132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[17:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er ekkert skrýtið þó að leiðir hafi skilið. Ég á ekki von á að það starfsfólk, sem núna er verið að segja upp hjá starfsstöð Símans á Sauðárkróki, hugsi hlýtt til einkavæðingar og sölu Símans né heldur þeir starfsmenn sem voru látnir hætta fyrirvaralaust á Blönduósi, Siglufirði eða Ísafirði, að þeir hugsi hlýtt til einkavæðingar og sölu Símans. Nei, leiðir skilja, frú forseti, þegar slíkum aðgerðum er beitt á almannaþjónustuna, það er alveg klárt.

Varðandi þriggja fasa rafmagnið er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir um að átak hafi verið gert eða stöðugt hafi verið reynt að vinna að þrífösun. En miðað við skýrsluna sem unnin var er fjarri því að staðið hafi verið við þau fyrirheit sem með henni voru gefin um það mikla átak sem gera ætti í þrífösun rafmagns. En þetta hefur verið á grundvelli þess að Rafmagnsveitur ríkisins hafa verið fyrirtæki í eigu ríkisins sem hægt var að beita. Það var hægt að fresta eða taka fjármuni og láta einmitt ríkissjóð koma með peninga inn í fyrirtækið til að vinna að þrífösun rafmagns.

Núna er því breytt í hlutafélag og þá er eitthvað komið á sem heitir samkeppnisgrundvöllur og þá getur ríkið ekki farið að beita styrk eða tækni, afli Rafmagnsveitna ríkisins samkvæmt pólitískri ákvörðun sinni til að efla þrífösun rafmagns í sveitum. Þá er þetta komið undir allt annað umhverfi. Þá er þetta ekki lengur almannaþjónusta sem hægt er að beita með þeim hætti, heldur er (Forseti hringir.) þetta fyrirtækjarekstur þar sem arðsemin er það (Forseti hringir.) sem drífur reksturinn áfram.