132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:42]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert launungarmál að það skiptir Landsvirkjun mjög miklu máli að hafa ríkisábyrgð á lánum sínum. Hvað varðar iðnfyrirtækin í landinu almennt, að þau greiði svona hátt verð fyrir rafmagnið, kemur auðvitað gengi krónunnar inn í þann samanburð. Rafmagnsverð á Íslandi er ekkert sérstaklega lágt heilt yfir borið saman við aðrar þjóðir. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem ég hef vitnað til. Ég ítreka að gengi krónunnar hefur að sjálfsögðu áhrif í þeim samanburði.

Þegar ég tala um fyrirkomulagið eins og það var áður hvað varðar iðnfyrirtækin, að þau hafi í raun ekki verið að greiða eðlilegt verð fyrir rafmagn, er ég að segja að hinir almennu neytendur hafi verið að niðurgreiða verð til iðnfyrirtækja í gamla fyrirkomulaginu í einhverjum mæli. Í hversu miklum mæli ætla ég ekki að segja um. Þetta eru bara þær staðreyndir sem blasa við. Í því fyrirkomulagi sem við höfum tekið upp núna er ekki um að ræða að það verði gert. Dreifikerfið og flutningskerfið eru eiginlega núlluð út. Þau hafa ekki áhrif á verðið heldur einungis orkuþátturinn, orkuverðið sem fyrirtækin eru til samninga um. Vissulega getur verið hægt að ná þar góðum samningum ef um stóran kaupanda er að ræða og hugsanlega ef um ótrygga orku er að ræða o.s.frv., en það geta ekki allir notað slíkt. Ég ítreka að við erum að fóta okkur í mjög breyttu fyrirkomulagi og ég er trúuð á að þetta hafi allt saman verið rétt sem við gerðum.