132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er með örfáar spurningar til hæstv. ráðherra. Ég sagði að íslensk iðnfyrirtæki væru að kvarta undan gríðarlegum hækkunum nú nýverið á raforku til sín. Fyrirtæki eins og Plastprent sem kvartar undan því að það greiði 40–50 sinnum meira fyrir raforku sína en stóriðjan greiðir. Hæstv. ráðherra segir að þær hækkanir megi rekja til þess að það hafi verið svo mikið sullumbull eða eitthvað því um líkt sem ríkti í kerfinu og orkufyrirtækin hafi verið knúin til þess að taka til hjá sér. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hún að segja að slælegur rekstur orkufyrirtækjanna fyrir breytingar á raforkulögunum hafi orðið til þess að iðnfyrirtæki á Íslandi, sígild íslensk iðnfyrirtæki, greiði nú fyrir raforkuna álíka mikið og þeir sem hæst greiða í Vestur Evrópu? Er þetta rétt skilið hjá mér?

Ef svo er finnst mér þetta nokkuð merkileg niðurstaða hjá hæstv. ráðherra og vil í framhaldi af því fá að vita hvernig hæstv. ráðherra sér innlent atvinnulíf í nánustu framtíð, hvernig á það að komast af í því verðumhverfi sem er til staðar í dag?

Varðandi ummæli hæstv. ráðherra um að hún hafni því að verið sé að velta kostnaði af raforkuframleiðslu til stóriðju yfir á almenningsveiturnar vil ég minna hæstv. ráðherra á að það er ekki lengra síðan en á orkuþingi 2001 að fjármálastjóri Landsvirkjunar hélt langt erindi um að það borgaði sig ekki að setja upp sjálfstætt fyrirtæki sem ætlað væri að virkja eða framleiða raforku til stóriðju, það yrði að koma til ríkisábyrgðir á lánum og annað sem ríkið legði til þeim fyrirtækjum sem þá (Forseti hringir.) voru og nú eru að virkja fyrir stóriðjuna.