132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:54]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega komið dálítið langt út fyrir efnið þegar hv. þingmaður fer að tala um að nýja stefnan sé samkeppni en ekki samvinna. Markaðskerfið sem við erum búin að taka upp, ekki bara á Íslandi, það er yfirleitt alls staðar í Evrópu búið að taka upp markaðskerfi. Við vorum hvað síðust Íslendingar, sennilega bara allra síðust. Kommúnistaþjóðirnar sem voru áður í Austur-Evrópu voru á undan okkur margar hverjar að taka upp markaðskerfi. Ég er búin að vera víða á fundum, t.d. í Albaníu og þar eru allir að dásama markaðskerfið, nema einn lítill flokkur á Íslandi sem er algjörlega á móti því. (Gripið fram í.) Það hefur eitthvað með uppruna viðkomandi þingmanna að gera eða þetta gamla kerfi sem var fyrir austan okkur. Ég kann ekki alveg að skilgreina það. En markaðskerfi (ÖJ: Lífeyrisréttindin.) er það sem skiptir máli í dag. Samvinnan (Forseti hringir.) er líka góð.