana. Meðan Rarik lýtur almennum lögum og forsjá Alþingis, er almannaþjónustufyrirtæki í beinni eigu ríkisins, þá getur ríkið, við hér á Alþingi beitt óskum okkar og kröfum og tilmælum til þessa fyrirtækis og sett þeim skyldur, m.a. um að koma á þriggja fasa rafmagni. Margir þeir sem núna eru með einfasa rafmagn borga jafnframt hæsta verð á kílóvattstund í landinu sem má segja að sé vara sem alls ekki uppfyllir venjuleg markaðsskilyrði, markaðskröfur, en þetta er staðreynd. Og það að einfasa rafmagn skuli vera á bæjum með margvíslegan atvinnurekstur skerðir stórlega samkeppnisstöðu slíkra búa og fyrirtækja. Þessi bú borga jafnframt hæsta verð á kílóvattstundina þó að þau séu bara með einfasa rafmagn. Hvað haldið þið að verði um þessa áætlun þegar búið verður að gera Rarik að hlutafélagi? Markmið hlutafélaga er fyrst og fremst að selja hlutina sína ef einhver býður vel, geta sett þá á markað. Annars væru menn ekki að stofna hlutafélag, það er bara svo einfalt. Það að þetta sé nauðsynlegt til að skapa fyrirtækinu einhverja betri samkeppnisstöðu er bara bull og blekking, enda hefur það starfað með ágætum hingað til.

Frú forseti. Með því að gera fyrirtækið Rarik að hlutafélagi er einmitt verið að gefa því tækifæri til að ná út úr því arði, setja á það hærri arðsemiskröfur sem kallað er, að borga eiganda sínum fjármuni úr rekstrinum í stað þess að skila þeim fjármunum inn í aukna uppbyggingu og þjónustu. Með því að breyta því í hlutafélag er hægt að krefja það um arð. Í kjölfar leyndar er hægt að leyna upplýsingum. Ekki er hægt að gera sömu þjónustukröfur því þetta er orðið hlutafélag sem á að skila arði.

Frú forseti. Það er dapurlegt eða mér finnst það persónulega dapurlegt að það skuli vera hlutverk Framsóknarflokksins — gamla félagshyggjuflokksins sem ég ólst upp með að væri ákveðinn burðarás í félagshyggjuhugsjón landsins, það er félagshyggjan einmitt, styrkur hennar sem hefur gert okkur að þessu öfluga velmegunarlandi á margan hátt sem við nú erum — að leggja allt kapp á að brjóta niður það sem stóð fyrir félagshyggju og samhjálp. Nú er það Rarik, Rafmagnsveitur ríkisins, sem Framsóknarflokkurinn telur nauðsynlegt að hlutafélagavæða, einkavæða, búa undir sölu, búa undir einhverja samkeppni, búa undir það að falla frá því hlutverki sem hingað til hefur verið aðall Rafmagnsveitna ríkisins sem er almannaþjónusta fyrir alla (Forseti hringir.) íbúa landsins hvar sem þeir væru.