132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að koma inn í umræðuna og svara ýmsu sem fram hefur komið þó ég vilji helst ræða raforkuverð undir öðrum dagskrárlið sem vonandi verður bráðum tekinn á dagskrá, þ.e. um skýrsluna sem ég hef lagt fram um þróun raforkuverðs. En af því hv. þingmaður gerði þetta mál mjög að umtalsefni ætla ég í örfáum orðum að koma inn á þetta.

Þá vil ég í fyrsta lagi segja að samkvæmt sennilega síðustu úttekt á verðbólgunni og vísitölunni lækkaði raforkuverð í þeirri úttekt almennt. (SigurjÞ: Frá hvaða tíma?) Ég á eftir að athuga betur hvenær þetta var, þetta var alla vega í þessum mánuði. Ég tel mjög virðingarvert af hv. þingmanni að hafa fundið tilvísunina sem hann hefur notað mjög úr máli mínu í tengslum við breytinguna á raforkulögunum. Það skýrir nákvæmlega sem ég sagði áðan, að hann fer með rangt mál. Kannski er um misskilning að ræða þegar hann segir að ég hafi sagt að það væri meiri jöfnun í kerfinu og að þetta gæti kostað einhverja hundraðkalla. Þá er ég að segja frá því að jöfnunin nær lengra út í hinu nýja kerfi en áður. Fólk á suðvesturhorninu tekur þátt í meiri jöfnun á raforkuverði en áður. Þetta er ég að segja að kosti einhverja hundraðkalla, aukin jöfnun í kerfinu. Þá er hv. þingmaður vonandi búinn að átta sig á að hann fór með rangt mál. Ég hef heyrt hann segja að ég hafi sagt að hækkunin gæti ekki orðið nema einhverjir hundraðkallar. Þá er ég bara að tala um jöfnunina.

Einnig kom hann inn á að við veltum kostnaði yfir á almenning og iðnfyrirtæki vegna stóriðju. Það er ekki rétt. Stóriðjan sér um sig sjálf og það er ekkert samband þarna á milli. Gerðir eru sérstakir samningar um raforkuverð af hálfu álfyrirtækjanna sem eru einangraðir í kerfinu. Svo spyr hann hver sé raunveruleg hækkun í kerfinu. Það er lítill viðbótarkostnaður sem verður til með þessum nýjungum. Það er bara verið að raða hlutunum öðruvísi upp. Þess vegna hafa sumir hækkað og aðrir lækkað, sérstaklega vegna þess að í gamla kerfinu var mjög mikið það sem ég hef stundum kallað sullumall. Það var ekki gegnsæi. Menn vissu ekki hvernig rafmagnsverðið varð til. Sú frétt sem vitnað var til um hækkandi verð hjá iðnfyrirtækjum er m.a. skýrt með því að viðkomandi fyrirtæki voru á mjög óeðlilegum kjörum áður en nýja fyrirkomulagið var tekið upp. Orkufyrirtækin fóru að laga til innandyra hjá sér þegar nýju lögin gengu í gildi og þetta voru afleiðingarnar. Þetta liggur alveg fyrir.

Af því að vitnað var í forstjóra Samtaka iðnaðarins þá heyrði ég líka viðtalið við hann og tel að hann hefði átt að kynna sér málið betur áður en hann fór að tjá sig opinberlega. Ég held að ég fari ekki meira í þetta að þessu sinni.

Ég vil koma örstutt inn á það sem fram kom hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um hina margumtöluðu tilskipun frá Evrópusambandinu, að við hefðum ekki þurft að innleiða hana. Við þurftum einfaldlega að innleiða þá tilskipun. Við erum á innri markaði Evrópusambandsins og þurfum að innleiða þær tilskipanir sem varða innri markaðinn og þetta er eitt af því. Við erum margbúin að fara í gegnum þá umræðu og ég held að við komumst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að þetta var óumflýjanlegt. Ég vil líka fullyrða að þó að þetta hefði ekki komið til hefðum við að sjálfsögðu þurft að breyta fyrirkomulagi okkar. Við gátum ekki haldið áfram með það fyrirkomulag að Landsvirkjun hefði þá sérstöðu sem hún hafði innan kerfisins, að hafa sérleyfi á framleiðslu á rafmagni. Þannig var það. Orkuveita Reykjavíkur eða Hitaveita Suðurnesja gátu ekkert framleitt rafmagn inn á kerfið nema fá samþykki fyrir því hjá Landsvirkjun vegna þess að Landsvirkjun átti flutningsnetið. Hvað sem hefði orðið um tilskipunina og þó hún hefði aldrei komið fram hefðum við að sjálfsögðu reynt að þoka okkur inn á þá braut að taka upp samkeppni í framleiðslu á raforku og reynt að skipta upp kerfinu þannig að sérleyfisþættir væru reknir sérstaklega og samkeppnisþættir í öðrum rekstri, þ.e. að það væri skilið þarna á milli. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því. Ég er alveg sannfærð um, og hef náttúrlega oft sagt það, að það var rétt að gera þetta. Þó að það hafi verið einhverjir byrjunarörðugleikar mun það sanna sig á fáum árum að að sjálfsögðu var hárrétt að fara út í þessar breytingar.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem fram kom í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hann telur nokkuð þokukennt hvað ríkisstjórnin sé að fara í þessum málum. Það er ekki nokkur þoka yfir því sem ég hef í huga í sambandi við framtíðina varðandi þau fyrirtæki sem ríkið á, Landsvirkjun, Rarik og Orkuveitu Reykjavíkur. Þó verður töf á því að þær breytingar geti átt sér stað vegna þess að það tókst ekki það ætlunarverk okkar, þegar ég segi okkar þá meina ég allra þeirra sem eiga Landsvirkjun, að ríkið keypti meðeigendurna út úr fyrirtækinu. Þetta átti að gerast á síðasta ári miðað við okkar vilja en náðist ekki. Ég held að það sé ekki rétt að fara mikið út í þá umræðu hér. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það, að það náðist ekki samkomulag. Sumir segja að það hafi verið um verð og aðrir segja að það hafi verið um eitthvað allt annað. Ég vonast svo sannarlega til þess að af þessu geti orðið á þessu ári. Ég held að það sé mikilvægt allra hluta vegna. Við höfum hugsað þetta þannig að móðurfyrirtæki yrði yfir rekstrinum öllum og það að stofnað skyldi vera til þessa sölufyrirtækis núna af hálfu þessara fyrirtækja eru viðbrögð við breyttum aðstæðum á markaði þannig að þessi fyrirtæki í eigu ríkisins geti haft tækifæri til að spreyta sig á markaðnum sem hefði ekki verið ella. Frumvarpið sem við fjöllum um núna, að breyta Rarik í hlutafélag, er náttúrlega lagt fram fyrir jólin með það í huga að bæta stöðu þess fyrirtækis miðað við hinar breyttu aðstæður. Ef það hefði verið samþykkt fyrir jól hefði sennilega verið farið öðruvísi í hlutina en það þýðir ekkert að tala um það héðan af. Ég vona bara að frumvarpið sem við fjöllum um núna fái greiða leið í gegnum þingið.

Hv. þingmaður talaði einnig um sérstöðu Reykjavíkur og Akureyrar að hafa fengið hlut í fyrirtækinu. Það er alveg rétt að það hefur skapað þeim gríðarleg verðmæti. Þó ekki hafi náðst samkomulag um hversu mikil þau verðmæti eru þá eru þau mikil. Við verðum líka að hafa í huga að þau verða til vegna þess að sveitarfélögin leggja eignir í fyrirtækið, annars vegar Sogsvirkjanir og hins vegar Laxárvirkjun og síðan náttúrlega aukast verðmæti þessa fyrirtækis vegna þeirrar starfsemi sem það er í. Ríkið er auðvitað búið að drífa áfram þann rekstur miklu frekar en sveitarfélögin, en við getum ekki horft fram hjá því að þau eiga þennan hlut og sá hlutur verður ekki tekinn af þeim öðruvísi en að greitt verði fyrir hann.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fara í fleiri þætti sem fram hafa komið. Ég held að heilt yfir hafi þetta verið málefnaleg umræða og ekkert nema gott um það að segja. Ég veit að henni er ekki lokið og mun verða viðstödd og hlusta á þá sem eiga eftir að taka til máls.