132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:06]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ástæðan fyrir því að ég kem upp í andsvar er kannski fyrst og fremst sú að ég sat á afar merkilegri ráðstefnu sem Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir á föstudaginn sl. þar sem farið var yfir sögu áliðnaðar á Íslandi. Umræðan er eiginlega að endurtaka sig nú. Á árunum upp úr 1960–1961 var upphaflega talað um að virkja stórt á Íslandi og byggja álver sem var byggt í Hafnarfirðinum, í Straumsvík. Þá voru öll vinstri öfl þjóðfélagsins, stjórnmálaöflin, á móti endalaust sí og æ að verið væri að selja útlendingum auðlindina og við mundum tapa þessu alfarið í hendur útlendinga og þetta væri stórhættulegt fyrir íslenskt efnahagslíf.

Á fundinum sem Samtök atvinnulífsins héldu var það upplýst að þjóðin, fyrirtækið Landsvirkjun, sem á Búrfellsvirkjun sem við byggðum í undanfara þess að álverið í Straumsvík var reist, á Búrfellsvirkjun skuldlausa 1990 rétt eins og Sogsvirkjanirnar. Þetta eru gullkvarnir þjóðfélagsins sem mala gull með litlum tilkostnaði og framleiða orku á sjálfbæran hátt, mengunin er engin.

Við skulum minnast umræðu sem við áttum með kollegum okkar í síðustu viku á Norðurlandaráðsþingi þar sem þeir voru að tala um orku sem væri ekki annað en gas og olía, brennsla. Hvað um það?