132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum um enn eitt rafmagnsfrumvarpið. Nú er það stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Í dag ræddum við utan dagskrár um rafmagn. Þetta virðist vera eilífðarmál og vert að spyrja sig: Hvers vegna erum við aftur og enn farin að ræða um rafmagn og álver? Ástæðan er sú að það fást aldrei svör hjá hæstv. ráðherra.

Ég bar áðan upp spurningu í andsvörum við ráðherra en hún svaraði engu. Hún svaraði út og suður. Sama gerðist í utandagskrárumræðunni í dag þegar hún var spurð hvort það samræmdist Kyoto-bókuninni að hafa þrjú eða jafnvel fleiri álver í deiglunni. Það komu engin svör. Ég held að fólkið í landinu vilji vita, án þess að þurfa að velta fyrir sér hvort Rarik heiti Rarik hf. eða ekki, hve háan rafmagnsreikning það fær frá fyrirtækinu. Eins skiptir verulegu máli fyrir fyrirtækin í landinu að vita hvert verðið verður á rafmagni.

Gerðar voru breytingarnar á kerfinu sem hæstv. iðnaðarráðherra fagnaði alveg ægilega og náði að blekkja ýmsa til fylgis við sig, m.a. ýmsa í Samfylkingunni sem vildu jafnvel faðma hana. Ef ég man rétt. vildi hv. þingmaður Kristján Möller faðma hæstv. ráðherra, svo gríðarlega ánægður var hann með þær breytingar. En breytingin hefur ekki verið til góðs fyrir fólkið í landinu, hvað þá fyrir fyrirtækin. En það koma engin svör þegar maður spyr hæstv. ráðherra út í þetta litla frumvarp, hverju það breyti fyrir fólkið í landinu. Hækkar þetta rafmagnsverð eða lækkar það? Maður fær engin svör. Mér finnst ekki sanngjarnt, ef ráðherra leggur fram frumvarp sem á að vera í þágu almennings og við þingmenn spyrjum, sem erum kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, að hún geti ekki svarað slíkum spurningum. Hækkar rafmagnsreikningurinn eða lækkar hann?

Það verður að segjast að eftir að breytingar urðu á raforkumarkaði, sem líta ágætlega út á skrifborðinu, að skipta raforkumarkaði annars vegar í samkeppnismarkað og hins vegar í einokunarmarkað, þá er vafasamt að leggja fram slíkt frumvarp. Rafmagnsveitur ríkisins sinna aðallega dreifingu á rafmagni og eru þess vegna á einokunarsviði. Það skiptir verulega miklu máli með fyrirtæki sem búa við einokun að leiðin að upplýsingum sé opin, um kostnaðinn, hvernig hann skiptist og hvert fyrirtækið þróast. En um leið og við erum búin að samþykkja þetta frumvarp og komið hf. fyrir aftan Rarik þá höfum við lokað af upplýsingaflæði frá þessari eign ríkisins. Það skiptir verulegu máli.

Ég er sannfærður um að það verður ekki fólkinu í landinu til hagsbóta að loka þessar upplýsingar af. Við fáum ekki að vita hvort fyrirtækið gerir starfslokasamninga við fyrrverandi forstjóra, sem hafa starfað um skamma eða langa hríð. Við höfum dæmi um það. Við höfum ekki fengið slíkar upplýsingar frá Símanum þegar þeir gerðu starfslokasamning við mann sem hafði glatað stórum fjárhæðum sem forstjóri fyrirtækisins. Þá fékk almenningur ekki að vita hve háar upphæðirnar voru. Þetta frumvarp mun leiða til hins sama ef gerður verður starfslokasamningur innan Rariks, að þá fáum við ekki upplýsingar um fyrirtækið.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það til hagsbóta fyrir almenning að stöðva upplýsingaflæðið? Ég get ekki séð það. Við sjáum einnig að ef að þetta frumvarp verður að lögum þá gerist ekkert annað. Fyrirtækið getur fjárfest í öðrum félögum og almenningur þarf ekki að fá að vita um það. Ég er á því að þessi upplýsingaskylda þurfi að koma til og auknar kröfur til hlutafélaga í opinberum rekstri ef samþykkja á þetta frumvarp. Annars verður þetta ekki til góðs fyrir almenning.

En fyrst að hæstv. ráðherra er í salnum vil ég beina spurningu til hennar. Ráðherra sakaði mig fyrr í umræðunni um rangfærslur og meira að segja rangfærslur á fundum um allt land. Mér þykir það leitt ef svo er en ég vil fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvað ég sagði rangt. Ég vil ekki fara rangt með og ég ber mikla virðingu fyrir dugnaði hæstv. ráðherra við að álvæða landið þótt ég harmi að hún sýni ekki sama dug þegar kemur að iðnaðinum í heild sinni. Mér finnst að hæstv. ráðherra, sem ég ber virðingu fyrir og sakar mig um að fara með rangt mál, eigi að upplýsa mig um hvar ég fór rangt með.

Ég sagði að ráðherra hefði sagt að þetta væri einungis 100 kr. hækkun. Ég gerði það í góðri trú og fann því stað í þingtíðindum að hæstv. ráðherra sagði að breytingar á raforkumarkaðnum yrðu litlar. Ég vitna hér orðrétt í ræðu sem hæstv. ráðherra flutti, með leyfi forseta:

„Auk þessa er meiri jöfnun í kerfinu en var áður sem getur þýtt örlitla hækkun á þessu svæði. En ég held að það sé ekki erfiðara en svo að það sé teljandi í einhverjum hundraðköllum á ári. Þannig verður ekki nein stórkostleg breyting. Það eru ýmsar svona breytingar sem eiga sér stað en þær munu ekki verða stórkostlegar.“

Við þingmenn höfum fengið fréttir utan af landi um 50% hækkanir á húshitunarkostnaði. Síðan fáum við fréttir frá Samtökum iðnaðarins, sem segja að ný raforkulög leiði til hærra vöruverðs. Frú forseti. Ég tel mig ekki hafa farið með rangt mál þar. Fór ég rangt með þegar ég sagði að raforkuverð hafi hækkað um tugi prósenta? Það er a.m.k. víst að það varð ekki hundraðkalla hækkun, frú forseti. Það er ekki hundraðkalla hækkun heldur veruleg hækkun.

Hið sama gildir um þá sem þurfa að hita upp atvinnuhúsnæði úti á landsbyggðinni. Ég hef talað við menn í Strandasýslu. Þeir fá tugprósenta hækkun, 30% hækkun. Þar hefur ekki orðið hundrað króna hækkun. Ég hef ekki farið með rangt mál hvað þá varðar. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að svara því, hvenær ég fór með rangt mál. Ég vil ekki fara rangt með og vil komast til botns í þessu. Þegar slíkar breytingar ganga yfir og svo miklar hækkanir verða hjá fáum þá verður að komast til botns í því og vinna á því. Það gengur ekki að afneita því. Iðnaðurinn hefur orðið fyrir tugprósenta hækkun. Það má ekki vera svo mikið kapp hjá hæstv. ráðherra í að semja um raforkuverð til álvera að verðið hækki á öðrum sviðum.

Ég vil að hæstv. ráðherra virði fyrir sér samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar. Ég er á því að ef allt væri með felldu hefðu þessar öflugu virkjanir og raforkukerfið sem þjóðin hefur smám saman verið að greiða niður, leitt til lækkunar á raforkuverði en ekki til hækkunar. En því er ekki að heilsa, frú forseti. Skoðum hvílíkt forskot við gætum haft á aðrar þjóðir í þeim efnum. Ég er ekki viss um að við ættum að stefna að lægri launakostnaði í landinu. Ég er á því að við ættum að hafa há laun í landinu. En hvar höfum við forskot? Við eigum ódýra orku og ættum með því að geta stutt við bakið á iðnfyrirtækjum.

Ef maður les skýrslur sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram þá sést að rafmagn til iðnaðar er ekki lægra á Íslandi en í nágrannaríkjunum. Það er jafnvel ívið hærra og miklu hærra en í Svíþjóð. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að íslenskur iðnaður býr við lítinn markað og háan flutningskostnað ef sótt er á erlendan markað. Ég vonast til að hæstv. ráðherra skoði þetta með gagnrýnum augum og sjái að ég fer ekki með rangt mál, langt í frá.

Í umræðunni hefur áður komið fram að breytingarnar á raforkumarkaðnum áttu að leiða til 140 millj. kr. hækkunar í kerfinu, samkeppniskerfinu. Það væri óskandi að hæstv. ráðherra gerði betur grein fyrir því hver hækkunin varð í raun. Því það kemur ekki fram í skýrslu hæstv. ráðherra. Það kemur ekki fram hver hækkunin varð í raun. Þar er nefnd hækkun hér og hækkun þar og kannski örlítil lækkun á nokkrum stöðum. Þess vegna væri mjög spennandi að fá fram hvar raforkuverð í landinu hefur bólgnað út. Ýmislegt bendir til þess að raforkuverð ætti að fara lækkandi á Íslandi. Raforkufyrirtækin skulda í erlendri mynt, sem hefur farið lækkandi miðað við íslenska krónu. Skuldabyrði þeirra ætti því eitthvað að minnka. Í stað þess að bjóða neytendum upp á hækkanir ættu þau að geta lækkað verðið. Ég vona að ráðherra taki vel í þessa umræðu og skoði málin á gagnrýninn hátt en afneiti ekki ástandinu og fari í einhverja útúrsnúninga. Málið er alvarlegra en svo. Fyrirtækin eru að fara úr landi. Það hefur komið fram að laxeldið fyrir austan fékk verulega hærri rafmagnsreikninga. (JBjarn: Það væri fróðlegt að ráðherra rifjaði upp hvað rafmagnið kostar þarna.) Ég er á því að staðan sé alvarleg.

Rétt er að huga að því sem breytingar á raforkumarkaði erlendis hafa leitt af sér? Ég hef kynnt mér eilítið hvernig það gerðist í Skotlandi. Þar virðast breytingarnar hafa leitt til lækkunar hjá stærstu notendunum en hærra raforkuverðs hjá öðrum. Mér hefði þótt vænt um að hæstv. ráðherra segði okkur hvernig hún sér fyrir sér breytingarnar á raforkumarkaðnum. Bæði fyrirtækin og almennir neytendur hafa einungis séð hækkanir. Ef til vill hefur verið meira svigrúm þess vegna, ég veit það ekki, til að lækka raforkuverðið til álveranna. En þetta þarf að koma fram.

Í ágætri skýrslu sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði fyrir þingið, sem vantar þó margt upp á, kemur fram á bls. 36 að árið 2008 verði um 80% af allri raforkuframleiðslunni seld til stóriðju, sem leiðir til þess að einungis 20% á markaðnum eru í samkeppni. 80% eru í föstum samningum. Þá fer maður að velta fyrir sér hvort umbúnaðurinn um þessi 20% verði of mikill. Hin 80% eru hvort sem er í föstum samningum, leynisamningum sem maður fær ekki fregnir af. Maður fær ekki að vita hvert verðið er til stóriðjunnar. Ég tel það ekki þessari umræðu til framdráttar. Það á vitanlega að vera uppi á borðinu þannig að menn sjái að stóriðjustefnan sé öðrum fyrirtækjum jafnframt til hagsbóta. Það á ekki velta þessu yfir á þau en það óttast fólk einmitt.

Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra segi hreint út hvar menn hafa farið rangt með. Ef hún gerir það ekki, frú forseti, þá mætti segja að hún hafi verið með dylgjur, þ.e. með því að gefa í skyn að farið hafi verið með rangt mál en geta ekki sagt hvað í því felst. Það er ekki umræðunni til framdráttar, frú forseti.