132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vinstri græni flokkahópurinn í Norðurlandaráði er afar fær til að skoða mælistikur OECD. Og út frá hverju gerir hann það? Út frá status velferðarkerfisins og út frá því hvernig fátækt fólk hefur það og út frá því hvernig bilið á milli ríkra og fátækra í þessum löndum er að breikka. Það hefur breikkað langmest hjá okkur hér á Íslandi. Hv. þingmaður á margt ólært ef hann er ekki betur inni í umræðunni um það hversu gallaðar þær eru mælistikurnar sem OECD og aðrar slíkar stofnanir nota í mælingum sínum. Þær eru afar einhliða og einlitar og mæla ekki dínamík þjóðfélagsástandsins, sannarlega ekki, og sérfræðingar viðurkenna að þær geri ekki.

Varðandi hins vegar það hvort minn flokkur mundi aldrei um ókomna framtíð, aldrei nokkru sinni geta samþykkt að hlutafélag á borð við Rarik yrði selt og hvað þurfi að koma til í þeim efnum þá höfum við talað algerlega skýrt. Við skilgreinum ákveðna þætti grunnþjónustunnar út frá þeim sjónarmiðum að þar sé um fyrirtæki í almannaeigu að ræða, þ.e. fyrirtæki sem annast almannaþjónustu, sem sé ekki eðlilegt að hafa á samkeppnismarkaði. Hér er lítil þjóð í stóru landi sem þarf að annast þá grunnþjónustu og það skiptir bara máli að hún sé til staðar og að hún sé nægilega öflug til þess að sinna slíkum grunnþörfum þjóðarinnar. Fyrir þær á greiða fyrir úr opinberum sjóðum okkar þannig að þjóðin greiði eins lág notendagjöld og mögulegt er að komast af með. Þessar grunnþarfir á að annast þannig. Allt annað, allur annar rekstur, allur almennur fyrirtækjarekstur getur að sjálfsögðu átt vel heima í hlutafélögum, að sjálfsögðu. Hlutafélög eiga ágætlega (Forseti hringir.) við á þessum samkeppnismarkaði en það á grunnþjónustan okkar ekki.