132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:11]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að koma upp í andsvar. Hann fór yfir nokkra þætti í ræðu minni sem ég get um margt verið sammála. Eitt atriði sem hann kom inn á var að við værum að taka fullt lán fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ég minni á það sem ég sagði fyrr úr þessum ræðustóli í dag að það voru tekin lán fyrir Búrfellsvirkjun á sínum tíma. Það hefur verið upplýst að þau lán eru að fullu og öllu greidd vegna sölusamninga við Ísal í Hafnarfirði. Sú uppgreiðsla átti sér stað um 1990. Við eigum því Búrfell skuldlaust frá þeim tíma og það er einkum og fyrst og fremst vegna sölu orku til Ísals.

Við skulum horfa á sama hátt til þess að við munum eignast Kárahnjúkavirkjun skuldlausa innan einhverra tiltekinna ára. Því ber að fagna og við skulum muna að í dag fer álverð hækkandi og við erum að fá hærra verð fyrir raforkuna. Allar neikvæðar raddir um Kárahnjúkavirkjun hafa breyst og einvörðungu eru jákvæð teikn um að þetta muni ganga betur en við þorðum að vona.

Hv. þingmaður spurði hvort ég vildi selja Rarik og hvaða forsendur þyrftu að vera fyrir hendi og hvenær. Það er ekki auðvelt að svara því hér og nú, það er margt sem þarf að skoða í samhengi. Það eru samlegðaráhrif, hugsanlega að sameina fyrst þau orkufyrirtæki sem eru í eigu opinberra aðila og skoða svo hverjir kostirnir eru. Eins og endranær eru allir hlutir til sölu í sjálfu sér ef rétt verð er boðið.